10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Norðurl. e., gat þess í annarri ræðu sinni, að ég hefði ekki verið viðstaddur þegar hann flutti mál sitt, og sýndi mér þá kurteisi að endurtaka orð sín og ég er þakklátur fyrir. En það er kannske rétt að geta þess, að ástæðan til þess að ég var hér ekki viðstaddur þessa fsp. er í fyrsta lagi að ég er nú aðeins Nd.-maður og nýt ekki þess heiðurs að eiga sæti í þessari hv. d. og í annan stað hafði ég ekki verið látinn vita af því að það stæði til að gera hér fsp. varðandi þetta mál.

En út af hugmyndum hv. þm. um frestun á málinu í iðnn. Ed. um nokkurra vikna skeið til þess að bíða eftir rannsókn líffræðistofnunar, þá er þess fyrst að geta, að það liggur ekki fyrir í málinu að sé fyrir hendi sú mengunarhætta af þessari verksmiðju að það gefi tilefni til þess að slá málinu á frest eða bíða með afgreiðslu þess. Hins vegar hefur verið margtekið fram að ef þetta frv. yrði samþykkt og ráðist í byggingu þessarar verksmiðju, þá verður að sjálfsögðu gætt allra hinna ítrustu varúðarreglna í sambandi við mengun og bæði Heilbrigðiseftirlit ríkisins og aðrir aðilar munu þar um fjalla og setja sínar reglur þar um. Ég tel líka sjálfsagt að leitað verði til líffræðistofnunar Háskólans um þetta mál, þannig að frá henni geti komið fram þau sjónarmið sem sú stofnun vill láta frá sér fara og þau verði þá tekin til greina, eftir því sem ástæður þykja til, við varúðarreglur sem settar verða.

Hins vegar er rétt að hafa það í huga, að hv. fyrirspyrjandi er andstæðingur þessa máls og hefur mikinn áhuga á því að draga málið á langinn, fresta því og helst koma í veg fyrir að það verði samþ. á þessu þingi. Ég geri ráð fyrir að það verði að skoða þessa hugmynd hans nokkuð í því ljósi, þótt ég dragi ekki í efa að hv. þm. hefur í alvöru þungar áhyggjur af þessu því að hann og sálufélagar hans eru búnir að telja sjálfum sér trú um að hér sé á ferðinni stórkostlegur háski fyrir líf á Íslandi.

Hins vegar koma upp spurningar í þessu sambandi. Það er vitað mál, að á vegum fyrrv. ríkisstj. var þetta mál í 3 ár í athugun — og ekki aðeins í athugun, heldur var ákveðið af fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. iðnrh., flokksbróður þessa hv. þm., Magnúsi Kjartanssyni, að í þetta skyldi ráðist. Það var í maí s. l. sem Magnús Kjartansson ritaði Union Carbide bréf þar sem hann tilkynnti að hann sjálfur og ríkisstj. væru eindregið fylgjandi þessu máli og vildu koma því fram. Manni verður því spurn: Hvernig stendur á því að í öll þessi 3 ár meðan málið var til meðferðar hjá fyrrv. ríkisstj., þá skuli engum af stuðningsmönnum þeirrar ríkisstj. hafa dottið í hug að þyrfti að spyrja líffræðistofnun Háskólans um álit á málinu?

Ég vil svo að lokum aðeins taka fram að mér virðist mjög ómaklegt að deila á hv. formann iðnn. þessarar d., hv. 2. þm. Vestf., Steingrím Hermannsson, því að mér er það kunnugt eins og nm. að hann hefur unnið að þessu máli af miklum dugnaði sem nefndarformaður. Hér hefur komið fram hversu marga fundi n. hefur haldið og hversu margir aðilar úr ýmsum áttum hafa verið til kvaddir. N. hefur haft málið til meðferðar nú nær 4 víkur, og ætla ég því að flest ef ekki allt það, sem þyrfti að koma fram í n. hafi þegar komið fram ef þess hefur verið kostur að láta það koma fram. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka formanni n. fyrir ötult starf í þessu efni.