11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

87. mál, vatnsvirkjunarrannsóknir til raforkuframleiðslu á Norðurlandi

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það hefur margt komið merkilegt fram í svörum hæstv. iðnrh. í sambandi við þessar fsp., en því miður er enginn tími til að fara út í neinar almennar umr. þar um.

Ég veit að hv. alþm. hafa veitt því athygli að það hafa orðið miklar umr., bæði hér í þingsölum og ekki síður á heimaslóðum, í sambandi við virkjunarmál á Norðurlandi, og þessi mál eru hálfgerð sorgarsaga í rauninni. En ég hygg líka og mig langar til að benda alveg sérstaklega á það, að í svörum hæstv. ráðh. kemur greinilega fram að á Norðurlandi eru gífurlega miklir möguleikar til virkjana, margs konar virkjana, bæði stórra og smárra. Mig langar til að draga alveg sérstaklega athygli manna að þessari staðreynd, að þessir virkjunarmöguleikar á Norðurlandi eru margvíslegir. En jafnframt hlýt ég að minna á það sem gert hefur verið hér mjög rækilega áður að það hefur gengið sorglega seint að fá fram fullnaðarrannsókn á þeim miklu möguleikum sem fyrir hendi eru. Ég ætla ekki að fara að telja upp alla þessa staði því að það gerði hæstv. ráðh. svo rækilega áðan og menn hafa tekið eftir orðum hans. En ég vil, eins og hér hefur verið gert áður, leggja á það megináherslu nú með öðru að þessum rannsóknum verði hraðað og þá alveg sérstaklega rannsóknum á Jökulsá á Fjöllum á því að þessar rannsóknir hafa nú staðið í hálfan annan áratug, að ég hygg, og ég held að það hafi komið réttilega fram hjá ráðh. — í hálfan annan áratug og þeim er tæplega lokið enn, jafnvel hvað snertir Dettifossvirkjun sem lengst hefur verið á döfinni. Og nú þegar þeir eru búnir að velta þessu fyrir sér í 15 ár, þá komast þeir að þeirri niðurstöðu að virkjunarmöguleikarnir í Jökulsá á Fjöllum séu enn meiri en komið hefur fram og kannske miklu meiri en okkur hefur órað fyrir. Ég vil því leggja megináherslu á það við hæstv. ráðh. að þetta verði fullkannað.

Sannleikurinn er sá að ég ætlaði að minnast á sitthvað fleira. Í sambandi við þetta hefur ekki verið minnst á eina stóra og mikla virkjun sem unnið er að af miklu kappi núna og er komin á það stig að það þarf í rauninni ekki annað en lokaákvörðun til þess að hægt sé að hefjast handa, og það er virkjunin við Kröflu. Ég vil biðja þingheim að gleyma ekki því máli. Það er sú virkjun sem er komin langsamlega lengst op. það er sú virkjun sem norðlendingar horfa til og treysta að verði til þess að leysa þeirra brýnustu mál. En það breytir því ekki, eins og ég hef áður tekið fram og vil benda alveg sérstaklega á, að virkjunarmöguleikar á Norðurlandi eru margvíslegir og við þurfum ekki að kvíða neinum orkuskorti á Norðurlandi ef þeir eru notaðir og ef rösklega er að þeim málum unnið.