11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

148. mál, orkumál Norðurlands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég byrja með því að þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans við fsp. sem hér um ræðir. Ég hygg að ráðh. hafi sagt í svari sinn bókstaflega allt það sem hægt var að segja varðandi þessa fsp. Hv. fyrirspyrjandi, Oddur Ólafsson, sagði að stíflugarðurinn, sem þyrfti í Laxá til þess að auka þar orku, mundi kosta minna en dísilolían sem notuð yrði. Sannleikurinn er náttúrlega sá, að stíflugarður í Laxá mundi kosta annaðhvort lagabreytingar eða lögbrot og þau kynnu aftur á móti að kosta mun meiri illindi en svo að hægt sé að metra þau til verðs í peningum eða olíu.

Það var gerður samningur á milli stjórnar Laxárvirkjunar og bænda um að ekki yrði um frekari virkjunarframkvæmdir að ræða við ána nema með heimild bænda. Þegar er ljóst fyrir löngu, að bændur veita ekki heimild til þess að reisa þarna stíflugarð, hvorki 9 m stíflugarð, 5 m stíflugarð né 18 m stíflugarð sem yrði undirstaða undir hærri stíflugarð.

Í vetur hefur verið til þess kostað af hálfu ónefndra aðila á Norðurlandi í stjórn Laxárvirkjunar, sem hafði samið um þetta við bændur, að um frekari framkvæmdir yrði að ræða þar. Hefur verið til þess kostað að reyna að knýja Alþ. og ríkisstj. til að rjúfa samning á bændum og þyrfti þá raunar að breyta lögum líka. En. það er ekki einsdæmi að nýlegum lögum sé breytt hér í sölum hv. Alþ., því að sett hafa verið lög um náttúruvernd á svæði Laxár og Mývatns. Það var ljóst mál nyrðra, þegar áður en þessi fsp. var samin, og má fyrirspyrjanda vera það fullkunnugt, að bændur mundu ekki veita þessa heimild. Hér var um það að ræða að reyna að þvinga fram aðgerðir af hálfu Alþ. og ríkisstj. Nú vil ég spyrja hv. þm. Odd Ólafsson, hvort honum sé ljóst að sunnlendingar eiga vélar til raforkuframleiðslu hér syðra, sem bundið er í samningi að skuli nota að hálfu í þágu útlendra manna sem eiga hér álverksmiðju í Straumsvík. Ef sá samningur væri ógiltur af Alþ. eða ríkisstj., þá mundi orkan, sem bundin er með þessum samningi, nægja til þess að bæta úr allri raforkuþörf landsmanna. Það væri myndarlega að staðið og höfðinglega, því að þar er ekki við kotkarla að eiga. Ef farið væri út í samningsrof, þá legg ég til að farið yrði svolítið stærra í stykkin en felst í fsp. hv. þm.