11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

87. mál, vatnsvirkjunarrannsóknir til raforkuframleiðslu á Norðurlandi

Heimir Hannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. orkumrh. fyrir svörin og sérstaklega þó fyrir tvær yfirlýsingar sem hann gaf: Aðra þá, að taflmennsku biðleikjanna væri lokið, þó að ég sé ekki alveg sannfærður um að svo sé, en ég þakka hæstv. ráðh. eftir sem áður fyrir það. Í öðru lagi vil ég þakka honum fyrir þá yfirlýsingu, sem ég vil vekja sérstaka athygli á, að ríkisstj. eða hann sem orkumrh. .lýsir því hér með yfir að fyrsta ákvörðun í sambandi við stórvirkjun verði tekin í sambandi við stórvirkjun á Norðurlandi og sú ákvörðun verði tekin áður en endanleg ákvörðun verði tekin um Hrauneyjafoss — skil ég það ekki rétt? — í sambandi við Þjórsársvæðið.

Í sambandi við þá vinnslu sem hæstv. ráðh. minntist á, vil ég líka þakka honum hans ummæli og ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til þess að koma á framfæri áhugamáli — sem ég reyndar ætlaði að gera í framsögu, en gafst ekki tími til — fyrirspyrjanda Stefáns Valgeirssonar sem hann og fleiri hafa áhuga á. Það er að kannaðir verði mjög vandlega möguleikar á því að reisa áburðarverksmiðju á Norðurlandi í tengslum við stórt orkuver. Ég hjó sérstaklega eftir því að hæstv, ráðh. hafði sérstaklega orð á því að þessi svokallaða minni Dettifossvirkjun mundi e. t. v. .ekki henta vegna þess að markað skorti. Ég vil í sambandi við það vekja sérstaka athygli á því að samkv. þeim upplýsingum, sem ég og fleiri hafa aflað, mundi hugsanleg áburðar- eða ammoníakverksmiðja einmitt þurfa meiri orku, jafnvel milli 300 og 400 mw., þannig að ég vil fara þess á leit við hæstv. ráðh. að þetta mál verði alveg sérstaklega kannað í sambandi við áburðarverksmiðjuna.

Hæstv. ráðh. sagði að öllum biðleikjum væri lokið og það er mjög gott. Ég verð hins vegar að vekja athygli í þessari virðulegu d. á því, að fyrir nokkrum dögum flutti Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, stjórnarformaður Landsvirkjunar, ræðu. Þar sagði hann í sínu erindi sem birt var í Morgunblaðinu s. l. sunnudag, með leyfi forseta:

„Til þess að mæta þessari þörf hefur verið undirbúin virkjun við Hrauneyjarfoss og verða útboðsgögn tilbúin og öllum verkfræðilegum undirbúningi lokið innan nokkurra vikna. Verður því hægt að afla tilboða í vélar og framkvæmdir þegar á þessu ári ef æskilegt þykir.“

Mér sýnist að þarna sé á ferðinni kannske einhvers konar biðleikur, hvað sem hann kann nú að þýða í framkvæmd. Í sama erindi segir formaður Landsvirkjunar líka:

„Ef ég held mér eingöngu við meiri háttar virkjanir, en sleppi smávirkjunum, sem hvort eð er hafa lítil áhrif á heildarmyndina, er á þessu tímabili aðeins um að ræða þrjár virkjanir: Sigölduvirkjun sem þegar er í byggingu, Kröfluvirkjun sem framkvæmdir munu hefjast við á þessu ári og Hrauneyjarfossvirkjun, sem bráðlega er tilbúin til útiroðs og gæti orðið fullbúin árið 1979 ef framkvæmdir hefjast ekki síðar en á þessu ári.“

Það er því alveg ljóst að landsvirkjunarstjórn — ég held að það geti varla verið með heimild ríkisstj., miðað við þær yfirlýsingar sem mér hafa verið gefnar — er komin langleiðina með aðstoð sérfræðiaga og með sínu fjármagni að undirbúa þessi mál. Ég vildi því skora á hæstv. orkumrh., þótt þess sé kannske varla þörf eftir þá yfirlýsingu sem hann gaf hér áðan, að það verði ríkisstj. og Alþ. sem ráði stefnunni í þessu máli, en ekki landsvirkjunarstjórn.