06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

141. mál, innheimta afnotagjalda hljóðvarps og sjónvarps

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Mig langar til að það komi fram hérna — eða fá tækifæri til að árétta það öllu fremur, að fyrirhugaðar eru, a. m. k. ráðgerðar breytingar á innheimtukerfi útvarpsins. Innheimtukerfið, eins og það er núna, er æðidýrt, sem eðlilegt er, það er heilmikið um sig, og það eru uppi hugmyndir um að breyta þessu og innheimta útvarpsgjöldin með einhverjum hætti með gjöldum til ríkisins. Það er alveg sýnilegt, að ef við tækjum upp afsláttarkerfi eins og hér er rætt um, þá kostaði það töluvert mikla vinnu, og ég árétta það, að ég tel ekki rétt að leggja út í það fyrirtæki heldur beri að kasta kapps um að það, sem við kynnum að geta sparað með breyttri tilhögun á innheimtu, yrði ekki ódrýgt með því að fara út í útreikninga af þessu tagi, heldur reynt að nýta það sem allra mest og best til að treysta flutningaæðar útvarps og sjónvarps og tengja þær til allra landsmanna.