10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

Umræður utan dagskrár

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en mér finnst það vera mjög ómaklegt að ákæra hv. formann iðnn. fyrir slakleg vinnubrögð að undirbúningi þessa máls. Ég skal játa um leið að ég hef því miður ekki haft aðstöðu til þess að sitja alla þá löngu fundi, sem hafa verið í n., vegna anna í öðrum n. Alþ. En mér finnst að það sé rétt að það komi hér fram af hálfu stjórnarandstæðings, sem ekki er venja hér á hv. Alþ., að ég tel að það hafi verið mjög vel að staðið í þessu máli. Sjálfur hef ég engar kvartanir fram að færa í sambandi við vinnubrögð n. (Gripið fram í.) Hv. þm. Stefán Jónsson var frá upphafi andvígur málinu án þess að hann hefði séð nokkurt plagg varðandi það. Það var vitað mál, svo að okkur kom það ekkert á óvart, öðrum sem í n. vorum, að fundirnir hafa dregist á langinn og verið fleiri heldur en þurft hefði að vera ef hv. þm. hefði ekki verið búinn að móta sér skoðun áður en hann sá nokkur gögn í málinu. Það er staðreyndin og var reyndar vitað opinberlega áður (StJ: Hver sagði þér það, vinur minn?) Það sást í blöðum eftir þm. haft, m. a. á fundum hér í nágrenninu. En þar sem það er, eins og ég áðan sagði, dálítið óvenjulegt að stjórnarandstæðingur viðurkenni störf stjórnarliða og öfugt (Gripið fram í: Það er ekki óvenjulegt af krata.) — þá tel ég það ómaklegt í hæsta máta að ásaka formann iðnn. um að hafa slaklega unnið að þessu máli. Hann hefur bókstaflega látið eftir öllum kröfum hv. þm. frá byrjun til enda þessara umr. En ef menn koma með fullmótaðar skoðanir án þess að kynna sér rök málsins, þá verður seint hægt að fullnægja þeim.

Ég taldi rétt að þetta kæmi fram, enda bera fundargerðarbækur, sem eru að mestu leyti eða a. m. k. að hálfum parti ritaðar af hv. þm. Stefáni Jónssyni, þess merki að málið hefur fengið mjög tilhlýðilega athugun og útvegaðar hafa verið þær upplýsingar, sem kostur hefur verið á að fá varðandi þetta mál. Þetta er eins og annað nýtt sem íslendingar leggja út í í sínum atvinnuvegum. Það er nýtt. Þess vegna er hægt að gera það tortryggilegt og það hefur hv. þm. ekki sparað, hvorki á nefndarfundum né annars staðar sem hann hefur því við komið. En það orkar flest tvímælis þá gert er, og þá áhættu, sem hér kann að vera, verðum við að taka eða hafna málinu. Það er ekki um nema tvennt að gera eins og ávallt áður. En ákvörðunina verðum við að taka og vera menn til þess að gera það.