20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

34. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Með l. nr. 93/1971, um Framkvæmdastofnun ríkisins, var stigið mikilvægt upphafsskref í átt að varanlegum lausnum á byggðavanda landsins. Ákvörðun núv. ríkisstj. um aukið framlag til Byggðasjóðs sem næmi 2% af ríkisútgjöldum felur í sér viðurkenningu á því að þörf sé á verulegri eflingu þeirrar starfsemi sem hafin var með setningu fyrrgreindra laga. Við flm. þessa frv. erum hins vegar þeirrar skoðunar að eigi starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs að stuðla að grundvallarbreytingu á aðstöðu landsbyggðarinnar verði að grípa til enn róttækari aðgerða, það verði í senn að stórefla framlag ríkisins til byggðaþróunar og flytja vald yfir ráðstöfun fjármagnsins til samtaka landsbyggðarinnar. Það getur aldrei orðið grundvöllur fyrir varanlegum jöfnuði í landinu ef fjármagnsvaldið er að öllum meiri hl. samankomið hér á Reykjavíkursvæðinu. Eigi hinar dreifðu byggðir landsins að geta boðið hinum sterku fjármagnsstofnunum og hinum mikla fjármagnsþunga, sem tengdur er Reykjavíkursvæðinu, byrginn, þá verða þær að fá vald, raunverulegt ákvörðunarvald, yfir úthlutun verulegs fjármagns til framkvæmda í sínum eigin landshluta. Það er þess vegna grundvallaratriði þeirra breytinga, sem lagt er til með þessu frv. að gerðar verði á l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, að vald yfir fjármagninu verði fært frá þeirri stjórnstofnun, sem Framkvæmdastofnunin hefur verið hér í Reykjavík, til samtaka fólksins í hverjum landshluta.

Einnig felast í þessu frv. ákvæði þess efnis að fjármagnsútvegunin til Byggðasjóðs verði það veruleg að einhver raunhæf von sé á því að aðgerðir hans leiði til grundvallarbreytinga á stöðu landsbyggðarinnar gagnvart Reykjavíkursvæðinu. Við erum þeirrar skoðunar að með óbreyttu skipulagi Byggðasjóðs, þ.e.a.s. að valdið yfir fjármagnsúthlutuninni sé í höndum stjórnar og starfsmanna stofnunarinnar hér í Reykjavík, muni áform hæstv. ríkisstj. um framlög sem nemi 2% ríkisútgjalda í reynd auka enn frekar hina sterku valdamiðstöð í Reykjavík, sú ákvörðun muni ekki færa landsbyggðinni til lengdar þann fjármagnsstyrk sem hún þarf á að halda. Með því að flytja 2% ríkisútgjalda í Byggðasjóð, en halda skipulagi sjóðsins áfram óbreyttu, er í raun og veru ekki verið að gera annað en styrkja fjármagnsstofnanir á höfuðborgarsvæðinu umfram það sem nú er. Það er enn frekar verið að þjappa saman fjármagnsvaldinu á Íslandi

Við leggjum þess vegna til í þessu frv. að jafnhliða auknu fjármagni til Byggðasjóðs verði l. um Framkvæmdastofnun breytt á þann hátt að Byggðasjóði verði skipt í deildir eftir landshlutum, hann starfi þannig í eftirfarandi deildum: Vesturlandsdeild, Vestfjarðadeild, Norðurlandsdeild, Austurlandsdeild, Suðurlandsdeild og Reykjanesdeild. Við erum þeirrar skoðunar, að vandamál einstakra byggðarlaga á Suðurnesjum séu það náskyld vandamálum sjávarþorpanna kringum landið að ekki sé réttlætanlegt til lengdar að það svæði sé allt algerlega fyrir utan verkahring Byggðasjóðs, þótt það sé eðlilegt að fjármagn til Reykjanesdeildarinnar verði að öllu jöfnu mun minna heldur en fjármagn til annarra deilda þar sem byggðavandinn er mestur. En sjávarþorpin á Suðurnesjum eru mörg hver þannig sett að réttlætanlegt er að flokka þau hvað byggðavandann snertir með sjávarútvegsstöðum Austurlands, Norðurlands, Vestfjarða og Vesturlands.

Það yrði samkv. þessu frv. verkefni stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins að skipta fjármagni Byggðasjóðs milli landshlutadeildanna í samræmi við almennar byggðaáætlanir og skiptingu landsins í þróunarsvæði, þ.e.a.s. mat stjórnvalda á hverjum tíma um það hvar byggðavandinn sé mestur, hvaða landssvæði eigi þess vegna að njóta stærsta hluta þess fjármagns sem fyrir hendi er til þessa verkefnis. Hins vegar yrði það stjórn landshlutadeildarinnar sem ákvæði lánveitingar úr sjóðnum til aðila á sínu svæði, þannig að ákvörðunarvaldið yfir endanlegum lánum sé fært frá stjórn Byggðasjóðs til stjórnar landshlutadeildar, hverrar á sínu svæði. Og til að styrkja enn frekar byggðavaldið heima í héruðunum leggjum við til að stjórn landshlutadeildarinnar verði í höndum stjórnar landshlutasamtaka sveitarfélaganna á viðkomandi svæði, þannig að fulltrúar fólksins heima fyrir geti sjálfir ráðið hvernig því fjármagni er varið sem fulltrúar þjóðarheildarinnar hafa ákveðið að setja til byggðaþróunar.

Við erum þeirrar skoðunar að fólkið heima fyrir sé best fært um að meta hvar skórinn kreppir helst að, hvaða vandamál eru brýnust í sínum landshluta og geti þess vegna ráðstafað þessu fjármagni á raunhæfastan hátt. Við gerum ráð fyrir að landshlutadeildirnar geti ráðið sér starfsmann eða starfsmenn, greitt kostnað við störf þeirra af því fé, sem þær fá í sinn hlut, þannig að þær hafi sérfræðilegt bolmagn til þess að geta sinnt úthlutun þessa fjármagns á raunhæfan hátt, a.m.k. ekki síður raunhæfan en nú er gert með því kerfi sem gildandi lög fela í sér. Hins vegar er nauðsynlegt að það komi fram að samhliða þessari breytingu þyrfti að setja sérstök lög um landshlutasamtökin og tryggja lýðræðislega uppbyggingu þeirra og samræmt skipulag þeirra um allt land og tengja þau þannig formlega inn í stjórnkerfi landsins, þannig að þau geti sinnt skipulagslega og lýðræðislega úthlutun þess fjármagns, sem þau fengju hér til ráðstöfunar.

Þótt á síðari árum hafi fengist almenn viðurkenning á því hve mikilvægt er að leita lausna á byggðavandanum, þá hefur skort raunhæft mat á stærðargráðu vandans. Náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum hafa vakið athygli alþjóðar á vanda eins byggðarlags í húsnæðismálum, samgöngumálum, heilbrigðismálum, atvinnumálum og öðrum málaflokkum er snerta daglegt líf fólksins. Sé hins vegar litið á vanda landsbyggðarinnar í þessum málaflokkum er ljóst að eigi landsbyggðin á næstu 10–20 árum að búa íbúum sínum að verulegu leyti sömu aðstöðu og höfuðborgarsvæðið, þá er hér í reynd um margfaldan vanda að ræða á við Vestmannaeyjavandann.

Þetta dæmi ætti að sýna glögglega að til þess að skapa grundvöll fyrir raunhæfum aðgerðum í byggðamálum verður að verja mun meira fjármagni til þess málaflokks en gert hefur verið til þessa. Við leggjum þess vegna til að fjármagns til Byggðasjóðs verði aflað til viðbótar við núverandi ákvæði á þann hátt að sem samsvari 1% af þjóðartekjum verði nú þegar lagt í Byggðasjóð og það framlag hækki í áföngum á næstu 4 árum í 3% af þjóðartekjum. Þessi hlutföll mundu á þessu ári færa Byggðasjóði rúmar 900 millj. kr. sem að 4 árum liðnum mundu á verðlagsgrundvelli síðasta árs og að óbreyttum forsendum þjóðartekna nema tæpum 2 800 millj. kr. Þótt hér sé um að ræða miklar fjárhæðir munu þær í reynd varla reynast nægilegar til þess að leiðrétta á skömmum tíma þann mismun, sem landsbyggðin hefur búið við um árabil. Þær skapa hins vegar grundvöll fyrir raunhæfar aðgerðir og gætu haft í för með sér varanlegar úrbætur á mörgum sviðum. En það eru einmitt varanlegar úrbætur sem við þurfum fyrst og fremst að beina athygli okkar að við lausn byggðavandans.

Í samræmi við flutning valds og fjármagns, sem felst í þessu frv. til l., er nauðsynlegt að fjölga þeim verkefnum, sem hlutverk Byggðasjóðs tekur til. Við leggjum þess vegna til í þessu frv. að auk eflingar atvinnulífsins megi Byggðasjóður styðja framkvæmdir á öllum þeim sviðum sem stjórn landshlutadeildar telur að snerti byggðastöðu landshlutans. Í þessu sambandi er sérstaklega kveðið á um gatnagerð, íbúðarbyggingar, orkuöflun vegna húsahitunar, byggingar heilsugæslustöðva og mennta- og menningarstofnana. Stjórnir landshlutadeildanna mundu veita viðbótarlán til þeirra framkvæmda sem að þeirra dómi væru á hverjum tíma brýnasta hagsmunamál landshlutans. Starfsemi annarra lánastofnana á þessum sviðum yrði áfram óbreytt á sama grundvelli og áður. Í reynd mundi þess vegna hinn deildaskipti Byggðasjóður fyrst og fremst leggja fram eins konar áherslufjármagn, þ.e.a.s. fjármagn til þeirra þátta, viðfangsefna og vandamála sem forsvarsmenn landshlutans teldu sjálfir að mesta áherslu þyrfti að leggja á.

Herra forseti. Í þessu frv. felst veruleg tilfærsla á valdi til samtaka fólksins í hinum dreifðu byggðum, landshlutasamtakanna allt í kringum landið. Við flm. þessa frv. erum þeirrar skoðunar að slíkur flutningur á valdi yfir fjármagninu til fulltrúa fólksins í héruðunum sé mikilvægur áfangi á þeirri leið að skapa varanlegan jöfnuð í byggð landsins, því að hvað mikið sem við aðhöfumst á öðrum sviðum, ef valdið verður áfram fyrst og fremst samanþjappað hér á Reykjavíkursvæðinu, þá getur það aldrei náð varanlegum árangri í tilraunum okkar til að leysa byggðavandann.

Ég legg svo til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.