20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst rétt að það heyrist hér ein rödd að vestan. Hv. þm. úr allflestum kjördæmum öðrum eru búnir að tala.

Hv. 1. þm. Sunnl. minnti á að það vantaði líka vegi á Suðurlandi og það er sjálfsagt rétt. Hæstv. samgrh. talaði um elstu vegi á Vesturlandi, það efast ég um að sé rétt. Það má sjálfsagt finna þá eldri og verri víðar heldur en á Vesturlandi, og svo mætti lengi telja.

Ég ætla ekki að mæla neitt á móti því frv. sem hér er til umr. En þegar um slíkt mái er að ræða, fjárupphæð upp á 1200 millj., sem á að ákvarðast í tiltekið verkefni á leið, sem ég held að sé a.m.k. ekki verri en margar aðrar á landinu, þá held ég að það hljóti að vakna sú spurning hjá mönnum hvort það sé í reynd skynsamlegt að ákvarða svo stóra fjárupphæð, 1 200 millj. kr., til þessa verkefnis. Það fer ekkert á milli mála að ef slík ákvörðun yrði tekin, þá dregur það vitanlega úr framkvæmdum á öðrum stöðum. Það fer vart hjá því.

Ég ætla ekki að mæla neitt á móti þessu, en ég vil t.d. minna á það sem hér hefur verið komið inn á að menn ern að tala um að hringvegi sé lokið. Hv. 2. þm. Austf. upplýsti annað hér. Og ég vil bæta því við að hringvegi er auðvitað ekki lokið fyrr en búið er að gera akfæran veg um Vestfirðina. Það er víðs fjarri að það sé búið enn. Þó að samband náist að því er varðar Vestfjarðaveginn á næsta ári er á löngum köflum um að ræða vegi sem eru nánast troðningar. Þannig að varanleg uppbygging hringvegar, ef menn vilja halda sér við það, tekur áreiðanlega nokkur ár til viðbótar, ef Vestfjarðaleiðin er tekin með í þetta dæmi, sem ég held að menn hljóti að vera orðnir sammála um að eigi að gera.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði réttilega áðan að þar sem snjóþyngslin eru mest, þar er auðvitað þörfin brýnust og því á að sinna fyrst. Enginn vafi er á því að þar koma Vestfirðirnir fyrst til greina, nr. eitt. Ég er alveg sammála þessum hv. þm. um það. En hvað sem þessu liður, þá held ég að menn ættu að skoða málið vel áður en slík ákvörðun er tekin að 1 200 millj. fari í þessa tilteknu framkvæmd eina sér. Ég held að það sé hægt að finna víða leiðir sem er eðlilegra, vegna þess hversu þær eru slæmar, að sinnt sé áður en að þessu kemur og því sé full ástæða til þess að það dæmi verði skoðað í heild. Og ég fagna því, sem hæstv. samgrh. lýsti yfir áðan, að hann hefði gert ráðstafanir til þess að skoða þetta dæmi fyrir allt landið, hvernig það stæði. Eins og ég sagði, ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en ég vil bara vekja athygli á því að ég held að það sé brýnni þörf um úrbætur víða annars staðar en á þessum tiltekna vegi og það þurfi að skoða vel áður en ákvörðun er tekin um að eyrnamarka 1200 millj. til þessara framkvæmda, og ég minni þá að sjálfsögðu fyrst og fremst á Vestfirði.