11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

148. mál, orkumál Norðurlands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Eitt hygg ég, að hafi komið berlega í ljós við þessar stuttu umr. með tímatakmörkunum og það er að hv. þm. Oddur Ólafsson mun vera kunnugri samningsaðstöðu Ítalíustjórnar gagnvart páfanum en samningsaðstöðu Laxárvirkjunarstjórnar gagnvart bændum í Þingeyjarsýslu. Í vetur var ákaflega létt verk fyrir formann Laxárvirkjunarstjórnar og framkvæmdastjóra að snúa sér til bænda og inna þá eftir því hvort þeir mundu fallast á stíflugerð í Laxá. Þeir þurftu ekki að spyrja þá, svar þeirra lá fyrir. Skipulagðar umr. í útvarpi um þessi mál, þar sem þrír aðilar Laxárvirkjunarstjórnar komu fram, voru ekki til þess sniðnar að ná eyrum bænda, heldur til þess að ná eyrum alþm. og ríkisstj., til þess að fá þessa aðila til þess að skerast í málið. Ég er alveg viss um að nú er annað þarfara en það að rífa ofan af fleiðrunum sem eftir urðu við Laxárdeilurnar. Hitt er þarfara að þessar skeinur fái að gróa og að eðlilegt samstarf takist á milli frændanna sitt hvorum megin Vaðlaheiðar, því að sannleikurinn er sá að það er ekki síður nauðsynlegt fyrir Akureyrarbæ að hafa gott samstarf við íbúa í Þingeyjarsýslum heldur en fyrir þingeyinga að ná góðu samkomulagi við akureyringa. M. a. stendur nú, vænti ég, fyrir dyrum að leitað verði eftir því að fá heitt vatn af yfirráðasvæði Þingeyinga til þess að ylja upp Akureyrarbæ, og trúið mér til að allir samningar þar að lútandi munu verða auðveldari ef komin eru á sæmileg grið eftir orrahríðina í sambandi við Laxárdeiluna.