11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

324. mál, vanskil á stofnlánum hjá Fiskveiðasjóði Íslands og Byggðasjóði

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. mjög vel fyrir þessi svör sem voru greinargóð og glögg.

Það kemur í ljós, eins og vitað var, að vanskilin skiptast mjög misjafnlega. Það kemur engum á óvart. Vissir staðir hafa spjarað sig þokkalega við erfiðar aðstæður, en aðrir mjög miður.

Einnig kemur í ljós að nokkur skip hafa ekki fengið sína lánaafgreiðslu enn þá endanlega þó að frá hafi verið gengið. Í því sambandi vil ég aðeins minna á það, að enn munu lánsmöguleikar Fiskveiðasjóðs vera svo þröngir að þeir, sem fá loforð nú, eiga varla von á útborgunum fyrr en á árinu 1976. Þetta er auðvitað alveg óþolandi ástand, og ég hef sagt það á öðrum stað, í hv. Ed., að stór þáttur í rekstrarerfiðleikum flotans í dag er hve erfitt er að fullnægja eðlilegum stofnlánum. Menn eru á yfirdráttarvöxtum, 24%, sem útgerðarfyrirtækin verða að borga í stórum stíl, og mjög miklar þrengingar í kringum þetta, þannig að ég vil eindregið skora á hæstv. sjútvrh. að beita sér af alefli í því skyni að lánsumsóknir hjá Fiskveiðasjóði, bæði um lán til báta og vinnslustöðva og annars sem hann lánar út á, verði afgreiddar og lánin komin til útborgunar á árinu. Hann þekkir þetta vandamál allra manna best og veit hvað þetta er erfitt. En reksturinn leyfir ekkert annað í dag en tekið sé hart á þessu máli og því bjargað í höfn. Það er ekki hægt annað. Því miður hefur bankavaldið ekki treyst sér enn til að auka rekstrarlán neitt þrátt fyrir tvær gengisfellingar og mikla verðbólgu, svo að það þýðir það að rekstrarkjör með eðlilegum hætti hafa verið stórkostlega rýrð á undanförnu rúmlega einu og hálfu ári — stórkostlega rýrð a. m. k. varðandi allan bátaflotann. Ég veit að togarafyrirtæki skulda einkafyrirtækjum gífurlegar fjárhæðir. Þau eru svo illa sett í dag mörg hver, þessi einkafyrirtæki, sem þjóna togaraflotanum, að þau eru neydd til þess að krefjast staðgreiðslu því að það er ekki lengur svigrúm til þess að veita eðlilega viðskiptaþjónustu.

En ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og tel að hann hafi skilað þeim eins og ég óskaði eftir.