10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hvaðan hæstv. iðnrh. hafa komið þær upplýsingar að þau gögn, sem fram hafa verið lögð eða kunna að verða lögð í iðnn. Ed. varðandi þetta mál, yrðu ekki líkleg til þess að breyta afstöðu minni til málsins — hvaðan honum koma þær upplýsingar veit ég ekki — eða hv. þm. Eggert G. Þorsteinssyni sem hér talaði áður. Ég hef ekki farið dult með það, að ég er og hef verið frá upphafi andstæður hugmyndinni um málmblendiverksmiðju í Hvalfirði. Það hef ég svo sannarlega verið. En ég hef óskað eftir tæknilegum upplýsingum varðandi þessa fyrirhuguðu málmblendiverksmiðju til þess að geta kynnt mér málið betur. Ég hef ekki haft, eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson, 3 ár til að kynna mér þetta mál, og ég vil vekja athygli hæstv. iðnrh. á því að ég átti ekki setu hér á Alþ. þann tíma sem fjallað var um málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði í tíð fyrrv. ríkisstj. Honum er óhætt að treysta því, að ekki hefði staðið á mér að krefjast vistfræðilegrar athugunar hefði mér verið ljóst á þessu tímabili hversu langt þetta mál var komið áleiðis. Magnús Kjartansson á ekki sæti í Ed. Honum mun vafalaust gefast kostur á því að gefa skýringar á þessari hlið málsins er frv. kemur til Nd. En hvernig í ósköpunum hæstv. iðnrh. kemur til hugar að það breyti afstöðu minni eða annarra þm. til þessa máls, hvað hver maður heitir sem fjallað hefur um þetta mál áður, það skil ég ekki. Hér hefur ekki verið farið fram á annað en upplýsingar til þess að þm. gætu tekið rökstudda afstöðu til þessa máls. Það er rétt, að hvað eina orkar tvímælis, eins og hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson sagði áðan, — hvað eina orkar tvímælis þá gert er. Og flestum athöfnum fylgir nokkur áhætta. En við erum aðeins að fara fram á að fá þau gögn í hendurnar og þær upplýsingar sem gera okkur kleift að taka rökstudda áhættu í þessu máli.