06.03.1975
Sameinað þing: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þessi till. um eignarráð á landinu er uppvakin hér á Alþ. eina ferðina enn og allir hv. þm. Alþfl. hafa skrifað upp á hana. Þeir eru að vísu færri á þessu þingi heldur en þeir voru í fyrra. Þetta ber vott um mikinn hugsjónaeld og stefnufestu, enda er nú þetta kannske orðið eitt eftir af fáum sósíalistískum úrræðum þessa flokks. Það er höfð svo mikil viðhöfn á málinu, að formaður flokksins, hv. þm. Benedikt Gröndal, fylgir till. sjálfur úr hlaði, en ekki hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason eða Sighvatur Björgvinsson sem hafa þó verið sporléttari upp í ræðustólinn að undanförnu.

Hv. 1. flm. mælti fyrir málinu af mikilli prúðmennsku, svo sem hans var von og vísa. En þrátt fyrir það tel ég að þetta sé slæmt mál, og ég felst ekki á röksemdafærslu hans þótt prúðmannleg væri og hófsamleg. Ég er honum sammála um það, að viðskipti með jarðir, viðskipti með lönd eru mikið vandamál. Á síðasta vetri lá fyrir hv. Alþ. frv. til jarðalaga. Því miður varð það frv. ekki útrætt á því þingi. En ég vonast eftir því, að það verði lagt fram á þessu þingi og hljóti afgreiðslu, vegna þess að í því frv. eru einmitt þau ákvæði sem koma til með að geta komið þessum málum í viðunandi horf.

Um það er ég sammála hv. 1. flm. að útivist er holl og nauðsynleg hverjum einstaklingi og hana er sjálfsagt að tryggja og bændur amast ekkert við henni, það er síður en svo. Það þarf að sjálfsögðu að hafa á henni skipulag, það verður að sjálfsögðu að hafa skipulag á nýtingu lands og umgengni við landið. Það er hér minnst á veiðiskapinn. Það þarf að hafa skipulag á veiði lax og silungs, því að annars blasir við rányrkja annars blasir við óbætanleg rányrkja ef þau mál eru ekki leyst á félagslegum grundvelli. Það verður að fara vel og skipulega með landið, ég er sammála hv. 1. flm. um það.

Í grg. koma fram andmæli við því, að einstakir bændur hafa bannað rjúpnaveiði í löndum sínum. Mér finnst skiljanleg afstaða bænda að færa fætur við því, því að því miður held ég, að óhætt sé að fullyrða, — að hér á landi tíðkist óvitaskapur í meðferð skotvopna. Það þarf að koma miklu betri skipan á meðferð skotvopna almennt í landinu heldur en nú er. Og það hefur borið að höndum hörmulega atburði vegna eftirlitsleysis og skipulagsleysis. Það eru þess meira að segja dæmi, að bóndi, sem fór að fé sínu, varð fyrir skoti veiðimanns, og búpeningur hefur hvað eftir annað, svo að mér sé kunnugt um, orðið fyrir skotum, væntanlega slysaskotum fremur en að um beint kæruleysi hafi verið að ræða.

En það er þetta um umgengnina við landið. Ég hygg,að hún verði á engan hátt betur tryggð en með eignar- og yfirráðarétti bænda, ekki betur tryggð með nokkru öðru því skipulagi sem mér kemur í hug. Þessu valda fyrst og fremst tengsl bænda við landið, bæði efnahagsleg og ekki síður tilfinningaleg. Það eru bæði tengsl bóndans við bújörð sína og kannske ekki síður við afrétt sinn. Ég held, að skásta tryggingin fyrir skynsamlegri notkun landsins, fyrir skynsamlegri varðveislu landsins sé einmitt í því fólgin að þessi réttur verði virtur áfram. Ég vil benda á að það sé alveg tvímælalaust, að búskapur á sjálfseignarjörðum sé eðlilegri en á leigujörðum. Það er að vísu hægt að nefna þess ýmis dæmi að leiguliðar hafi búið vel, þeir hafa búið vel á öllum öldum. En þess eru þó fleiri dæmi að sjálfseignarbændur hafi búið vel.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér um friðhelgi eignarréttarins. Það hafa verið fluttar einmitt um þessa till, á undanförnum þingum skilmerkilegar og fræðilegar ræður um eignarrétt, og ég held að það sé útrætt um það, að þetta sé aðför að honum.

Hv. þm. Ingi Tryggvason ræddi nokkuð úr þessum ræðustól áðan um stöðu bóndans í þjóðfélaginu. Þessi þáltill. er í mínum huga að nokkru leyti angi af þeirri áráttu að vera að agnúast út í bændur. Sumir þm. Alþfl. hafa gert sig seka um það, og nú á síðustu og verstu tímum hefur annað aðalmálgagn Sjálfstfl. tekið undir þann söng og gersamlega yfirgnæft þá sem tóninn gáfu í upphafi,

Þessi till. hefur ekki verið afgr. á undanförnum þingum. Ég er alveg sammála hv. þm. Pálma Jónssyni um það, að ég held að það sé kominn tími til að hún hljóti afgreiðslu. Ég vænti þess, að nú verði orðið við því og hún verði afgreidd og afgreidd á þann hátt að hún verði felld.