11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

87. mál, vatnsvirkjunarrannsóknir til raforkuframleiðslu á Norðurlandi

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þessar umr., sem hafa spunnist út af fsp. um orkumál á Norðurlandi, hafa verið á margan hátt fróðlegar, sérstaklega að því leyti til að það hefur komið glögglega í ljós að það, sem ræður ferðinni í sambandi við stórar orkuframkvæmdir, eru fyrst og fremst rannsóknirnar og það, sem ræður rannsóknunum, eru fyrst og fremst fjárráðin til þess að standa fyrir rannsóknum. Það virðist svo sem Landsvirkjun hafi ótakmarkaða möguleika til þess að standa fyrir rannsóknum sem kosta gífurlegt fjármagn. Það hefur verið upplýst hér á Alþ. fyrr í vetur að t. d. muni kosta um 250–300 millj. kr. að rannsaka til fullnaðar Fljótsdalsvirkjun á Austumlandi og það muni taka 3 ár. Ég veit ekki hve mikið fjármagn það muni kosta að rannsaka Hrauneyjarfossa, en mér er það ljóst að það kostar mikið fjármagn.

Landsvirkjun hefur að því er virðist ótakmarkað fjármagn og það ræður ferðinni vegna þess að raforkuþörfin knýr á dyrnar og ekki er hægt að bíða eftir rannsóknum á öðrum möguleikum, og þess vegna verður ofan á að virkja þá virkjunarmöguleika sem hafa verið rannsaka$ir og skoðaðir. Ég held að það sé ákaflega þýðingarmikið fyrir þjóðina að leggja meira fjármagn í rannsóknir á sviði orkumála til þess að menn séu betur í stakk búnir til þess að bera saman þá möguleika sem raunverulega eru fyrir hendi, því að forsendan fyrir því að menn geti borið saman hagkvæma möguleika á þessum sviðum er einmitt að fullnaðarrannsóknir liggi fyrir.