20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Við erum sjálfsagt allir sammála um að það sé víða mikil þörf á lagningu vega. Hitt erum við sjálfsagt ekki sammála um, hvar þörfin sé mest. Í sambandi við uppbyggingu veganna hlýtur að gefa auga leið að þar sem snjóþyngst er, þar sé þörfin einna brýnust, þó að hún sé víða annars staðar einnig brýn. Fram hjá því verður ekki gengið að norðanvert landið er snjóþyngra að jafnaði a.m.k. heldur en suðurhlutinn.

Ég held að þetta frv., sem hér er til umr., sé mjög þarft mál, bæði að gera átak á þessum vegi, eins og hefur komið fram í ræðum manna, og enn fremur að fara þessa leið til að beina fjármagninu einmitt í þessa framkvæmd. Ég hef t.d. orðið var við, síðan þetta frv. var lagt fram, að það er mikill áhugi á því á vissum stöðum norðanlands að kaupa þessi bréf, sérstaklega ef það verði tryggt að það verði byrjað t.d. á einhverri vegagerð út frá þessum stöðum, eins og út frá Blönduósi, út frá Akureyri, og menn hafa jafnvel minnst á stórar upphæðir sem þeir mundu reyna að leggja í þetta ef þetta væri tryggt. Það einmitt sýnir að það er líklegra um góðan árangur með sölu þessara bréfa ef kaupendurnir vita til hvers peningarnir eiga að fara, hvaða kafla. Nú er það einnig að þéttbýlisstaðirnir eru að ganga frá sínum götum víða og til þess að þeir geti gert það, t.d. sett olíumöl á göturnar, þyrfti líka að taka kaflana næst þessum þéttbýlisstöðum samhliða. Bæði er það, að þessir kaflar eru venjulega illfærir, og í öðru lagi yrði kostnaðurinn svo mikill fyrir sveitarfélögin ef það væri ekki tekinn stærri áfangi en þau eru megnug að gera hverju sinni. Þetta á ekki frekar við á þessu svæði en annars staðar. En alþm. verða að athuga það og reyna að vinna að því að þessi framkvæmd sé möguleg því að þetta er mikið vandamál og mikil nauðsyn að fara í þessar framkvæmdir víða á þéttbýlisstöðum.

Hv. 1. þm. Suðurl. talaði um að kannske væri ekki rétt talan 1 200 millj. Það er sjálfsagt alveg rétt að það er umdeilanlegt eins og margt annað. En er nú ekki rétt að sjá hvernig gengur með sölu á bréfum í þessa upphæð? Ef það sýnir sig að hægt er að beina fjármagni jafnvel miklu meiru með þessum hætti, þá er hægur vandinn að leggja fram annað frv., ef reynslan kennir okkur að það sé ekki vandi að afla fjár á þennan hátt.

Ég held að við hljótum að vera allir sammála um að það verði að gera stórt átak í sambandi við vegina. Þetta eru lífæðir byggðanna og nútímaframleiðsla og framkvæmdir þær krefjast hindrunarlausar umferðar. Þess vegna þarf að gera mikið á næstu árum og ekki síst á þeim stöðum þar sem er að jafnaði snjóþyngst.

Það sem ég hef að athuga við þetta frv. í sjálfu sér, þó að ég sé einn af flm., er að það skuli vera stöðvast við Akureyri, vegna þess að hinum megin við Akureyri, út Svalbarðsströndina, er t.d. jafnmikil nauðsyn og á leiðinni frá Akureyri til Reykjavíkur í sambandi við svona vegarlagningu eða jafnvel enn meiri nauðsyn, enn fremur út frá Húsavík, svo að ég taki dæmi. En einhvers staðar verður að byrja og það er ekki þar með sagt að ekki sé'hægt að afla fjár til þeirra hluta, þó að þetta frv. sé miðað við framkvæmdir á þessu svæði.