11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

148. mál, orkumál Norðurlands

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Þessi fsp. var að sjálfsögðu gerð til þess að ýta við, ef hægt væri, að fá endurskoðun á samningnum. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. hans svör, og mér þykir leitt að hann skuli hafa fengið bréf um að ekki komi til greina að breyta því samkomulagi sem gert var á sínum tíma, ekki síst með tilliti til þess að ég veit ekki betur en landeigendur í Þingeyjarsýslu hafi einmitt gert samkomulag um að þeir mundu heimila 18 m stíflu, — gert það á aðalfundi búnaðarsambands síns fyrir allmörgum árum, þannig að þótt einhver misskilningur og stífni hafi verið ráðandi á sínum tíma, þá álít ég að beiðni um endurskoðun sé réttlætanleg þegar aðstæður hafa gerbreyst svona mikið.

Ég vil geta þess að skömmu eftir að þessi fsp. kom fram var þess getið í útvarpinu að Ítalíustjórn væri að fara fram á endurskoðun á samningum sem hún hafði gert við sjálfan páfann í Róm, og er þá engin goðgá að fara fram á endurskoðun við landeigendur í Þingeyjarsýslu. Hitt er annað mál að auðvitað verður engin breyting á þessu máli gerð nema með samþykki beggja aðila, eins og ég tók fram. Ég vil líka benda á það, að þótt ekki fengjust nema nokkur mw. í viðbót þá geta þessi fáu mw. haft mikilvæg áhrif á líðan og aðstöðu fólks í þessum byggðarlögum þar til varanleg orkuaukning kemur. Það mun vera svo að hvert mw. sem er aukning í stöð, sem er rekin, er a. m. k. 100–200 millj. kr. virði, þannig að á okkar erfiðu tímum held ég að það hljóti að vera nokkurs virði, ef hægt væri að fá þarna einhverja bót á.

Ég vil sem sagt endurtaka þakkir mínar til hæstv, ráðh, og þykir leitt að heyra að það skuli ekki vera von um breytingu, vegna þess að þetta er eina leiðin að mínu viti til þess að forða norðlendingum frá orkuskorti næsta vetur.