06.03.1975
Sameinað þing: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það hefur í raun og veru komið í ljós, að það eru ekki í sjálfu sér eignarráð á landinu sem flm. eru að berjast fyrir, heldur eignarráð á þeim hluta þess sem einhverjir nýríkir þéttbýlismenn hafa keypt, skilst mér. Og þar sem það hefur nú nýlega komið í ljós í blöðum að ég væri ein af þessum nýríku, þá langaði mig til aðeins að skýra sjónarmið mitt í þessu efni.

Það er nefnilega þannig, að til þess að kaupa land í dreifbýlinu þarf ekki neina nýríka menn, það þarf aðeins menn sem trúa á að landið sé verðmætt. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að það hafi lengst af þurft mjög góða jörð úti á landi til að jafnast í verðmæti á við eina lélega kjallaraíbúð í Reykjavík. Og þá kem ég að því, sem drepið var á hér áðan, að jarðir mættu ekki vera dýrari en það að búskapur gæti borið þau verðmæti. Þar álít ég að sé ein grundvallarhætta, að maður, sem hefur búið á sinni jörð, hefur skapað sín verðmæti, byggt sitt hús, hann á ekki að fá endilega til baka þau verðmæti sem hann hefur lagt í jörðina, heldur andvirðið þannig að það sé hægt að búa á jörðinni, og þá miðar hann við það verðlag sem er á landbúnaðarafurðum í það og það skiptið.

Ég veit vel um það, að bújarðir hér og hvar um landið hafa verið seldar langt undir einu íbúðarverði í Reykjavík, enda þótt á þeim hafi verið ágætis íbúðarhús og þar hafi verið búið að starfa mikið og mikið búið að gera. Þetta finnst mér ómaklegt, og ég held að þau ábúðarlög, sem voru hér í þinginu í fyrra, muni einmitt tryggja það að þeir, sem hafa búið á jörðunum, fái aldrei sín verðmæti til baka ef þeir þurfa að selja sínar jarðir.

En varðandi þjóðnýtingu á jörðum verð ég að segja það, að í minni sveit eru tvær jarðir í ríkiseign og eru búnar að vera það mjög lengi. Ein stjórnarráðsskrifstofa hér niðri í bæ úthlutar sumarbústaðalöndum úr þessum jörðum, og þetta eru einmitt þau lönd sem eru afgirt og sveitungar og aðrir þéttbýlismenn hafa ekki greiðan aðgang að. Aftur á móti hef ég ekki séð neitt skipulag þarna og get ekki séð, að þessu sé betur skipað en þegar bændurnir láta sjálfir til einhverra, sem þeim þóknast, skika úr jörðum sínum undir sumarbústaði.

Varðandi Alþfl. og þetta mál, þá virðist hann hafa mikinn áhuga á því að það sé hægt að framleiða meira af landbúnaðarvörum í þessu landi og miklar áhyggjur af því að einstaka jörð sé keypt af öðrum en þeim sem ætla að stunda landbúnað. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu. M. a. eftir að ég las nál. hv. þm. Pálma Jónssonar og Eysteins Jónssonar og fleiri ágætra manna, þá sé ég ekki betur en þar standi að í öllum sýslum landsins nema einni eða tveimur er landið talið ofnýtt, þ. e. a. s. ofbeit sé ein orsök gróðureyðingar. Í hinum tveim sýslunum, sem um er getið, er sagt að landið sé fullnýtt. Meðan svo er, þá get ég ekki séð neina stórhættu í því þótt einhver hluti af landinu sé geymdur. Land eyðijarðanna er ekki tapað land, það er að einhverju leyti nýtt af nágrannajörðum, en það er geymt land og er til reiðu þegar á því þarf að halda til búskapar. Ég held að þetta sé mikið atriði, og ég held að það sé alveg nóg í augnablikinu að ríkið eigi milli 800 og 900 jarðir. Ég tek undir það, sem sagt var hér áðan, að það sæist ekki að þær væru sérstaklega betur setnar en einkajarðirnar, og ég held að það geti aðeins aukið samskipti manna í dreifbýlinu og í þéttbýlinu og geti að ýmsu leyti haft góð áhrif að menn geti eignast jarðarparta úti á landi ef þeir hafa hug á því. En varðandi hlunnindin, þá er það rétt, að víða í nágrannalöndum og t. d. í Bandaríkjunum er veiði í ánum ríkiseign og mega allir fiska þar fyrir lítið gjald. En venjan er þá líka sú, að þar er yfirleitt ekkert að fiska og yfirleitt mjög lítill áhugi.

Það er kannske ekki tilviljun að hér á Íslandi, þar sem það fyrirkomulag er sem nú er verið að ráðast á, hefur fiskgengd í ám vaxið mjög mikið á undanförnum árum. Mun Ísland vera eina landið við Norður-Atlantshaf sem það á við.

Varðandi önnur hlunnindi, eins og jarðhita, þá er það svo, að ég held, að það séu þrjú háhitasvæði á landinu sem eru í eigu einstaklinga, hitt mun vera í eigu sveitarfélaga. Ég held að það þurfi ekki neina sérstaka löggjöf til að tryggja að það geti verið hagnýtt til almenningsheilla ef þörf er á. Hins vegar er það rétt, að það er mikið vandamál með jarðir sem liggja að þéttbýliskjörnum, vegna þess að sú stefna sveitarfélaganna hefur verið uppi að þær þyrftu að kaupa landið, en ekki láta eigendur jarðanna selja einstakar lóðir, og hagnýta sér þá þau ákvæði laga um skipulag, að skylt er að setja 1/3 af löndum, sem tekin eru til byggðar, undir almennar þarfir sveitarfélagsins. En ég held að þetta sé ekki eins mikið framtíðarvandamál og menn vilja vera láta, vegna þess að þegar gatnagerðargjald er komið kannske upp undir millj. kr. fyrir eitt einbýlishús, þá held ég að geti varla skeð að það verði hægt að selja lóðina undir húsið á því okurverði sem um hefur verið talað hér.

Ég vil leggja áherslu á það, að ég tel, að meðan fólk um allt land getur keypt eignir hér á þéttbýlissvæðunum eins og því þóknast, þá sé engin sanngirni í því að menn geti ekki keypt jarðarskika úti á landi ef þeir hafa hug á því. Ég sé ekki neina skaðsemi í því og ég ber engar áhyggjur vegna þess að hændum og þessum mönnum geti ekki komið saman. Ég hef ekki þá reynslu af því. Hins vegar held ég að það væri mikið skaðræði, ef einhverjir átthagafjötrar ættu að koma hér, ef t. d. menn í dreifbýlinu mættu ekki kaupa sér íbúð hér í Reykjavík og nýta hana á sama hátt og sumar jarðir eru nýttar þótt þær séu ekki seinar af eigendum.

Ég sé ekki grundvöll til þess að það sé nokkur nauðsyn að breyta því skipulagi sem hér hefur verið um eignarráð á landi. Ég álít að það þurfi að búa þannig um hnúta að eignarrétturinn geti ekki torveldað framkvæmdir til almenningsheilla. En jafnframt finnst mér að enda þótt ríkið eigi jarðir, þar sem gera þarf framkvæmdir eins og virkjanir, þá sé eignaraðild ríkisins ekki trygging. Ábúðarrétturinn getur orðið til þess að torvelda framkvæmdir. Frá þessu þarf að ganga miklu tryggilegar en hingað til hefur verið gert, en það þarf ekki að verða til þess að allsherjarþjóðnýting fari fram.