06.03.1975
Sameinað þing: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er til umr. og hv. 2. landsk. þm. hefur mælt fyrir, er vissulega stórmái og er komið þar að mjög mikilvægum þætti í því hvernig við eigum að byggja þetta land. Ég get ekki látið hjá líða að fara um þetta nokkrum orðum.

Ég vil taka það strax fram, að það eru ýmis atriði í þessari þáltill. sem ganga algerlega í berhögg við þær hugmyndir sem bændastéttin í landinu almennt hefur um stöðu sína í þessu þjóðfélagi í nútíð og framtíð. Ég vil hins vegar líka taka það fram, að eignarráð á landi eru alls ekki einfalt mál, og t. d. vil ég strax taka undir það, að ég tel óeðlilegt að einstaklingar geti grætt óhemjufé á eignarráðum á landi sem verður snögglega verðmætt vegna aðgerða sem þeir eða sjálf gæði landsins eiga engan þátt í.

Eins og nú er munu vera milli 4500 og 5000 bújarðir byggðar í þessu landi. Ég hef ekki nákvæma tölu u.m það, hversu margar þeirra eru í eigu þeirra bænda sem á jörðunum búa, en láta mun nærri að um 4/5 hlutar af þessum bújörðum séu í sjálfseignarábúð, en nákvæm er þessi tala ekkí. Þessar jarðir eru mjög misjafnar að almennum landsgæðum og almennu.m möguleikum til að framfleyta fólki. Þetta eru allt frá því að vera stórjarðir með margvíslegum gögnum og gæðum, bæði í ræktuðu og ræktanlegu landi, afréttarlandi og ýmiss konar hlunnindum og allt niður í það að vera jarðir sem eru erfiðar ábúðar á venjulegan mælikvarða, en geta þó sannarlega gengt miklu hlutverki í þjóðarbúskap okkar þegar á heild er litið.

Ég hygg, að það sé dálítið sérstakt, að umráðin yfir þessu landi, eignarrétturinn á þessu landi, sem er í eigu, eins og ég sagði, að miklum meiri hluta þeirra sem nytja það, hann er undir flestum kringumstæðum á annan veg metinn heldur en flestar aðrar eignir sem við ráðum yfir. Ég vil nefna dæmi, öllum þeim, sem hér eru inni, er kunnugt að verðlagning á íslenskum landbúnaðarvörum fer fram samkv. sérstökum lögum. Það varpar ofurlitlu ljósi á viðhorf bóndans til landsins, að hvergi er í þessum lögum gert ráð fyrir því, að bóndinn hafi neinar tekjur af landinu sjálfu sem slíku meðan það er ekki ræktað. Það er hvergi um að ræða neins konar leigu vegna þess að búpeningurinn gangi á óræktuðu landi. Ég ætla mér ekki að fara að efna hér til mikilla umr. um verðlagningu landbúnaðarvara, en ég vil minna á þennan þátt, að það verð, sem bændum er ætlað lögum samkvæmt fyrir landbúnaðarvörur, er einungis byggt á þeim kostnaði sem þeir hafa af því að reka búskap á jörðinni. Það er ekki byggt á því að sjálft landið, beitilandið, landið sem grundvallareign gefi af sér arð í gegnum búskapinn, heldur aðeins þau mannvirki, ræktun og annar sá kostnaður sem í er lagt á landinu. Í raun og veru er það þess vegna svo, að arðurinn af sjálfu landinu til þessara nota nytjast í almenningsþágu.

Ég tók eftir því í ræðu hv. 2. landsk. þm., Benedikts Gröndals, að hann nefndi það, að það væri sífellt tíðara að sæjust skilti með vegum þar sem tekið væri fram að þessi eða hin afnot af landinu eða þessi eða hinn umgangur um landið væri óheimill. Það kann vel að vera að þetta sé rétt, að þetta sé tíðara nú en það var fyrir nokkrum árum. En samt sem áður vil ég fullyrða að þetta er ákaflega fátitt. Ég minnist þess ekki að ég hafi komið nokkurs staðar að bóndabæ, þar sem stendur að vegurinn þar heim sé einkavegur. Ég minnist þess ekki, að í mínu nágrenni sé nokkurs staðar uppi skilti sem banni hinum almenna vegfaranda að ganga á landinu. En ég veit að það er ætlast til þess t. d., að hinn almenni vegfarandi eða hver sem það er raski ekki í neinu ró þess lífs sem lifir á þessu landi. Það er ekki ætlast til þess, að hann fari leyfislaust með byssu um lönd bænda nálægt heimkynnum þeirra. Og ég geri ráð fyrir því, að þótt mér sé það ekki kunnugt, að það sé allalgengt að menn ætlist til að beðið sé um leyfi ef ber eru tind til vetrarforða og annað slíkt. En ég er því ekki kunnugur, þar sem ég best þekki til, að menn hafi uppi neinar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að fólk geti gengið um landið og skoðað það. Það er að vísu svo, að þar sem örtröð er mest eru sums staðar hafðar uppi aðgerðir til þess að reyna að verja landið fyrir örtröðinni, einmitt á þeim stöðum sem þó er fastlega gert ráð fyrir að fólk ferðist mjög um.

Í framhaldi af þessu er kannske rétt að minna á það, að til skamms, tíma voru íslendingar bændaþjóðfélag. Það mátti heita svo að allir íslendingar væru bændur allt fram undir lok síðustu aldar. Þeir voru að vísu margir leiguliðar, en þeir áttu afnotarétt af landi, ýmist sem eigendur þess eða leiguliðar. Síðan gerist sú öra þjóðfélagsþróun sem orðið hefur á þessari öld, að fólkið hefur flutt úr sveitunum til sjávarsíðunnar, og það er langt frá því að ég ætli hér að fara að harma þá þróun sérstaklega. Hún er eðlileg við þær þjóðfélagsaðstæður sem við höfum búið við, og það er ekki eðlilegt að neinn geysilegur fjöldi fólks í þessu landi lífi af landbúnaði eins og nú er háttað.

Bændastéttin hefur þess vegna á vissan hátt miklu fremur en allar aðrar stéttir í landinu verið í vissri varnarstöðu. Sú stétt, sem fólkið flytur frá af einhverjum þjóðfélagslegum ástæðum, sú stétt, sem sífellt fækkar fólki í á sama tíma og fjölgar í öllum öðrum stéttum, verður á vissan hátt í varnarstöðu í þjóðfélaginu. Bændur landsins hafa á undanförnum árum alið upp mikinn fjölda fólks sem síðan hefur unnið ævistarf sitt við sjávarsíðuna. Það hefur verið fátítt að fólk hafi flutt frá sjávarsiðunni upp til sveita, þótt þess finnist dæmi. Hitt hefur gerst í stórum stíl nú á undanförnum áratugum, að ekki einungis meginhluti þess fólks, sem nær fullorðinsaldri, fer jafnótt og það er fullvaxið á vinnumarkaðinn í bæjunum, heldur hefur einnig býlunum fækkað og fólkinu, sem stundar landbúnaðinn, fækkað.

Þessi staða bændanna í þjóðfélaginu eru vissulega erfið í dag. Bændur hafa að mínum dómi ekki verið eftirbátar annarra þegna þjóðfélagsins um að bæta vinnuaðferðir í sinni grein, auka framleiðslu og bæta það land, bæta þann vettvang sem þeir hafa haft til umráða. En þeir hafa samt sem áður orðið að horfa upp á það, að með mjög vaxandi framleiðslu og vaxandi hagkvæmni á ýmsan hátt hefur samt hlutur þeirra í þjóðarbúinu ekki farið að sama skapi hlutfallslega vaxandi og er ekki ástæða til að fara langt út í þá sálma. En hinu er ekki að neita, að ýmis verðmæti, sem áður var ekki mjög um hirt, hafa orðið mikilvæg á síðustu áratugum. Þar má t. d. nefna veiðirétt. Það er orðin geysileg breyting á því á skömmum tíma. Veiðiréttur í ám og vötnum er orðinn mikilvæg tekjulind í vissum landshlutum, og jarðir þær, sem eru veiðijarðir, eru orðnar eftirsóttar, sérstaklega af öðrum en bændum. Það er orðið sérstaklega eftirsótt af öðrum aðilum en bændum að fá þessar jarðir keyptar, og þær eru í háu verði þegar miðað er við það verðlag sem við getum gert ráð fyrir að venjulegur búskapur geti staðið undir á bóndabýli.

Það var minnst hér mikið á jarðhitann áðan, sem er vissulega að verða mjög mikilvæg hlunnindi. Það eru mjög mikilvæg hlunnindi að hafa jarðhita á landi sínu til þess að geta hitað upp hús sitt. Og það eru vissulega mikilvæg hlunnindi fyrir þjóðina í heild, að hún eigi jarðhita sem nægir til að hita upp mikinn hluta íbúðarhúsa og annarra bygginga í landinu. Það er rétt, sem hér kom fram, að menn hafa yfirleitt fram til þessa ekki litið á jarðhita sem stórkostlega tekjulind, og meðan heita vatnið rennur upp úr jörðinni ónotað, þá er það vissulega ekki verðmætara en t. d. olíulindir sem sums staðar streymdu ónotaðar úr jörð áður fyrr. Ég veit að það má mjög um það deila, hversu hátt sé eðlilegt að meta þau hlunnindi sem jarðhiti er þegar hann kemur til nytja, og ætla ég ekki að reyna að leggja dóm á það hér. En ég vil taka undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að það er eðlilegt að þegar um er að ræða sölu á fasteignum, sem hafa hækkað óeðlilega í verði vegna aðgerða sveitarfélags eða fyrirhugaðra aðgerða samfélagsins á einhvern hátt, þá séu slíkar sölur skattlagðar sérstaklega. Það kunna að verða deildar meiningar um þetta, en ég er þeirrar skoðunar, að til séu ýmsar aðrar aðferðir til þess að koma í veg fyrir óeðlilegan hagnað af því að eiga land eða óeðlilega sölu landeigna heldur en að koma öllu landi í eigu ríkisins eins og stefnt er að með þeirri hugmynd sem er á bak við þessa till.

Ég vil taka það skýrt fram, að í þessari till. stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar, að stefnt skuli að því að allt land verði alþjóðareign (eign ríkis eða sveitarfélaga), en bújarðir verði í eigu bænda þegar þeir kjósa þann hátt fremur en að hafa lönd sín á erfðafestu. Ríki og sveitarfélögum skal þó tryggður forkaupsréttur á öllu landi.“

Ég get ekki skilið þessi ákvæði öðruvísi en svo, að það sé beint og krókalaust að því stefnt með þessari till., að á alllöngum tíma verði allt land í eigu ríkisins og það hljóti að fara svo smám

saman að það verði ekkert af landinu í eigu bænda.

Ég hef rætt hér nokkuð um afnot af landinu. Ég vil taka undir það og lýsa því sem skoðun minni, að ég tel mjög nauðsynlegt að skipulagning landsins alls og skipuleg not landsins séu aukin frá því sem nú er. Ég álít, að það sé fráleitt að það sé nokkurs staðar reistur sumarbústaður á landinu án þess að hann komi inn í heildarskipulag landsins. Ég tel. að það sé algerlega nauðsynlegt að skipuleggja sumarbústaðahverfi, og ég tel líka, að það sé algerlega nauðsynlegt að skipta afnotum landsins niður þannig að það séu víss svæði sem allir landsmenn, hvort sem þeir eru þéttbýlisbúar eða ekki, eiga fullkomlega frjálsan aðgang að. Ég lýsti því áður, að ég tel að íbúar landsins hafi átt mjög frjálsan aðgang að því landi sem er í einkaeign á Íslandi í dag. En mér er ljóst að með auknu fjölmenni getur þetta nokkuð breyst. Og ég verð að lýsa því sem minni skoðun, að ég held, að viðhorfið í þessu verði nákvæmlega sama, hvort sem landið er í eigu þess, sem á því býr, eða eign alþjóðar og sá, sem býr á landinu, er leiguliði ríkisins. Það álit ég að skipti ekki máli í þessu sambandi. Það, sem þarna skiptir máli, er að það hljóta að vera einhver mörk, þar sem rekast á hagsmunir þess, sem nytjar landið til venjulegra búskaparnota, og hins, sem nytjar landið til þess að skoða það, til þess að ganga um það. Ef örtröð verður af þeim mönnum, sem vilja og vissulega þurfa að hafa land til að ganga á, þá hljóta þar að vera einhver mörk þar sem ekki verður lengra gengið, alveg á sama hátt og hér í þéttbýlinu þar sem ég hygg að menn geri ekki ráð fyrir að sé ótakmarkað gengið um lóðir við íbúðarhús. En ég vil ítreka það, að meðan ástandið er svipað því sem nú er, þá er víðast lítil ástæða til þess að amast við umferð þéttbýlisbúa um lönd bænda.

Ég kom að því áðan, að bændastéttin hefur verið að undanförnu í vissri varnarstöðu. Meðalaldur bænda í dag er hár og bændum hefur farið fækkandi, jarðir og heilir sveitarhlutar hafa farið í eyði og annars staðar hafa sveitarfélög dregist saman, þannig að byggðin nær yfir minna svæði en áður. Þetta er allt saman þróun sem ég tel á ýmsan hátt eðlilega. En ég verð að lýsa því sem minni skoðun að ég fæ ekki séð að það sé á nokkurn hátt þjóðfélagsleg nauðsyn að umráðaréttur yfir jörðunum verði tekinn af bændunum. Ég tel, að bændurnir hafi umgengist land sitt á þann veg, að sú umgengni og þau not, sem þeir hafa haft af landinu, gefi ekki neitt tilefni til slíkrar ráðstöfunar sem hér er talað um. Ég get fallist á það, að þegar um er að ræða sölu jarða, verslun með jarðir, þá sé höfð á því gát fyrst og fremst þannig, að verði jarðanna sé þann veg í hóf stillt að þeir, sem vilja búa, geti keypt jarðirnar til eigin nota. Ég vil endurtaka það, að yfirleitt, þó að megi finna undantekningar frá því, þá er það svo, að það er ekki verð landsins sjálfs sem hefur ráðið um verð þegar jörð er seld. Fyrst og fremst hafa það verið byggingar og framkvæmdir á jörðunum sem gengið hafa kaupum og sölum. En þegar land verður einhverra hluta vegna sérstaklega eftirsóknarvert af þéttbýlisbúum, þá kemur upp það viðhorf að einkum þéttbýlisbúar bjóða háar upphæðir í jarðirnar, svo háar upphæðir, að bændur hafa ekki getað keppt við þá í einstökum tilfellum. Þarna tel ég að sé mjög nauðsynlegt, að sveitarfélögunum sé gert fært og kleift að eignast þau lönd, sem bændur treysta sér ekki af einhverjum ástæðum til að eignast. Ég tel, að með skipulagningu og skipulagsskyldu sé hægt að halda verði lands svo í hófi að þar verði ekki u m neinn annarlegan hagnað að ræða fremur en á hverjum öðrum fasteignum, og ég tel, að þetta beri að gera. Það hefur verið sýnt hér á þinginu, ég held á síðasta reglulegu þingi, frv. til jarðalaga og einn meginþátturinn í þessu frv. er einmitt sá, að þannig verði gengið frá að ekki sé hætta á því að einstaklingar, sem ekki ætla sér að nytja landið sjálfir, eignist það, og þar á ég fyrst og fremst við bújarðir.

Hér hefur verið talsvert minnst á veiðirétt og til þess jafnað, að jafnvel í kapítalískum löndum vesturálfu sé veiðiréttur í almannaeigu. Ég vil taka það fram, eins og ég hef áður sagt, að einmitt ein ástæðan til þess að ég tel að veiðirétturinn þurfi og eigi að vera í eigu þeirra sem byggja landið, sá sem hefur tekið þann kost að vilja halda áfram að stunda þá atvinnugrein, sem við höfum kallað landbúnað, og búa í sveit, oft við þrengri kost en þéttbýlisbúinn og ýmiss konar óþægindi sem þéttbýlisbúinn sleppur við, þó að hann njóti líka ýmislegs hagræðis sem er alls ekki rétt að vanmeta, þá tel ég að það styrki byggðina í sveitunum og styrki bóndann til þess að gegna sínu hlutverki í þjóðfélaginu að hann hafi fullan umráðarétt yfir því landi sem hann býr á, hann hafi rétt til að nytja það gras sem upp úr jörðinni sprettur og hann hafi rétt til þess að hafa afnot af þeim hlunnindum sem jörðinni fylgja, hvort sem það eru veiðihlunnindi í fallvötnum, stöðuvötnum eða í sjó. Það má vafalaust um það deila, hversu verðleggja beri þessi hlunnindi. Það eru ýmis atriði sem þar koma til greina, en ég álít, að þegar rekast á alþjóðarhagsmunir og hagsmunir einstaklinga, þá höfum við lög sem heimila að þeim eignum, sem alþjóð getur ekki án verið, sé komið í hendur ríkisins með eðlilegum og löglegum hætti — á ég þar við lög um eignarnám — og það þurfi ekki að setja sérstök lög um að allt land hverfi til ríkisins þess vegna.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál öllu lengra, enda er það þegar orðið langt. En ég vil vekja athygli á því, að í þessari ályktun er gert ráð fyrir að ríkisstj. verði falið að láta sérfróða menn semja frv. að l. um eignarráð og eignarréttindi þjóðarinnar yfir byggðu landi og óbyggðu. Ég verð að viðurkenna það, að mér er ekki alvegljóst, hverjir hinir sérfróðu menn geta verið um þessa hluti. Það finnst mér dálítið óljóst. Ég veit ekki til þess að við eigum menn sem eru út af fyrir sig sérfróðir í því hvernig eignarhaldi á landi verði best fyrir komið.

Ég vil svo að lokum lýsa því yfir, að ég tel þessa þáltill. ekki tímabæra og ég mun greiða atkv. á móti henni, þegar hún kemur til atkv. hér í hv. Sþ. Ég vil vænta þess, að hv. flm. kanni sem best má verða hvernig eignaraðild bænda á landinu er háttað, hvernig þeir hafa farið með þessa eignaraðild sína á landinu og hvernig landið allt hefur verið notað í alþjóðarþágu þrátt fyrir það að það hafi verið talið í eigu einstakra bænda.