20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er eðlilegt þegar vegamál ber á góma að marga þingmenn langi til að leggja orð í belg því að ég hygg að flestir komi hingað úr héruðum sínum með sterkar óskir um að geta gert eitthvað fyrir óleyst vegaverkefni sem eru mýmörg um allt land. En sú breyting hefur orðið á þessum málum í afgreiðslu hér á Alþ. á síðustu árum að nú er ríkjandi vaxandi skilningur á því að það sé óhjákvæmilegt að gera stórátök fyrir slagæðar vegakerfisins vegna þess hve umferðin er orðin gífurlega mikil og gífurlega þung. Þetta hefur komið fram í sérstökum átökum, sem ég hygg að þjóðin öll hafi glaðst yfir, ekki síst því átaki, sem mest hefur verið kennt við árið í ár, hringveginum eða þeim hluta hans sem unnið hefur verið að á sunnan- og suðaustanverðu landinu.

Ég tel mjög eðlilegt að haldið verði áfram við slík stórátök þó að rétt sé að menn geri sér grein fyrir að útvegun á fé með þessum hætti er aðeins útvegun á lánsfé og það dýru lánsfé. Mjög lítið af því, sem tekið hefur verið hingað til, mun þegar vera komið til greiðslu svo að við erum ekki farin að öðlast mikið af þeirri hlið reynslunnar. Ég vil einnig lýsa því sjónarmiði að ég tel æskilegt að slíkar lántökur séu tengdar við einstök verkefni og tel að muni verða miklu auðveldara og þægilegar að auglýsa sölu bréfanna og ná þar árangri ef svo er. Á hinn bóginn er ekkert vít í öðru en að fé, sem aflað er á þennan hátt til einstakra vegaframkvæmda, gangi á vissan hátt inn í vegáætlun, þannig að þegar vegáætlun er gerð sé tekið tillit til sérstakra verkefna, sem eru í gangi, og það verði þar samræmi á milli, en slík stórátök verði ekki til þess að raska heildarmyndinni um of.

Ég gat þess að nú á dögum er tekið meira tillit en fyrr til hinnar miklu umferðar þegar valin eru verkefni og þeim raðað á svið vegagerðar. Með tilliti til þess hlýtur vegurinn héðan til Akureyrar að vera kominn mjög hátt, ef ekki hæst á lista. Umferðin er þar mjög mikil, enda þjónar þessi vegur svo að segja öllum landshlutum. Ég er alveg sammála hv. samgrh. að á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar eru margir vegarkaflar sem eru ákaflega slæmir og ófullkomnir og algerlega ónógir fyrir þá umferð sem um þá er. Hann nefndi vegi í Norðurárdal í Borgarfirði og ég get bætt við vegarköflum í Hvalfirði. Í sambandi við þessa vegi og sérstaklega þá sem eru nær Reykjavík, í Hvalfirði og fyrirhugaður vegur og brú yfir Hvítárósa hjá Borgarnesi, vil ég benda á að engir vegir á landinu hafa orðið eins fyrir barðinu á niðurskurði framkvæmda síðustu tvö ár og einmitt framkvæmdir á þessum svæðum. Það var lagt í lagningu hraðbrautar eða vega með varanlegu slitlagi út frá Reykjavík, farið fyrst um Suðurnes til Keflavíkur og síðar lengra um það nágrenni, síðan austur að Selfossi, þá upp í Mosfellssveit. En þegar röðin kom að Kjalarnesi og köflunum áfram skullu erfiðleikar yfir með þeim afleiðingum að einmitt vegarkaflar á þessu svæði hafa orðið fyrir niðurskurði á framkvæmdum sem nema tugum, ef ekki hundruðum milljóna, og þar er um að ræða hærri upphæðir niðurskurðar á tiltölulega takmörkuðu svæði en nokkurs staðar annars staðar á landinu.

Ég get vel skilið að það sé þægilegra, þegar skera þarf niður framkvæmdir, að gera það á stórum og dýrum framkvæmdum þar sem hægt er að skera niður stórar upphæðir með einni ákvörðun. Engu að síður vil ég nefna þetta og tel að það sé veigamikil röksemd fyrir því að það mál, sem hér er til umr., eigi að ganga fram og eigi að leggja ríka áherslu á veginn frá Reykjavík til Akureyrar. Þeir, sem farið hafa þessa leið nýlega, hljóta að verða hrifnir af því hve myndarlegar vegaframkvæmdir eru í gangi og er nýlokið á Norðurlandi, allt frá Hrútafirði og á ýmsum köflum alla leið til nágrennis Akureyrar. Mest af þessu mun vera tilkomið vegna viðbótarfjárveitingar frá Norðurlandsáætlun. Síðastur manna skal ég telja það eftir. En síðast þegar ég ók þessa leið fann ég sárt til þess að Vesturlandsáætlun skuli hafa verið lögð á hilluna þrátt fyrir margra ára baráttu þm. Vesturl., sjálfsagt af því að ekki varð við fleiri verkefni ráðið í einu. Engu að síður er þetta staðreynd og þess vegna er það, að þegar kemur norðan frá og suður yfir heiðina, þá er Norðurárdalurinn einn hinn versti kafli á allri leiðinni og í Borgarfirðinum brýr, sem geta hrunið undan stóru flutningabílunum hvenær sem er.

Ég vil lýsa samþykki mínu við þetta mál, en vil ítreka að ég tel ekki ástæðu til að það verði til þess á sérstakan hátt að draga úr framkvæmdum í öðrum landshlutum, að með því að samþykkja það sé á nokkurn hátt verið að draga úr því að reynt verði eins og hægt er að ljúka hringveginum, sem kallaður er, að sunnan og austan. Að vísu er vegi aldrei lokið. Við verðum ekki búnir að endurbæta allan hringinn mikið þegar við þurfum að fara að endurbyggja suma kaflana, sem fyrst voru gerðir í nágrenni við Reykjavík. Það er staðreynd, sem okkur hlýtur að vera öllum ljós. Þess vegna vænti ég að þetta mál nái fram að ganga, en framkvæmd samkvæmt því verði í fullu samræmi við aðrar vegaframkvæmdir á vegáætlun.