06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

141. mál, innheimta afnotagjalda hljóðvarps og sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Heimir Hannesson) :

Herra forseti. Af því að þær fyrirspurnir, sem lágu hér fyrir síðast, og sú sem hér hefur verið borin fram, eru svo nátengdar, þá vona ég að ég brjóti ekki mjög alvarlega þingsköp eftir þær upplýsingar, sem hafa legið fyrir hér frá hv. þm. Helga F. Seljan og hæstv. menntmrh. um skáldalaun, að það væri e. t. v. tilvalinn tekjustofn eftir þær upplýsingar, sem fram komu, að taka sjónvarpsmynd af þingveislunni í næstu viku, þó að það verð fari kannske ekki alveg upp í það sem hv. þm. Karvel Pálmason talaði um að Lénharður fógeti muni kosta.

Ég hef beint þeirri fyrirspurn á þskj. 266 til hæstv. menntmrh., hvort hann vilji beita sér fyrir því, að veittur verði afsláttur á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins þar sem verulegar truflanir hafa orðið eða muni verða á þjónustu þessarar stofnunar að því er varðar útsendingu meginmiðla þessarar margræddu stofnunar þ. e. a. s. hljóðvarps og sjónvarps. Tilefni þessa er öllum hv. þm. ljóst. Víða úti í hinum dreifðu byggðum skortir því miður mikið á það, að útsendingar hljóðvarps berist nægilega vel og mjög alvarlegar truflanir hafa orðið á útsendingu sjónvarpsins, auk þess sem víða skortir almennt á að eðlilegum útsendingarskilyrðum sé fullnægt.

Eins og fram hefur komið og hér hefur verið heilmikið rætt, urðu mjög alvarlegar truflanir á þessari þjónustu í vetur og þá einkum um síðustu jól og áramót og nokkuð fram eftir janúarmánuði. Einkum voru það austfirðingar, eins og kunnugt er, sem lengst voru sviptir þessari þjónustu. En enn þá eru mjög ófullkomin skilyrði víða á Norðurlandi, þar sem mikil óánægja ríkir með útsendingarþjónustu Ríkisútvarpsins. Mér er alveg ljóst að framkvæmd afsláttar á afnotagjöldum er ekki að öllu leyti einfalt mál né heldur er um að ræða sérlega stórt fjárhagsatriði fyrir hvern og einn, enda er þessi fsp. ekki borin fram fyrst og fremst í því skyni. Það er hins vegar stefnumarkandi mál, sem miklu skiptir í stóru og smáu, að þegnar þessa lands sitji við sama borð á sem flestan hátt, ekki síst þegar um er að ræða opinbera þjónustu.

Ég ætla ekki að gera sérstaklega að umræðuefni opinber svör talsmanns eða talsmanna Ríkisútvarpsins í þessu sambandi, en verð þó að segja það, að þar fannst mér ríkja fullmikil oftrú á orðalag lagagreina án þess að komið væri að kjarna málsins. Það er auðvitað almenn regla í öllum viðskiptum, sem styðst við almennar lagareglur og almennar viðskiptareglur, að því aðeins er til þess ætlast að þiggjendur þjónustu greiði hana, að hún sé yfirleitt látin í té, enda þegar upplýst af hálfu ýmissa forráðamanna Ríkisútvarpsins að fordæmi séu fyrir hendi af hálfu þeirrar stofnunar.

Ég sé það í tiltölulega nýju þskj., nr. 276 frá hv. þm. Helga F. Seljan, að hann leggur þar til að tekin séu af öll tvímæli útvarpslaganna og sett inn í þau lagaheimild, er sérstaklega heimili hæstv. menntmrh. þau afskipti er ég hef vakið hér máls á. Þetta er prýðilegt mál hjá hv. þm. sem ég vona að fái skjóta afgreiðslu. Hitt hygg ég að ljóst sé að eftir sem áður getur hæstv. menntmrh. haft slík afskipti sem til er lagt. Má í því sambandi vísa til þess, að einkaréttur Ríkisútvarpsins skapar því vissar skyldur og hreinlega út í hött að túlka lögin á svo einstrengingslegan hátt að skyldur Ríkisútvarpsins séu það takmarkaðar, að menn verði nánast að sætta sig við hvað sem er. Ég held að þeir, sem verst eru settir í þessum efnum, hafi sýnt mikla biðlund og langlundargeð, og er ekki nema eðlilegt að alvarlegar óánægjuraddir komi þegar út yfir allt tekur. A. m. k. er ég hræddur um, að einhvers staðar hefði heyrst hljóð úr horni hér á suðvesturhorni landsins ef þjónusta Ríkisútvarpsins hefði fallið niður allt að því í heilan mánuð, og sennilega hefði einhver af þeim allra undirskriftaglöðustu hugsað sér til hreyfings og kannske ekki furða.

Það er grundvallaratriði þessa máls, að hið opinbera sýni í verki að allir þegnar þessa lands eigi að búa við jafnrétti, hvar á landinu sem þeir eiga heima. Nægilegur er aðstöðumunurinn fyrir. Ég tel að framkvæmd þessa máls sé einn prófsteinn gagnvart þeirri afstöðu og stefnumörkun.

Ég vil sérstaklega lýsa því yfir, að ég treysti hæstv. menntmrh. alveg sérstaklega í þessu máli. Hann þekkir þessi mál betur en flestir aðrir og ekki siður það fólk er við þessa aðstöðu hefur búið í allt of langan tíma. Ég treysti hæstv. ráðh. til skjótra aðgerða, og eftir því verður vel tekið hverjar aðgerðirnar verða.