11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

311. mál, lagning byggðalínu til Norðurlands

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég sé að hv. 1. landsk. þm. er genginn úr salnum, en það voru einmitt hans orð sem voru orsök þess að ég kom hér upp enn. En ég vildi aðeins gera grein fyrir því hvernig ég fékk þá tölu sem ég fór með áðan um áætlaðan olíukostnað á árinu 1976 á Norðurlandi. Þessar tölur eru fengnar frá virkjunaraðilum eða frá orkusöluaðilum á Norðurlandi og byggjast á áætlaðri tölu, að vísu fyrir árið 1974, en þá í lok ársins voru horfur á að 20 millj. kwst. af raforku yrðu framleiddar með olíu á Norðurlandi öllu. Miðað við áætlaða aukningu, sem eingöngu byggðist á framleiðslu rafmagns með dísilolíu er gert ráð fyrir að þyrfti að framleiða 30 millj. kwst. á árinu 1975 og um eða yfir 40 millj. kwst. á árinu 1976. Nú kostar olía rétt um 6 kr. á hverja kwst. og þar að auki er svo vinnukostnaður. Ég sé reyndar að ég hef farið hér aðeins rangt með, því að það var á árinu 1977 sem gert var ráð fyrir að þessi framleiðsla færi yfir 50 millj. kwst. ef ekkert yrði að gert með framleiðslu annarrar orku, og þá hefði olíukostnaðurinn einn farið í 300 millj. En áætlaður kostnaður annar en olíukostnaður við framleiðslu hverrar kwst. með dísilolíu er nú milli 2 og 3 kr. á hverja kwst., svo að heildarkostnaður á árinn 1976 hefði þá farið yfir 300 millj.