11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

87. mál, vatnsvirkjunarrannsóknir til raforkuframleiðslu á Norðurlandi

Heimir Hannesson; Herra forseti. Ég tala hér fyrir fsp. frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni í fjarveru hans sem beint er til hæstv. orkumrh., á þskj. 95. Fsp. er á þessa leið:

„1. Hvaða vatnsvirkjunarrannsóknir með raforkuframleiðslu fyrir augum eru lengst komnar á Norðurlandi?

2. Hvenær væri hægt að hefja virkjunarframkvæmdir ef rannsóknum yrði hraðað eins og kostur er?

3. Liggja fyrir niðurstöður um stærð fyrsta áfanga Dettifossvirkjunar?

4. Hafa verið gerðar athuganir á, hvaða orkufrekur iðnaður kæmi helst til greina á Norðurlandi með Dettifossvirkjun fyrir augum eða aðra stórvirkjun þar?“

Hér er vissulega hreyft afar þýðingarmiklu máli, einu hinu þýðingarmesta fyrir norðlenska hagsmuni í dag og raunar undanfarin ár, enda hafa virkjunarmál norðlendinga verið fulllengi eingöngu á dagskrá og meira um orð en efndir. Er nú svo komið að þessu ástandi una menn ekki lengur og gera þá kröfu til stjórnvalda að í stað orða og óljósra loforða komi efndir með raunverulegum framkvæmdum, en ekki einhver óljós loforð í þá veru að norðlendingar megi búast við því að röðin komi að þeim næst þegar lokið verði við næstu stórvirkjun á Þjórsársvæðinu eða Suðvesturlandssvæðinu.

Því verður vart trúað að þennan vel æfða biðleik undanfarinna ára eigi að leika enn þá einu sinni og þá aftur á kostnað norðlendinga, og vil ég sérstaklega beina því til hæstv. orkumrh. og hæstv. ríkisstj., að hún taki í þessu máli ákveðna afstöðu.

Saga baráttu fyrir stórvirkjun á Norðurlandi, sem í senn miðlaði orku til íbúa og atvinnurekstrar og hagnýtti umframorku til einhverrar þeirrar iðnaðarframleiðslu sem hentar að nýta raforku til sem aflgjafa, er orðin löng og býsna litrík. Þessi saga verður ekki nakin hér. Ég veit ekki hvort allir hv. þm. muna eftir Dettifosshreyfingunni sem mikið lét að sér kveða á sínum tíma. Og margar eru þær ályktanir er fram hafa verið lagðar utan þings sem innan og ýmist samþykktar eða saltaðar. Þær skulu ekki raktar hér frekar en upphaf og saga Dettifosshreyfingarinnar í ýmsum myndum, en allar eiga þær sér það sammerkt að allar minntu á hverjum tíma á nauðsyn þess að stórvirkjun yrði reist á Norðurlandi í tengslum við aðra framleiðslustarfsemi og minnt á vaxandi þörf fyrir orku í Norðlendingafjórðungi. Í hnotskurn er vandamálið í dag: Það hefur komið fram sem menn óttuðust að við þessum óskum varð ekki orðið og menn vita og sjá hvert vandamálið er núna.

Á sama tíma og hver biðleikurinn hefur verið leikinn af öðrum í orkumálum norðlendinga og menn látnir trúa því í alvöru að röðin væri að koma að þeim og rannsóknir um það bil að hefjast fyrir alvöru hafa menn horft upp á hvert orkuverið af öðru rísa hér sunnanlands á vegum Landsvirkjunar sem er eins og kunnugt er sameign ríkisins og Reykjavíkurborgar.

Nú nýlega hefur verið birtur nýr boðskapur sem ég skal ekki víkja að í þessari framsögu, en e. t. v. síðar. Ég sagðist ekki heldur ætla að rekja söguna, enda vart til þess tími. En fyrir hönd fyrirspyrjanda vil ég vekja athygli á örfáum ummælum ýmissa ráðamanna á fundi um orkumál sem haldinn var á Akureyri 30. nóv. 1973 á vegum Fjórðungssambands norðlendinga, þar sem m. a. fluttu framsöguerindi fyrrv. iðnrh., hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson og Jakob Björnsson orkumálastjóri, með leyfi hæstv. forseta. Í framsögu sinni sagði Magnús Kjartansson, fyrrv. iðnrh., þar sem hann var að ræða um hringtenginguna:

„Slík hringtenging mundi veita eins fullkomið öryggi og hugsanlegt er. En í sambandi við slíka stórvirkjun eins og Dettifossvirkjun er þyrfti að sjálfsögðu að koma á orkufrekum iðnaði hér á Norðurlandi.“ Í framhaldi af þessu sagði ráðh.: „Ég held að það sé ákaflega háskalegt ef menn ætla að halda þannig áfram að allur orkufrekur iðnaður, sem upp verður komið á Íslandi, verði á Suðvesturlandi. Ég álít að það sé mjög mikilvægt í sambandi við byggðaþróun að slíkur orkufrekur iðnaður rísi í öðrum landshlutum og þá ekki síst hér á Norðurlandi.“

Ég sé nú að tíminn er að verða búinn, svo að ég kemst ekki yfir nema hluta af því sem ég ætlaði að segja. En ég vil á þessu stigi ítreka óskir mínar að hæstv. ráðh. gefi hér afdráttarlausar yfirlýsingar. Norðlendingar eru orðnir býsna þreyttir á því að bíða og óska eftir svör