06.03.1975
Sameinað þing: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Nokkur undanfarin ár hafa þm. Alþfl. flutt þáltill. um eignarráð þjóðarinnar á landinu, gögnum þess og gæðum. Þessar till. hafa tekið nokkrum breyt., aðallega orðalagsbreyt., en hafa þó hvað innihald snertir hallast meir og meir í áttina til þess að þjóðin skuli eiga allt landið. Ég vil. herra forseti, leyfa mér, að byrja á því að lesa tillgr. eins og hún nú er orðuð á þskj. 71.

Alþ. ályktar, að stefnt skuli að því að allt land verði alþjóðareign (eign ríkis eða sveitarfélaga), en bújarðir verði í eigu bænda þegar þeir kjósa þann hátt fremur en að hafa lönd sín að erfðafestu. Ríki og sveitarfélögum skal þó tryggður forkaupsréttur á öllu landi.

Alþ. ályktar að leggja fyrir ríkisstj. að hún 1áti sérfróða menn semja frumvarp eða frumvörp að lögum um eignarráð og eignarréttindi þjóðarinnar yfir byggðu landi og óbyggðu, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu, sem ekki eru þegar í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Glöggt verði kveðið á hvernig landareign og landnytjar færist úr einkaeign í eign ríkisins og hvernig bætur skuli reiknast fyrir.“

Till. þessi er, eins og heyra má, mjög víðtæk og mundi gera ráð fyrir stórkostlegum þjóðfélagsbreytingum í landi okkar. Engu að síður teljum við þm. Alþfl. að þróun mála undanfarin ár hafi í sívaxandi mæli fært mönnum heim sanninn um að þetta mál eigi rétt á sér og það er, þegar til framtíðar er litið, óhugsandi annað en þjóðin sjálf eigi landið allt. Við höfum í till. okkar að vísu gert eina veigamikla undantekningu, að bújarðir verði í eigu bænda, enda teljum við að það sé reginmunur á því, þegar eigendur landsins búa á því og nytja það, eða hinu, er þeir búa ekki á landi, sem þeir eiga, eða hagnýta það. Þessari undantekningu, sem hefur verið till. okkar, er gjarnan sleppt í andróðri gegn málinu og bændum talin trú um að Alþfl. sé að leggja til að jarðir þeirra verði af þeim teknar. Ég hygg þó, að sannleikurinn sé sá, að þetta mál sé öðru fremur hagsmunamál fyrir bændastéttina og framgangur þess muni tryggja framtíð hennar betur en flest önnur mál þegar til lengdar lætur.

Hugmyndir um það, að þjóðir sem heild eigi allt land, eru að sjálfsögðu ekki nýjar af nálinni. En þróunin undanfarin ár hefur valdið því að þeim hefur vaxið ásmegin,ekki aðeins hér á landi, heldur í fjölmörgum öðrum löndum. Hagnýting landsins hefur orðið erfiðari viðfangs og hefur verið sett í mörgum löndum margs konar löggjöf um takmarkanir í því sambandi til að tryggja hagsmuni heildarinnar. Þess eru dæmi jafnvel í öflugustu auðvaldsríkjum nútímans að margs konar hlunnindi eru og hafa jafnvel lengi verið sameign, sem ekki eru það hér á landi.

Ég þarf ekki að lýsa því, hvers vegna þessi þróun hefur átt sér stað. Orsakirnar hafa raunar teygt arma sína um jörðina alla, en haft áhrif í hverju einasta landi í meiri eða minni mæli og munu gera svo á næstunni. Gífurleg fjölgun mannkynsins er ein ástæða. Iðnvæðingin, sem hefur orðið til þess að maðurinn hefur lagt undir sig til eigin nota meira og meira af jörðinni, er önnur ástæða. Ýmiss konar auðlindir jarðarinnar virðast nú vera takmörkunum háðar og menn sjá fram á að þær kunni að ganga til þurrðar, og þarf ekki að rekja frekar afleiðingar af þeirri þróun. Þá hefur mengunin orðið svo margvísleg, að mönnum hefur orðið ljóst að svo getur ekki fram haldið. Þegar allt þetta kemur saman hefur það gerst að fleirum og fleirum verður ljóst hvílíkt grundvallarverðmæti landið er og hversu mikilvægt er, að vel og skipulega sé með það farið.

Alþfl. lítur svo á, að það stríði gegn hagsmunum alþjóðar og réttarkennd alls þorra landsmanna að land og lóðaeigendur geti án minnstu hlutdeildar þeirra sjálfra stórhagnast á aðgerðum hins opinbera eða jafnvel á atburðum úti í heimi án þess þeir hafi nokkuð lagt fram sjálfir sem réttlæti gróða er oft á tíðum getur orðið stórfelldur. Þessi gróði getur komið til vegna breytinga á byggð, vegna hlunninda, vegna breytinga á verðlagi vöru og afurða, vegna breytinga á skipulagningu bæði þéttbýlis og í dreifbýli þar sem skipulag hefur komið til og vegna mannvirkjagerðar eða ýmissa aðgerða hins opinbera, sem oft eru ákveðnar af Alþ. og þá með það í huga að þingið eða meiri hl. þess telur þær ráðstafanir vera nauðsynlegar fyrir hagsmuni þjóðarheildarinnar.

Við þurfum ekki að leita langt til að sjá og heyra dæmi um þetta hér á Íslandi í seinni tíð. Umtal um það, að ein bújörð í nágrenni Reykjavíkur kunni að seljast fyrir hálfan annan milljarð kr. þegar hennar er þörf undir íbúðarhverfi, er aðeins eitt af síðustu og grófustu dæmunum um ástand þessara mála. Þeir, sem hlýtt hafa á útvarpsþætti undanfarið, hafa heyrt kunnáttumenn víða um land gera grein fyrir því hvernig háttað er eignarhaldi jarða og hver þróun þeirra mála hefur verið, og stefnir þar víða í sömu átt. Ef við lítum á hlunnindi eða auðæfi landsins verður nú í vaxandi mæli hið sama upp á teningnum.

Nú er orkukreppa um allan heim. En við höfum glaðst mjög yfir því, íslendingar, að við eigum í landi okkar feiknamikla óbeislaða orku og getum í þeim efnum aðeins ásakað sjálfa okkur fyrir að hafa ekki verið duglegri við að hagnýta og beisla þessa orku. Hér er aðallega um tvennt að ræða: annars vegar vatnsaflið og hins vegar heita vatnið. Það mun vera viðurkennt af öllum stjórnmálaflokkum og að ég hygg yfirlýst stefna ríkisstjórnar, að nú eigi á næstunni að láta hitaveituframkvæmdir og aðrar framkvæmdir til orkuframleiðslu ganga fyrir öðrum. Þetta er augljóslega skynsamleg og sjálfsögð stefna, vegna þess að með hverju húsi sem við hitum með heitu vatni getum við sparað okkur olíu sem við verðum að flytja yfir langan veg og greiða fyrir stórar upphæðir.

Það er því von að mörg bæjarfélög hugsi nú til þess að koma upp hitaveitum og þeim liggur öllum nokkuð á. En það hefur komið í ljós, að mikið af þeim jarðhita, sem bæjarfélögin hafa hug á að hagnýta til hitaveitu og hentugastur er til þess, er í eigu einstaklinga. Samningar hafa víða verið teknir upp, og mér er tjáð að í a. m. k. einu tilviki hafi lögfræðingar þeirra, sem jarðhitann eiga, byrjað á að lýsa þeirri skoðun sinni að verðmæti hitans, sem fæst frá hita vatninu, sé að sjálfsögðu hið sama og gangverð olíunnar, við annað sé ekki hægt að miða. Ég skal ekki fullyrða að þeir geti knúið það fram nú þegar, að jarðhitinn á Íslandi verði metinn til jafns við olíu þegar hann er kominn inn í híbýlin og notaður, en þá gerir hann fólkinu, sem þar býr nokkurn veginn sama gagn og eitthvert ákveðið magn af olíu. En ég hygg að þeir, sem hafa glaðst yfir því hvað við eigum mikið af ónotuðum orkulindum hér á landi, hafi ekki búist við að þetta væri hugsanlegt, að það gæti komið til mála að þeir, sem eiga jarðhitann, einstaklingar, segðu við fjölmenn byggðarlög: Gerið þið svo vel, þið megið fá þennan hita, en þið verðið að greiða sama verð fyrir hitann eins og fyrir olíuna austan úr löndum! — Þetta er næsta nýstárlegt sjónarmið fyrir okkur, sem erum vön því að hitaveitur, sérstaklega þær stærstu, búa við það að bæjarfélögin eiga jarðhitann og hafa tryggt sér eignarhald á honum nógu snemma. Þess vegna hafa menn vanist við þann hugsunarhátt að heita vatnið, sem rennur upp úr jörðinni, kosti okkur nálega ekki neitt. Það er því ekki lítil breyting sem verður á öllum viðhorfum okkar þegar einkaeigendur jarðhitans boða það, að þeir eigi kröfu á að fá sama verð fyrir hitann úr iðrum jarðar eins og olían kostar okkur. Ég skal ekkert segja hvernig mál um þetta færu fyrir hæstarétti. Ég skal ekkert segja um hvernig það yrði metið af dómstólum. Við þekkjum öll eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og má vel vera að það gæti farið svo, að það reyndist löglegt að gera slíkar kröfur, þó að e. t. v. verði fyrst um sinn samið um hagstæðara verð. En ég nefni þetta sem nýtt og sláandi dæmi um það, hversu fráleitt er að auðæfi, sem við eigum í þessu landi og ekki eru allt of fjölbreytt, skuli vera í höndum einstakra manna sem hafa aðstöðu til þess að gera slíkar kröfur á hendur þjóðfélaginu fyrir afnot af þessum sömu auðæfum.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að yfirgnæfandi meiri hl. íslensku þjóðarinnar hefur haft þá tilfinningu og litið svo á, að heita vatnið væri sameign þjóðarinnar, þótt mikið af því sé það ekki. Og ég hygg, að þessi þróun mála sé enn ein röksemd fyrir þeirri kenningu okkar Alþfl. manna, að landið og hin margvíslegu auðæfi þess eigi að vera alþjóðareign og það sé í raun og veru óhugsandi til framtíðar að svo verði ekkí. Það er alveg óhugsandi.

Ein af ástæðunum fyrir því, hve mat manna á landinu hefur breyst á fáum áratugum, er sú, hve þéttbýlið hefur aukist gífurlega og er það víða eðlileg afleiðing af mannfjölgun. Við höfum ekki allt of mikið af þessu að segja enn þá, því að jafnvel Reykjavík er borg af því tagi að þar getur hver sem er með 15 mín. göngu komist út í náttúruna og forðað sér af malbikinu. Engu að síður verðum við að hugsa fyrir því hvernig fólkið í þéttbýli á Íslandi á í framtíðinni að geta tekið þátt í að njóta landsins, hvernig á að tryggja því útivist og aðgang að náttúru landsins. Það verður með hverju árinu algengara, þegar menn aka um vegina á þeim mikla bílaflota, sem við nú eigum, að þar blasa við skilti um að þetta sé bannað og hitt sé bannað á girtum landsskikum. Það er alveg augljóst að mjög fljótlega verður að skipuleggja notkun landsins alls og taka m. a. tillit til hinna landlausu tugþúsunda í þéttbýlinu. Það er að vísu mikið verk að skipuleggja notkun landsins, áætla hvaða hluta þess þarf fyrir atvinnurekstur og þá auðvitað fyrst og fremst landbúnaðinn, hvaða hluta þess þarf undir byggð, sem við köllum þéttbýli og kann nú e. t. v. að verða dreifðara í framtíðinni en það er nú, enda er nú þegar komið svo að menn starfa í Reykjavík, en búa fyrir austan fjall eða undir Esju. Það þarf að taka tillit til þess hvað af landinu við viljum vernda vegna náttúruverndarsjónarmiða, það þarf að taka tillit til þess hvað af landinu við viljum taka frá fyrir fólkvanga sem útivistarsvæði, og það er mikið hagsmunamál fyrir þjóðina alla að hugsað sé fyrir því að koma byggingu sumarbústaða og sumarbúða skipulega og vel fyrir. Ef þau mál eru látin hafa sinn gang án þess að nokkur hugsi fyrir heildarsvip þeirra, þá geta orðið mörg slys víða um landið. Það eru svæði í næsta nágrenni Reykjavíkur sem eru til orðin með óskipulegri byggð sumarhúsa, sem mörg hver hafa síðar vaxið upp í að vera varanlegir bústaðir, þar sem sjá má hvernig fallegar sveitir gætu farið ef þetta væri með öllu látið óskipulagt.

Þess má nefna mörg dæmi hvernig nágrannaþjóðir okkar og ýmsar fleiri hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að eignarráð fallvatna t. d. séu hjá ríki eða sveitarfélögum, hvernig þessar þjóðir hafa farið með t. d. veiðivötn og önnur þau gæði sem eftirsótt eru.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta mál öllu fleiri orðum að þessu sinni, enda hygg ég að grundvallarröksemdir fyrir því, að þjóðin eigi landið, séu svo augljósar, að ég þurfi ekki að flytja um þau lengri ræðu. Ég vil þó að lokum leggja á það áherslu, að Alþfl. hefur alltaf verið þeirrar skoðunar, að land skuli með lögum byggja, og það hefur ekki hvarflað að okkur í sambandi við þetta mál eða önnur að taka eignir af mönum bótalaust, jafnvel þótt við gerum okkur ljóst að sumt, eins og t, d. jarðhitinn, hækki svo hrikalega í verði ár frá ári að það geti orðið dýrt fyrir þjóðarheildina að ná eignarhaldi á honum öllum. En ég vil taka fram, að það er ekki hugmynd okkar að það verði á nokkurn hátt gengið fram hjá eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Hitt er svo annað mál, og það snertir miklu fleira en hér er talað um, t. d. verðmæti á húsaeignum í þéttbýli og annað slíkt, að við teljum að Alþ. þurfi að íhuga hvort ekki þurfi að vera hér á landi miklu öflugri verðhækkunarskattar sem taki óeðlilegan gróða og leggi hann í sameiginlegan sjóð þjóðarheildinni til hags. Ef slík löggjöf yrði sett gæti hún haft mikil áhrif á framvindu þessara mála.

Við gerum okkur ljóst, að það, sem við leggjum til, er umfangsmikið og í raun og veru fjallar till. okkar á þessu stigi aðeins um það, að sérfróðir menn verði látnir semja frv. um þessi mál, þessi frv. geti síðan komið til umr. og ef þau næðu fram að ganga, mundi að sjálfsögðu taka alllangan tíma að framkvæma eignayfirtöku ríkis eða sveitarfélaga. Og enginn vafi er á því, að það verður dýrt. En við skulum líka minnast þess, að það getur orðið mörgum sinnum dýrara við hvern áratug sem líður án þess að verkið sé hafið. Gleggsta dæmið, er það, að nú skuli lögfræðingar krefjast hins háa olíuverðs arabanna fyrir heita vatnið sem rennur úr hverunum.