11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

319. mál, trygginga- og skattakerfi

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 169 hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. fjmrh.:

„Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til endurskoðunar og samræmingar á trygginga- og skattakerfinu?“

Þessi fsp. var lögð fram í des. s. l., en nú fyrst gefst tækifæri til þess að ræða hana hér á þingi. Hér er drepið á ákaflega stórt mál og viðkvæmt, ekki síst á þessu augnabliki þar sem skattamál eru til alvarlegrar skoðunar sem liður í yfirstandandi kjaradeilu og var vissulega tímabært að lögð yrði áhersla á þann þátt kjara hins vinnandi manns. En samræming skatta- og tryggingakerfis í þessu sérstaka tilliti og eins almennt séð hlýtur að koma til athugunar þegar blasir við öllum það tvöfalda kerfi sem leiðir af sér tvöfalt umstang, tvöfaldan kostnað um leið og það er flókið og yfirþyrmandi. Þetta hlýtur að koma til athugunar þegar menn á annað borð vilja kafa ofan í hin stærri mál sem þarf að taka tökum undir þeim kringumstæðum sem við blasa í þjóðfélaginu í dag.

Það gefst ekki tími til þess í þessari umr. að ræða efnislega um tilgang skatta og trygginga sem þátt í efnalegu jafnræði eða félagslegu öryggi. En ljóst er að menn hafa mjög verulega misst sjónar á því hvernig þessum málum yrði best fyrir komið með ofangreind markmið í huga. Menn hafa m. ö. o. misst nokkuð sjónar á þessum markmiðum þegar verið er að breyta einu eða öðru, annars vegar í tryggingum og hins vegar í skattakerfi, án þess að hafa hliðsjón af hinum þættinum um leið. Gallinn er nefnilega sá að menn hafa tekið fyrir og dagfært ýmislegt eða breytt ýmislegu í trygginga- og skattakerfinu án þess að skoða þau mál í samhengi. Hér þarf því að samræma og einfalda og spara og ég hef gert mér vonir um að núv. hæstv. ríkisstj. taki þessi mál föstum tökum. Það ýtti undir þær vonir mínar þegar hæstv. fjmrh. flutti athyglisverða grg. í umr. um fjárl. á s. l. hausti, þar sem hann fjallaði m. a. um ýmis stefnuatriði í skatta- og tryggingamálum. Þess vegna er þessi fsp. fram borin, að það átti að spyrjast fyrir um hvað hafi verið gert og hvenær megi búast við niðurstöðu og til þess að ýta þessu máli áfram og hrinda fram einhverjum aðgerðum.