11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

148. mál, orkumál Norðurlands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða mjög langorður um þetta mál. enda ekki til þess möguleiki vegna þingskapa. Ég verð hins vegar að segja það að þegar þessi fsp. kom fram frá hv. þm. Oddi Ólafssyni fyrir alllöngu, þá get ég ekki neitað því að ég varð dálítið hissa. Hins vegar hef ég leyft mér að skrifa þessa fsp. hans á reikning ókunnugleika fyrirspyrjandans á aðstæðum og viðhorfum manna á Norðurlandi. Sannleikurinn er sá að það er ekki þarft mál að fara að vekja um þetta umr. eða gera till. um að farið verði að reisa stóra stíflu eða minni í Laxá til þess að bæta úr augljósum orkuskorti á Norðurlandi. Það er auðvitað alveg rétt að ástandið í orkumálunum á Norðurlandi er mjög alvarlegt og hefur lengi verið það. Ég held hins vegar að við ættum ekkert að vera að ofgera þetta vandamál og ímynda okkur að það sé hægt að leysa það með hinum ódýrustu lausnum. Þetta veit ég að hv. fyrirspyrjandi mundi fljótlega komast að raun um ef hann kynnti sér allar málsástæður sem þarna liggja að baki.

Ég sagði í dag í umr. um aðra fsp. að á Norðurlandi væru margir möguleikar til virkjunar, og ég hef mikla tilhneigingu til þess að endurtaka þá setningu og reyna að gera mönnum það skiljanlegt að svo er og það er kominn tími til þess að við förum að átta okkur á því máli. Við verðum að fara að átta okkur á því að þessir möguleikar eru margir og miklir og góðir og allir betri en sú hugmynd að virkja í Laxá. Það er auðvitað ekki tími til þess hérna að fara mikið út í þá hugsun sem fram kemur í öðrum lið fsp. um að breytt viðhorf í orkumálum skapi nú grundvöll fyrir því að farið verði að reisa stíflugarð í Laxá. Ég held að þessu sé alveg þveröfugt farið. Viðhorfin hafa ekki breyst á þann veginn að það geri það á nokkurn hátt æskilegt eða eðlilegt að fara fram á slíka lausn. Við höfum allt aðra möguleika. Og ég gleðst yfir því að hæstv. ráðh. gaf þau svör, sem hér komu fram. Ég skil það svo, enda mátti ég vita það fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur engin áform um að fara að vekja upp þetta mál.