12.03.1975
Efri deild: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lesa hér fyrst nál. minni hl. iðnn.

„Mál það, er hér liggur fyrir hv. Alþ. í frv.formi, hefur ekki verið búið til flutnings með þeim hætti að sýnt sé að hagsmunir íslenska ríkisins hafi setið í fyrirrúmi við undirbúning þess. Umfjöllun málsins í iðnn. Ed. hefur verið yfirborðsleg og flaustursleg í senn og hvergi nærri verið ætlaður nægur tími til þess að afla hlutlægra upplýsinga um hin þýðingarmestu atriði svo að sannprófa mætti fullyrðingar þessa aðila, sem meginábyrgðina bera á þessu frv., þar sem er viðræðunefnd um orkufrekan iðnað.

Sem dæmi um þessi óhæfu vinnubrögð má nefna það að synjað hefur verið í iðnn. um 5 vikna frest til þess að líffræðistofnun Háskóla Íslands geti gengið úr skugga um mengunarhættu af völdum fyrirhugaðrar verksmiðju, en aðeins með slíkri athugun yrði hv. alþm. gert kleift að mynda sér rökstudda skoðun á því hvort hér sé stefnt í voða lífríki Hvalfjarðar og nærsveita. Tími sá og starfslið, sem Þjóðhagsstofnun hefur verið ætlað til að kanna málið, var með þeim hætti að stofnuninni hefur ekki gefist kostur á því að semja neins konar álitsgerð um áhrif fyrirhugaðrar stóriðju á atvinnuvegi landsins né byggðaform. Aðeins er vikið lauslega að samanburði á hagkvæmni fyrirhugaðrar stóriðju og sjávarútvegs, sem sýnir að vísu stórkostlega yfirburði sjávarútvegsins hvað arðkvæmi snertir. Engin úttekt hefur verið gerð í þessu sambandi á stöðu landbúnaðarins né heldur athugaðir neinir þeir kostir, sem völ kynni að vera á um notkun raforku til áburðarvinnslu, ylræktar eða heykögglaframleiðslu.

Upplýsingar, sem iðnn. hafa verið veittar varðandi hagkvæmni á notkun raforku til húsahitunar í því skyni að leysa olíuna af hólmi, hafa verið byggðar að verulegu leyti á ágiskunum og það komið fram í viðræðum við fulltrúa orkumálastjórnar, Landsvirkjunar og Seðlabankans, að alls engar ráðstafanir hafa verið gerðar til beinnar hönnunar í því máli.

Við athugun á skjölum og í viðræðum við búningsmenn málsins hefur komið í ljós að óhæfilegur trúnaður hefur verið lagður á einhliða upplýsingar viðsemjanda viðræðunefndar, Union Carbide Corporation, um þýðingarmikil efnisatriði, og það svo að í sjálfri grg. með frv. þessu eru borin fram helber ósannindi um atriði sem heill og hamingja þjóðar eru undir komin, svo sem staðhæfingin um skaðleysi þess ryks er berast mun frá fyrirhugaðri verksmiðju, og síðan fylgt eftir með afkáralegum fullyrðingum um trúverðugheit Union Carbide í mengunarmálum, enda þótt fyrir liggi upplýsingar um að auðhringur þessi sé einn af skaðvænlegustu mengunarvöldum í heimi.

Sem dæmi um óhæfilegt sinnuleysi um hagsmuni lands og þjóðar í þessu sambandi má geta þess, að staðfest hefur verið í iðnn. að ætlunin er að löggilda hér bandaríska mengunarstaðla í sambandi við þetta mál. Bandarísku mengunarstaðlarnir miða að því að draga úr iðnaðarmengun í Bandaríkjunum að því marki að lífi fólks, dýra og gróðurs þar í landi verði ekki lengur hætta búin — jafnframt því sem tekið verði tillit til hagsmuna mengunariðnaðarins þar í landi, sem rís að verulegu leyti undir efnahag risaveldisins. Verði þeir mengunarstaðlar lögfestir hér á landi, þá þýðir það í raun að auka mætti iðnaðarmengun á Íslandi upp að því marki sem lífvænlegt þykir í Bandaríkjunum.

Loks er þess að geta að mál þetta er sniðið með þeim hætti í hendur hv. alþm., að ljóst er að hv. Alþ. er ekki ætlað að fjalla um það með þingræðislegum hætti, heldur aðeins að afgr. að forminu til mál, sem sérfræðingaklíkur embættismannakerfisins hafa þegar leyft sér að taka endanlega ákvörðun um.

Af þessum sökum legg ég til að frv. verði fellt. — En til vara, ef vera mætti að unnt reyndist að draga úr hættum þeim sem felast í lagasetningu af þessu tagi, leyfi ég mér að bera fram nokkrar brtt. við frv., og verða þær prentaðar á sérstöku þskj.

Undir þetta nál. skrifar Stefán Jónsson og mun nú freista að rökstyðja í það minnsta nokkur atriði þess, m. a. staðhæfinguna um það að embættismannaklíkur sérfræðinga hafi nokkuð og fullmikið um þetta mál vélað.

Ég vil þá, herra forseti, byrja á því strax í upphafi að leiðrétta missögn sem ég trúi, að hv. þm. Steingrímur Hermannsson, frsm. meiri hl. iðnn. hafi látið sér um munn fara í góðri trú, en hún er eigi að síður jafnósönn. Hann sagði í upphafi máls síns, er hann gerði grein fyrir aðdraganda þessa málmblendimáls, að það kæmi fram í bréfi fyrrv. iðnrh. frá því í maí 1974 að fyrrv. ríkisstj., vinstri stj., væri öll sammála í þessu málmblendimáli (StH: Ekki öll. Að ríkisstj. væri —) — að ríkisstj. væri sammála í þessu málmblendimáli. Þetta er ósatt. Það er jafnósatt (Gripið fram í.) eins og það hefur verið oft sagt og er rétt að bera það til baka rétt einu sinni. Lúðvík Jósepsson, ráðh. í vinstri stjórninni, lét bóka á ríkisstjórnarfundi yfirlýsingu um það að hann væri þessu máli andvígur. Ég veit ekki betur en að sú bókun standi og ég trúi því varla að í bréfi fyrrv. iðnrh., frægu bréfi, standi að ríkisstj., vinstri stj., hafi verið sammála um þetta atriði. Ég vildi þá gjarnan heyra það bréf lesið eða fá að sjá með eigin augum að það stæði þar.

Hvað sem þessari staðhæfingu líður, þá gerði ég býsna ítarlega grein við 1. umr. þessa máls fyrir andstöðu minni við þetta frv. til l. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði í þeirri mynd sem það var lagt fram. Ég tilgreindi nokkrar heimildir til staðfestingar þeim grun mínum að upplýsingar, sem fram koma í grg. með frv., væru sumar hverjar mjög hæpnar, aðrar villandi og enn aðrar beinlínis ósannar. Ég tók það fram þá, að ég ætlaðist ekki til þess að þau gögn, sem ég lagði fram í málinu, yrðu tekin fram yfir upplýsingar þær sem fram komu í fskj. frv., heldur hitt, að ég ætlaðist til þess að gögnin, sem ég lagði fram, fengju eðlilega athugun sérfróðra manna sem til þess væru bærir að kveða upp rökstuddan dóm um gildi þeirra. Ýmsar þær upplýsingar, sem ég vefengdi í framsöguræðu minni þá, snerta grundvallaratriði málsins og eru þess eðlis að heill og hamingja þessarar þjóðar og raunar alls lífs í landinu eru í veði. Það er því óafsakanlegt með öllu að afgr. þetta frv. úr iðnn. Ed. án þess að sanngildi þeirra sé rannsakað á eðlilegan hátt.

Hæstv. iðnrh. lét þau orð falla, er meðferð þessa máls bar á góma utan dagskrár í þessari hv. d. á mánudaginn, að ég virtist hafa talið sjálfum mér trú um að lífríki Hvalfjarðar gæti stafað hætta af þessari fyrirhuguðu verksmiðju. Það var þakkarvert að hæstv. ráðh. skyldi ekki ætla mér það, eins og hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson — sem hér er nú því miður fjarverandi eins og oftar þegar fjallað hefur verið um þetta mál — það er þakkarvert að hæstv. ráðh. skyldi ekki ætla mér það, að ég gerði mér upp þennan ugg. Þó hefði ég verið hæstv. ráðh. enn þá þakklátari ef hann hefði ekki fundið mér kjarkleysi og ímyndunarveiki til málsbóta, heldur beinlínis lagt í það stórvirki að setja til óvilhalla sérfræðinga að kanna þau rök sem ég bar fram í rúmlega 2 klst. framsöguræðu minni um þetta mál á dögunum, og þar með hefði þá hæstv. ráðh. gefist kostur á að sanna það að hvatir mínar í málinu væru sprottnar af einhverju öðru en frómri einfeldni. Sannleikurinn í málinu er náttúrlega sá, að hæstv. iðnrh. brá fæti fyrir það að neins konar rannsókn væri gerð á vegum iðnn. þessarar hv. d. til þess að ganga úr skugga um mengunarhættu og umhverfisvandamál sem þessari fyrirhuguðu verksmiðju yrðu samfara. Þar af leiðandi er enginn nm. og ég raunar ekki heldur — ég er þar ekki undanskilinn — þar af leiðandi er enginn nm. fær að kveða upp úrskurð um það, leggja fram rökstutt álit á því hvort lífríki Hvalfjarðar og nærsveita stafi hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum eða ekki og form. hv. iðnn. ekki heldur.

Aðeins eitt atriði má heita að hafi verið upplýst til hlítar í iðnn. varðandi umhverfismálahlið þessa máls. Ég hygg að enginn hv. nm. treysti sér til að andmæla því — áreiðanlega enginn, fyrst sá hugrakkasti þeirra, form. n., þorir það ekki — að enginn nm. treysti sér til að andmæla því að það megi heita sannað eftir umfjöllun n., að grundvallarstaðhæfingin í sjálfri grg. þessa frv. um skaðleysi ryks frá fyrirhugaðri verksmiðju fyrir dýr og gróður sé ósönn. Ef einhver hv. nm. hefur brjóstheilindi til að halda því fram að þessi staðhæfing í grg. sé sönn, þá ætla ég að hann muni nú vera fjarverandi úr salarkynnum þessarar d. nú og muni einna helst vera úr þeim flokki sem treystir sér til þess að fylgja íhaldinu að málum undantekningarlaust og án íhugunar. En hv. meiri hl. iðnn., sem ég mun trúa þar til ég tek á öðru að ekki muni mæla gegn því að ljóst sé að ósatt sé sagt um mengunarhættuna í grg. þessa frv., sem ég ætla að trúi því að mengun frá verksmiðjunni verði hættuleg dýrum og gróðri í lífríki Hvalfjarðar, kannske ekki ýkjamikið, en hættuleg, — þessi hv. meiri hl. n. kærði sig á hinn bóginn ekki um að láta fara fram hlutlæga rannsókn á því hversu hættuleg þessi mengun yrði. Þessir hv. þm, treysta sér til að mæla með samþykkt frv. beinlínis á grundvelli þeirra ósanninda sem þeir vita að það er reist á. Einhvern tíma hefði þetta verið kallað brjóstheilindi.

Við 1. umr. um frv. beindi ég fyrst og fremst geiri mínum að hv. þm. Steingrími Hermannssyni, þegar ég gagnrýndi óvandaðan undirbúning þessa karbítmáls. Þar hef ég kannske ofgert. En ég er eigi að síður enn þeirrar skoðunar að ábyrgð hans á ýmsum meingöllum frv. sé töluverð. Ég tel einnig að hann hefði getað, ef vilji hefði verið fyrir hendi, stuðlað betur að því en hann gerði að tóm gæfist til þess í iðnn. að láta fara fram sjálfsagða og eðlilega rannsókn á þeim atriðum sem lúta að vistfræði, atvinnuvegum landsins og búsetuháttum. Enn fremur hefði honum vafalítið verið í lófa lagið að stuðla að því að gerður yrði skynsamlegur samanburður á hagkvæmni þess að selja raforku til framleiðslu á járnsíli, — ég hneigist mjög til þess að nota þetta heiti sem hv. form. n. bjó til yfir ferrosillcium á íslensku, mér finnst þetta gott heiti, ég mun a. m. k. nota það annað slagið, — ég tel að honum hefði verið í lófa lagið að stuðla að því að gerður yrði skynsamlegur samanburður á hagkvæmni þess að selja raforku til framleiðslu á járnsíli og raforku til húsahitunar, áburðarframleiðslu og fóðurbætisverksmiðju. En sökin er ekki hans eins. Seinna í þessari ræðu minni mun ég segja ykkur, hv. þm., frá því með hvaða hætti ég ætla að fyrirbæri það, sem ég kallaði áður sérfræðingaklíku embættismannakerfisins, ákvað að gera þennan samning, sem hér um ræðir, við Union Carbide Corporation um málmblendiverksmiðju í Hvalfirði og gekk þannig frá málunum að hið háa Alþ. er ekki ætlað annað hlutverk en að afgr, málið, eins og ónefndir ráðh. hafa orðað það við hlýðna þm. sína.

Í áliti meiri hl. iðnn., þar sem mælt er með samþykkt frv., er tilgreindur fjöldi funda sem n. hélt um málið. Þar eru einnig nafngreindir aðilar sem kvaddir voru á fund n. eða álits var aflað frá og sú ályktun dregin, að því er virðist, af samanlagðri tölu funda einstaklinga og stofnana, að málið hafi fengið ítarlega meðferð í höndum n. Ég staðhæfði aftur á móti að í viðtölum við mjög marga þessara aðila hafi komið fram, að þeir hafi ýmist fengið rangar eða ónógar upplýsingar um málið, þannig að þeir hafi raunar ekki verið færir um að mynda sér skoðun á málinu. Sumir þessara aðila viðurkenndu þetta allt að því berum orðum á fundum iðnn. Þetta álit þeirra liggur fyrir bréflega frá sumum hverjum og mun ég finna því stað hér á eftir í ræðu minni. Undantekningar voru að sjálfsögðu með ritstjóra þessa frv., fulltrúa viðræðunefndar um orkufrekan iðnað, sem virtust efalausir um það að upplýsingarnar, sem þeir höfðu aflað sér, m. a. með viðræðum við Union Carbide, væru réttar.

Svo að við förum nú þegar lauslega yfir nokkur atriði sem fram komu í viðræðum við þá aðila sem n. kvaddi á sinn fund — við getum gert það nánar síðar í umr. — þá vil ég fyrst tilgreina svör orkumálastjóra og starfsmanna Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen við spurningunum um hagkvæmnisamanburð á raforku til húshitunar og raforku til fyrirhugaðrar járnblendiverksmiðju. Í svörum þeirra kom fram að alls engin rannsókn, sem því nafni sé hægt að kalla, hefði verið gerð á verkfræðilegu umfangi þess fyrirtækis að byggja upp dreifikerfi fyrir raforku sem nægja mundi til húshitunar. Upplýsingarnar, sem fyrir lægju af hálfu verkfræðinganna um þetta mál, byggðust að verulegu leyti á ágiskunum, þar eð upplýsingar skorti frá einstökum rafmagnsveitum, en rafmagnsveiturnar hefðu hvorki framtak, mannafla né fé til þess að gera sæmilegar áætlanir varðandi þetta atriði. Það kom í ljós að ekkert hefur verið aðhafst af hálfu hins opinbera í þessa átt. Það hefur sem sagt verið látið við það sitja að undirbúa málmblendimálið kappsamlega, en látið sitja við neikvæðar ágiskanir um það að óhagkvæmara sé peningalega að bæta úr brýnni þörf landsmanna fyrir ódýra orku til húshitunar á þeim svæðum þar sem ekki næst í heitt vatn úr jörðu.

Form. Náttúruverndarráðs kom, svo sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson greindi frá, á fund iðnn. við þriðja mann. Hann var inntur eftir því hvernig túlka bæri bréfið sem Náttúruverndarráð skrifaði á miðju sumri í sumar sem svar við bréfi frá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, þar sem óskað var álits ráðsins á staðsetningu málmblendiverksmiðju í Hvalfirði. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur tekið af mér það ómak að lesa þessi bréf, en ég vil vekja athygli á því að leitað var álits Náttúruverndarráðs um staðsetningu málmblendiverksmiðju í Hvalfirði og Náttúruverndarráð svaraði, lét í ljós álit sitt á staðsetningu slíkrar verksmiðju í Hvalfirði. Á tilnefndum fundi sagði form. Náttúruverndarráðs, Eysteinn Jónsson, að túlka bæri bréfið eins og það hljóðaði, er hann var eftir því inntur, eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson tók fram. En hann sleppti framhaldinu af þeim viðræðum, því að þegar athygli form. Náttúruverndarráðs var vakin á því að þetta bréf hefði verið túlkað af hálfu erindreka viðræðunefndar á þá lund að Náttúruverndarráð væri með þessu að lýsa yfir samþykki sínu eða a. m. k. hlutleysi við málmblendiverksmiðju í Hvalfirði, þá sagði form. Náttúruverndarráðs, að hann gæti aðeins tekið sér í munn orð Guðmundar Grindvíkings, sem kallaði álíka meðferð á bréfi óvandaða útleggingu. Ég vil vekja athygli á því að hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði við umr. utan dagskrár á mánudaginn var, að hann hefði leyft sér að skilja þetta bréf Náttúruverndarráðs svo, að ráðið teldi ekki neina þörf á líffræðilegum athugunum eða vistfræðilegum rannsóknum til undirbúnings þessa máls. En það ætla ég að form. Náttúruverndarráðs muni nú einnig kalla dálítið óvandaða útleggingu.

Í viðræðum við form. Náttúruverndarráðs kom fram, að ráðið hafði ekki fengið í hendur gögn sem talin væru fullnægjandi af þess hálfu til þess að skila iðnn. áliti, sem mark væri á takandi, um skaðleysi eða skaðsemi verksmiðjunnar, og var til þess vitnað að samkv. lögum um Náttúruverndarráð kæmi ekki til kasta þess fyrr en sótt hefði verið um byggingarleyfi og rekstrareyfi fyrir verksmiðjuna. Það skal þó tekið fram að einn náttúruverndarráðsmanna á fundinum, dr. Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur — sá sem vitnað er til í bréfinu frá 4. júlí um að rætt hefði við fulltrúa Union Carbide um mengunarmálin, þótt hann gerði það þá ekki í umboði Náttúruverndarráðs, heldur í þágu viðræðunefndar — hann var að því spurður hvort hann teldi að það mundi satt sem í grg. frv. þessa stendur, að mengun frá fyrirhugaðri verksmiðju yrði hættulaus dýrum og gróðri. Það kvaðst dr. Vilhjálmur Lúðvíksson ekki treysta sér til að segja.

Loks vil ég vitna í bréf sem Náttúruverndarráð ritaði iðnrn. 27. jan. s. l., rétt í þann mund sem iðnn. var að koma saman til að fjalla um þetta mál og aðeins fáum dögum áður en form. ráðsins kom á fund n. með sitt fríða föruneyti. Af því bréfi má ráða hvort Náttúruverndarráð hefur talið sig þess umkomið að kveða á um sakleysi og skaðleysi verksmiðjunnar fyrir lífríki Hvalfjarðar. Þetta bréf fæ ég að lesa, því að hv. þm. Steingrímur Hermannsson sleppti því áðan. Bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, bréfið er stílað til iðnrn.:

„Efni : Hönnun málmblendiverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði.

Náttúruverndarráð hefur á fundi sínum 23. jan. 1975 samþ. að beina því til hv. rn. að þess verði gætt að ráðið fái aðstöðu til þess að fylgjast með hönnun nefndrar verksmiðju, sbr. 29. gr. náttúruverndarlaga, nr. 47/1971. Áður hefur ráðið í bréfi, dags. 4. júlí 1973, tjáð sig um staðsetningu verksmiðjunnar á þessum stað, en leggur áherslu á að fá að fylgjast með undirbúningi verksins áður en til bindandi ákvarðana kemur. Ráðið leggur sérstaka áherslu á að fá upplýsingar um hvers konar úrgangsefni sem haft geti áhrif á lífríki svæðisins. Óskar ráðið eftir því að þessar upplýsingar verði sendar því sem fyrst. Þá telur Náttúruverndarráð nauðsynlegt að sá aðili, sem annast undirbúning væntanlegs iðjuvers, afli sér í tæka tíð lögbundins rekstrarleyfis áður en til bindandi ákvarðana kemur um staðsetningu og rekstur, sbr. 4. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna, nr. 164/1972.

Með vinsemd og virðingu.“

Og undir þetta bréf skrifa: Eysteinn Jónsson form. og Árni Reynisson, framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs.

Þá er þar næst til að taka að fyrir n. kom prófessor Agnar Ingólfsson, vistfræðingur, forstöðumaður líffræðistofnunar Háskóla Íslands.

Herra forseti. Ég vildi gjarnan, vegna þess að ég beini nú geiri mínum að hv. þm. Steingrími Hermannssyni (Gripið fram í: Hann situr hér.) Nú, hann situr að baki mér. Gjarnan er það svo að maður veit ekki hvern hann á sér að bakhjarli.

Þá er sem sagt næst til að taka sem fyrir n. kom próf. Agnar Ingólfsson, vistfræðingur, forstöðumaður líffræðistofnunar Háskóla Íslands. Ég hafði þegar á fyrstu fundum iðnn. óskað eindregið eftir því að leitað yrði álits líffræðistofnunar Háskólans á því, hvort ekki mundi unnt að fá gerða vistfræðilega úttekt á málinu og í það minnsta að fá álit prófessorsins á því, hvort ekki mundi hægt á tiltölulega skömmum tíma að fá skýrslur stofnunarinnar varðandi prentaðar heimildir sem fyrir lægju um málið, sem e. t. v. mætti fá styrkt að einhverju leyti með því að sérfræðingar á vegum líffræðistofnunar öfluðu sér frekari vitneskju um málið með skjótum hætti. Af hálfu form. iðnn. þessarar hv. d. var móast við þessari beiðni minni fund eftir fund og því borið við, eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson gerði í framsöguræðu sinni áðan — því borið við að skv. bestu vitund form. væru líffræðingar alls ekki bærir að fjalla um málið. Þeir hefðu ekki neitt til að standa á við slíkar athuganir. Upplýsingum mínum um að þess háttar rannsóknir væru gerðar erlendis á undirbúningsstigi við fyrirtæki á borð við málmblendiverksmiðjuna var aðeins svarað með auknum efasemdum um slíkt, enda þótt ég tilgreindi fyrirtæki í Bretlandi sem slíkar rannsóknir annast, svonefndar Environmental Impact Studies, og vitnaði til rannsókna sem gerðar eru af hálfu norskra háskóla og nefnast þar Projekt analyser. Hafðist þó loks í gegn með bænum og hótunum, liggur mér við að segja, og vingjarnlegu atfylgi hv. þm. Alberts Guðmundssonar og Þorvalds Garðars Kristjánssonar, hæstv. forseta þessarar d., og jákvæðu hlutleysi hv. þm. Jóns G. Sólness, sem hann lét í té með godföðurlegum elegans, að próf. Agnar Ingólfsson var kvaddur til viðtals á næstsíðasta fundi n., á föstudag s. l., hér um bil fjórum vikum eftir að iðnn. byrjaði að fjalla um þetta mál. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að fá umsögn líffræðings og þá sjálfs Agnars Ingólfssonar prófessors og vistfræðings við líffræðistofnun Háskóla Íslands um það, hvort líffræðingar gætu nú þrátt fyrir allt rannsakað og skilað fyrir fram skýrslu um sennileg áhrif fyrirhugaðrar verksmiðju á lífríki Hvalfjarðar og nærsveita. Svar prófessorsins var afdráttarlaust já, þeir gætu það.

Hann kvað þá líffræðinga vera þeirrar skoðunar að gera ætti rannsókn vegna hinnar fyrirhuguðu verksmiðju í þremur áföngum, í líkingu við það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson lýsti fyrir okkur áðan. Þyrfti að framkvæma hina tvo fyrri áfangana áður en ákvörðun væri tekin um gerð verksmiðjunnar, beinlínis vegna þess að ótækt væri að heimila smíði slíkrar verksmiðju fyrr en fyrir lægju niðurstöður af þeim áföngum. Þriðja rannsóknarstigið ætti svo að koma til framkvæmda eftir að fallist hefði verið á smíði verksmiðjunnar og þá í því skyni að fylgjast með þeim áhrifum sem verksmiðjureksturinn kynni að hafa á lífríkið. Og rannsóknunum lýsti prófessorinn þannig:

Fyrsta rannsóknarstigið yrði í höndum líffræðings, landbúnaðarfræðings, veðurfræðings, efnafræðings og sjófræðings. Þeirra hlutverk yrði að kanna prentaðar heimildir varðandi verksmiðju sem þessa og ræða við sérfræðinga, innlenda sem erlenda, og semja síðan skýrslu miðaða við íslenskar aðstæður, staðhætti og kröfur um mengunarvarnir.

Prófessorinn sagði að vel gæti svo farið að niðurstaða fyrsta stigs rannsóknarinnar yrði sú að ekki yrði þörf á frekari rannsóknum og þar af leiðandi ekki á rannsókn annars stigs.

Prófessor Agnar Ingólfsson sagði að það mundi taka tvo menn tvo mánuði að ljúka fyrsta stigs könnuninni. Fjórir menn, er til þess væru ráðnir, ættu að geta lokið könnuninni á 4 vikum eða e. t. v. skemmri tíma og skilað skýrslu innan viku þaðan í frá, sem sagt eftir 5 vikur. Ef niðurstaða þessarar könnunar yrði hins vegar sú að þörf væri frekari rannsóknar eða á annars stigs rannsókn, þá fælist hún í nánari könnun á þeim stað þar sem til greina kæmi að reisa verksmiðjuna, greiningu veðurfars, strauma, blöndun sjávar og kortlagningu á lífríki til að hægt væri að leggja mat á málið í heild. Þá væri komið að ákvörðuninni um það hvort leyfa ætti verksmiðjuna eða ekki. — Prófessorinn sagðist telja að annars stigs athugunin mundi alls ekki taka lengri tíma, ef til kæmi, en 4 mánuði.

Það skal tekið fram að prófessorinn sagðist telja ólíklegt að hægt væri að fá til starfa að þessu verkefni nú tafarlaust fjóra íslenska sérfræðinga, en hann taldi ekki ósennilegt að hægt væri að fá þá frá Norðurlöndum.

Fundur iðnn. með Agnari Ingólfssyni var haldinn s. l. föstudag. Ég spurði hvort hann teldi, ef þess væri óskað nú á mánudaginn, þ. e. a. s. í fyrradag, að líffræðistofnunin tæki málið að sér, að hún gæti þá skilað skýrslu um fyrsta stigs rannsóknina hinn 15. apríl, og hann svaraði hiklaust játandi. Hann svaraði hiklaust játandi að það ætti að vera unnt. Og nú er mér með öllu óskiljanlegt, herra forseti, hvaðan hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur fengið þá vitneskju, þá fullu vissu að ekki sé hægt að útvega menn til þess að annast þessar rannsóknir fyrir okkur, eins mikið og er í húfi.

Eins og ég hef áður greint frá í þessari hv. þd., var beiðni minni um að líffræðistofnuninni væri falið þetta verk í þágu iðnn. synjað á þeim forsendum að ekki væri tími til þess. Auk þess bætti form. við því áliti sínu að hann teldi gersamlega ástæðulaust að framkvæma slíka rannsókn — eins og hann lýsti raunar yfir í framsögu með nál. áðan, að hann teldi gersamlega ástæðulaust að framkvæma slíka rannsókn þar eð hann væri persónulega sannfærður um að ekki stafaði nein hætta af verksmiðjunni sem orð væri á gerandi. Persónuleg sannfæring hv. þm. Steingríms Hermannssonar er góðra gjalda verð. Hún mun reynast honum styrkur í lífsbaráttunni. En þegar til þess kemur að taka ákvörðun um það hvort lífríki Hvalfjarðar og nágrennis sé stefnt í voða, þá mun þessi persónulega sannfæring, þegar til kastanna kemur, stoða landsmenn ákaflega lítið.

Það skal tekið fram að form. taldi að þessi 5 vikna töf, meðan iðnn. hinkraði við eftir niðurstöðunni af athugun líffræðistofnunar, mundi leiða til þess að málið yrði e. t. v. ekki afgreitt á þessu þingi. Hann gat þess þá góðlátlega, mjög góðlátlega eins og honum er raunar eiginlegt þegar hann skýtur smánótu að vinum sínum, að hann héldi að hér væri um að ræða bellibragð af minni hálfu til að tefja málið. Ég ætla mér ekki að endurgjalda honum athugasemdina með því að geta mér þess til — ekki einu sinni góðlátlega — að hann hafi ekki fallist á rannsóknina vegna þess að hann hafi óttast að niðurstaða hennar kynni að leiða í ljós að hér væri um hættulegar framkvæmdir að ræða og þær mundu þar af leiðandi koma í veg fyrir að þessi verksmiðja yrði nokkurn tíma reist. Ég ítreka það — ég vil að menn minnist þess að ég ítreka það — að ég ætla ekki hv. þm. Steingrími Hermannssyni þess háttar hvatir. Ég nenni ekki að óska þess í staðinn að hann stilli sig um að ætla mér annarlegar hvatir í sambandi við óskir mínar um hlutlæga rannsókn, sem mundi taka 5 vikur, til þess að iðnn. geti reist nál. sitt á rökum varðandi mengunarhættuna.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að hefði verið fallist á beiðni mína strax í upphafi þegar iðnn. tók að fjalla um þetta mál, þá beiðni mína að til yrði kvödd líffræðistofnun Háskóla Íslands strax í upphafi, þá hefði skýrsla líffræðistofnunar tæknilega getað legið fyrir þessari hv. d. þegar í næstu viku.

Þá er að geta fundar iðnn. með Baldri Johnsen yfirlækni, forstöðumanni Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Ég hlýt að taka tillit til þess í ræðustól hér í deildinni að Baldur Johnsen er hér ekki nærstaddur né heldur hefur hann aðstöðu til þess að svara fyrir sig hér. Þess vil ég þó geta að hann er einn þeirra aðila sem ábyrgð bera á yfirlýsingunni í grg. frv. um skaðleysi mengunar frá verksmiðjunni fyrir dýr og gróður. Í viðtali iðnn. við forstöðumanninn kom fram, sem raunar var vitað áður, að Heilbrigðiseftirlitið mun lögum skv. taka til meðferðar umsókn um rekstrarleyfi fyrirhugaðrar verksmiðju þegar hún liggur fyrir, sem vitaskuld verður ekki fyrr en fyrirtækið hefur verið stofnað að samþykktu frv. því er hér liggur fyrir. Það kom einnig fram að Heilbrigðiseftirlitið mun miða við ameríska mengunarstaðla þegar það tekur afstöðu til hins fyrirhugaða rekstrar. Forstöðumaðurinn las fyrir okkur bréf, sem send hafa verið frá Heilbrigðiseftirlitinu til undirbúnings þessum fundi, m. a. bréf til eiturefnanefndar sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson vitnaði í og ég vil nú lesa hér, með leyfi hæstv. forseta. Þetta er stutt bréf. Það kemur lengra bréf á eftir:

„Heilbrigðiseftirlit ríkisins biður um umsögn um málmblendiverksmiðjuna með hliðsjón af þeim gögnum sem hér fylgja með í ljósriti, og er æskilegt að umsögnin berist annað hvort til þessarar stofnunar hið fyrsta eða til iðnn. Alþ. fyrir n. k. fimmtudag, 27. 2.“

Baldur Johnsen las þetta bréf fyrir okkur í iðnn. ásamt öðrum gögnum sem hann sendi eiturefnanefnd. Síðan hélt hann á lofti svarbréfi dr. Þorkels Jóhannessonar form. eiturefnanefndar, en las það ekki, heldur sagði frá því á svipaðan hátt og hv. þm. Steingrímur Hermannsson og kvað þó öllu fastar að orði, því þar sagði hann að gæti að finna álit dr. Þorkels Jóhannessonar á plöntum þeim sem hann hafði sent honum varðandi málmblendiverksmiðjuna, að vísu væri ekki fjallað um ýmis atriði í þessu bréfi eiturefnanefndar, en þar gæti að finna samþykkt prófessors Þorkels á álíti hans sjálfs á kadmíum. En sem sagt, Baldur Johnsen las ekki bréfið fyrir okkur. Ég varð mér aftur á móti úti um ljósrit af þessu bréfi og neðst í bréfinu segir frá því að afrit af því hafi verið sent til form. iðnn. Alþ.

Ég ætla nú að lesa þetta bréf frá form. eiturefnanefndar, dr. Þorkeli Jóhannessyni, til Baldurs Johnsens, svo að þm. geti sjálfir heyrt með hvaða hætti form. eiturefnanefndar staðfestir þá skoðun forstöðumanns Heilbrigðiseftirlitsins að fyrirhuguð verksmiðja í Hvalfirði sé skaðlaus. Bréfið er svona frá eiturefnanefnd — svarbréfið — með leyfi hæstv. forseta:

„Eiturefnanefnd hefur í dag borist eftirfarandi bréf og grg. frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins:

1. Ljósrit af grg. um hugsanlega mengun og mengunarvarnir vegna fyrirhugaðrar járnblendiverksmiðju í Hvalfirði ásamt tveimur fylgiskjölum sem undirrituð eru af Baldri Johnsen yfirlækni og Eyjólfi Sæmundssyni verkfræðingi og heilbrigðisráðunaut, en ódagsett að því er best verður séð.

2. Ljósrit af umr. um málmblendiverksmiðju, kadmíum o. fl., sem undirritað er af Baldri Johnsen yfirlæknir og dags. 13. 2. 1975.

3. Ljósrit af bréfi Baldurs Johnsen yfirlæknis, sem dags. er 18. 2. 1975, til heilbr.- og trmrh.

4. Bréf til eiturefnanefndar, sem dags. er 19. 2. 1975 og er undirritað af Baldri Johnsen yfirlækni, þar sem farið er fram á umsögn um fyrrnefnd gögn eigi síðar en fimmtudaginn 27. 2. 1975 og skuli umsögnin send Heilbrigðiseftirliti ríkisins eða iðnn. Alþingis.

Af þessu tilefni óskar eiturefnanefnd að taka fram eftirfarandi:

a) Eiturefnanefnd er þess vanbúin að gefa umsögn um 1. málsskjal að framan, þar eð n. hefur ekki fengið upplýsingarnar sem nauðsynlegar eru til að slík umsögn verði einhvers virði, sbr. ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 164 1972.

b) Eiturefnanefnd er í stórum dráttum sammála því sem segir um kadmíum í 2. málskjali að framan.

c) Eiturefnanefnd telur óviðeigandi að gefa umsögn um 3. málskjal að framan, þar eð bréfið er þegar sent heilbr.- og trmrh.

d) Frestur sá, sem gefinn er skv. 4. málskjali að framan, er óhæfilega skammur. Hefur eiturefnanefnd áður tekið eftir því að Heilbrigðiseftirlit ríkisins ætlar n. mjög skamman tíma til að meta viðamikið mál. Fer n. þess á leit að Heilbrigðiseftirlitið taki tillit til þess að vikutími er mjög skammur tími til athugunar á málum þar sem allrar gerhygli er þörf.“

Þetta er plaggið sem notað hefur verið, ekki til sönnunar um það, heldur til að gefa það í skyn að eiturefnanefnd hafi lýst yfir samþykki við álit Heilbrigðiseftirlits ríkisins varðandi verksmiðjuna í Hvalfirði. Nákvæmlega með þessum hætti hefur álít Heilbrigðiseftirlits ríkisins verið grundað og fleiri þau skjöl sem hér hafa verið lögð fram og nefnd til sönnunar um það að vel og vandlega hafi verið unnið að könnun þessa máls. Það hafa verið nefnd nöfn manna og það hafa verið nefnd skjöl, en það hefur verið farið mjög óvandlega og óeðlilega með niðurstöðurnar af því sem menn sögðu um þetta mál og niðurstöðurnar af því sem menn skrifuðu um þetta mál.

Þá ber einnig að geta þess að Baldur Johnsen yfirmaður Heilbrigðiseftirlitsins lét okkur í té ljósrit — sýndi okkur öllu heldur ljósrit af vindrós sem Veðurstofan hafði látið gera skv. mælingum í Hjarðarnesi í Kjós af vindátt í Hvalfirði. Kvað forstöðumaðurinn kort þetta sýna að vindar blésu aðeins eftir legu fjarðarins út og inn og gilti það einnig um Grundartanga þar sem verksmiðjan ætti að rísa. Ég hef spurt Flosa Sigurðsson veðurfræðing, þann sem vindrósina teiknaði, hvort treysta mætti nú því að vindmælingar gerðar í Hjarðarnesi gæfu rétta mynd af vindátt á Grundartanga. Hann sagði að ýmislegt benti til þess að ekki væri hægt að treysta því, þar eð landslag væri þar annars konar. Hann sagði að teiknaðar hefðu verið fleiri vindrósir en þessi eina, þ. á m. vindrós sem sýndi það að landnyrðingurinn á Hvalfirði stæði suður yfir Seltjarnarnes eða það sem hann kynni að bera með sér ofan úr Hvalfirði.

Allra síðast vil ég svo geta þess að fyrir iðnn. d, var lagt plagg frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins undirritað af Baldri Johnsen forstöðumanni, þar sem segir að Heilbrigðiseftirlitið mæli ekki gegn því að reist verði málmblendiverksmiðja við Hvalfjörð. Það skal tekið fram, að í því plaggi kemur ekki fram rökstuðningur fyrir skaðleysi verksmiðjunnar.

Í öllum þeim umr., sem fram hafa farið í þessari hv. d. og í iðnn. þessarar d., kemur fram að treyst er fortakslaust á upplýsingar viðræðunefndar um grandvarleika Union Carbide Corporation í mengunarmálum. Þær upplýsingar eru að vísu ekki að öllu leyti, það er satt, ekki að öllu leyti, en að verulegu leyti fengnar frá Union Carbide sjálfum, sbr. næsthlálegustu setninguna af ýmsum hlálegum í þeim kafla grg. með frv. sem um umhverfismálin fjallar og ég er nú sannast sagna að verða þreyttur á að hafa upp, vegna þess að í minni vitund hefur þessi setning aldrei verið neitt fyndin. Ég hef tekið út vissa kvöl af því að þurfa að hafa hana upp, lesa hana upp úr grg. með lagafrv. sem lagt er fyrir hv. Alþ. Ég vona að ég geri það núna í síðasta sinn. Það er setningin hérna: „Frá upphafi viðræðnanna hefur verið lögð rík áhersla á að mengun frá verksmiðjunni yrði í algeru lágmarki og hefur því ætíð verið heitið“ segir í frv. — „og er ljóst að hugur fylgir máli.“

Ég hef hér undir höndum vitnisburð þriggja aðila, sem ég ætla að hv. alþm. hljóti að taka trúanlega eða a. m. k. get ég ekki algerlega vísað á bug, um heiðarleika Union Carbide Corporation og um trúverðugheit þeirra upplýsinga, sem hann gefur sjálfur um dáðir sínar til verndunar umhverfis, og leyfi mér að lesa úr þeim plöggum, með leyfi hæstv. forseta. Fyrst er þar til að taka að bandaríska tímaritið Business Week, sem þykir fremur áreiðanlegt tímarit í amerískum kaupsýsluheimi, birtir í marsmánuði 1971 — tveimur mánuðum áður en formlegar viðræður voru teknar upp við Union Garbide af hálfu íslendinga um það kompaní sem nú á að stofna — birti ritstjórnargrein undir fyrirsögninni „Union Carbide, the whole truth.“ Í þessari grein segir frá kæru sem þá var nýkomin fram á hendur Union Carbide fyrir falsaðar upplýsingar varðandi iðnaðarmengun af völdum fyrirtækisins. Kæran er borin fram af fjórum hluthöfum í Union Carbide og er stíluð til The Securities and Exehange Commission, en nefnd þessi hefur verið starfandi vestan hafs síðan 1934 og er hlutverk hennar að rannsaka upplýsingar, sem einstök fyrirtæki gefa um rekstur sinn, í því skyni að ganga úr skugga um það að hluthafar fái réttar upplýsingar. Fyrrgreindir hluthafar í Union Carbide, Roger Foster, lögmaður í Washington, Larry Silverman, William Osborne og Ralph Nader, sem er allkunnur lögmaður vestan hafs, óska þess að n. taki til rannsóknar bækling sem Union Carbide hafði þá nýlega sent hluthöfum með upplýsingum um framúrskarandi mikla varúð, tillitssemi og samviskusemi af hálfu fyrirtækisins í umhverfismálum. Ákærendurnir, hluthafar í Union Carbide sem fyrr eru greindir, halda því fram að í þessum bæklingi, sem Union Carbide gaf út, séu ósannar fullyrðingar og sneitt sé hjá þýðingarmiklum upplýsingum varðandi mengun af völdum fyrirtækisins. Andstætt við þá rósrauðu mynd sem bæklingurinn gefur af ástandinu, segja hluthafarnir fjórir, þá er Union Carbide eitt af verstu mengunarfyrirtækjum Bandaríkjanna og hefur verið ósamvinnuþýtt og þráast við tilraunum opinberra aðila til að draga úr mengun.

Ég mun með glöðu geði sjá þeim hv. þm., sem það vilja, fyrir ljósriti af þessari grein. Það er athyglisvert að Union Carbide hefur viðhaft þann þrifnað, sem hér var lýst, heima hjá sér í Bandaríkjunum og það siðgæði í framkomu við þá aðila sem eiga að sjá um að dregið sé úr mengun, og lýsingin á við ástandið einmitt á þeim mánuðum þegar samningar eru að hefjast við Union Carbide af okkar hálfu. Svo er okkur ætlað að trúa því að á þessum missirum sem liðin eru síðan hafi Union Carbide orðið allra auðhringa hreinlátastur og umhyggjusamastur um umhverfismál og sannsöglastur í þokkabót.

Ég er hérna með part úr grein úr öðru tímariti, Environment Ecology, sem birtist í ágúst í sumar. Fyrirsögn greinarinnar er: Corporation Non-grata — og þar getur m. a. að lesa þessa lýsingu á starfsháttum fyrirhugaðs félaga okkar:

„Union Carbide virðist vera að leika gamla blekkingaleikinn til hins ítrasta í nýju herferðinni gegn mengun. Þessi herferð er skipulögð eftir reglunni um lágmarksaðgerðir og hámarksauglýsingagildi. Fyrirtækið hefur, að því er virðist snúið sér að nokkrum einstökum viðfangsefnum í áróðursskyni og auglýsir árangurinn þar sem dæmi um hina nýju stefnu sína og reynir þannig að slá tvær flugur í einu höggi, hafa áhrif á almenningsálitið og friðþægja yfirvöld umhverfismála, samtímis því sem fyrirtækið eykur mengunarstarfsemi sína annars staðar til þess að hafa upp í kostnaðinn. Vera má að þessi herferð Union Carbide hafi einhver áhrif á yfirvöld umhverfismála, en hún hefur sannarlega ekki hitt í mark hjá þeim, sem gerst fylgjast með málum á þessu sviði, og alls ekki hjá almenningi.“

Þá lá það næst fyrir að athuga hvers konar hreinlætisorð Union Carbide hefði á sér erlendis og varð þá fyrir valinu eyjan Puerto Rico. Það var upplagt að athuga hvernig Union Carbide hagaði sér í eylöndum. Ég hef hérna í hendinni bréf frá Mision Industrial de Puerto Rieo, eða iðnaðarráði Puerto Rico í Rio Piedras. Það er skrifað 29. jan. 1975, fyrir nokkrum vikum, undirritað af Andre Trevathan. Einnig mun ég með glöðu geði láta hv. þm. í té ljósrit af þessu bréfi. Í bréfinu segir að Union Carbide hafi ekki neinar járnblendiverksmiðjur á Puerto Rico. Hins vegar hafi fyrirtækið þar olíuefnaverksmiðju. Síðan segir orðrétt:

„Olíuverksmiðjan í Guayanilla er ein af aðaluppsprettum mengunar á eynni. Union Carbide er tregur til að taka upp mengunarvarnir í framleiðslunni af efnahagsástæðum, enda þótt fyrirtækið eyði verulegu fjármagni í auglýsingar í dagblöðum, þar sem það lýsir sér sem umhyggjusömu fyrirtæki fyrir hreinu lofti, landi og vatni á Puerto Rico.“

Þetta er skrifað 29. jan. s. l., og eins og ég segi, ljósrit af þessu bréfi frá iðnaðarráði Puerto Rico er auðvitað velkomið þeim sem sjá vilja.

Þennan sérstaka lestur um sinnaskipti Union Carbide í mengunarmálum byrjaði ég með að lesa kærubréf frá hluthöfum í fyrirtækinu til eftirlitsnefndar bandarískra kaupsýslumanna þar sem í ljós kom að fyrirtækið hefur stundað það að gefa hluthöfum sínum mjög villandi upplýsingar varðandi mengunarmálin. Union Carbide lýsir sér sem sagt sem ákaflega umhyggjusömu fyrirtæki á þessu sviði, enda þótt vitað sé að það sé meginmengunarvaldur jafnt innan Bandaríkjanna sem utan. Því miður hef ég ástæðu til að ætla að Union Carbide hafi ekki aðeins stundað það að villa um fyrir hluthöfum sínum í þessu efni eða kynblendingum á Puerto Rico, heldur hafi Union Carbide auk þess unnið sér það létt að villa um fyrir ónefndum sveitamönnum norðan af Íslandi. — Skyldi mér fyrirgefast það þótt ég staðhæfi, að hvorki hv. alþm. í Ed. yfirleitt né fulltrúar í iðnn. d. hafi heimild til þess án rannsóknar að treysta einu orði Union Carbide um grandvarleika þess fyrirtækis í sambandi við umhverfisvernd.

Þá er enn að geta þess að ég hafði óskað eftir því í iðnn. að stjórnarformaður Búnaðarsambands Borgarfjarðar yrði kvaddur fyrir iðnn. sökum þess að Búnaðarsambandið hafði gert einróma samþykkt, þar sem því var beint til Búnaðarþings, þess sem nú hefur nýlokið störfum, að kostað yrði kapps um það að allrar varúðar yrði gætt og aflað hlutlægra upplýsinga með rannsókn óháðra aðila á hugsanlegri umhverfismengun af völdum þessarar fyrirhuguðu verksmiðju í tæka tíð áður en til framkvæmda kæmi. Form. Búnaðarsambandsins var ekki kvaddur til fundar við n., og það er best að ég játi það strax, sem satt er, að ég hygg að form. n., hv. þm. Steingrímur Hermannsson, hafi sagt okkur það satt að honum tókst ekki að hafa upp á því hver maðurinn væri og aðrir nm. einhverra hluta vegna létu honum ekki nafnið í té. Ég geri þá játningu að mér er ekki enn þá ljóst hver sá maður var, en nú er það um seinan. En ég hef hér í hendi mér samþykkt sem Búnaðarþing gerði svo á grundvelli þessarar samþykktar frá Búnaðarsambandi Borgarfjarðar. Búnaðarþing gerði þessa samþykkt síðasta þingdag sinn í fyrradag og les ég hana nú, með leyfi hæstv. forseta. Ég hef svo lítið þurft á því að halda, herra forseti, að nota hástigs lýsingarorð hrósyrða við umr. um þessa málmblendiverksmiðju, en ég ætla að lesa sem sagt með leyfi hæstv. forseta ályktunina frá Búnaðarþingi:

„Búnaðarþing beinir því til Heilbrigðiseftirlits ríkisins, að áður en til þess komi að það veiti starfsleyfi fyrirhugaðri málmblendiverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði hafi það aflað sér allra fáanlegra upplýsinga um hugsanleg mengunaráhrif frá slíkri verksmiðju, bæði á landi, í lofti og í sjó. Telur þingið sjálfsagt að stuðst sé í þessu efni við reynslu annarra, þ. á m. Norðurlandabúa, sem reka sams konar verksmiðjur og hér um ræðir. Í því skyni verði íslenskir sérfræðingar á sviði líffræði og verkfræði nú þegar sendir utan til þess að kynna sér af eigin raun allt það er lýtur að umhverfisáhrifum slíkrar starfsemi.

Þá tekur þingið undir þá eindregnu ósk Náttúruverndarráðs, Búnaðarsambands Borgarfjarðar og fleiri aðila til iðnrn., að gerð verði ítarleg líffræðileg könnun í Hvalfirði og umhverfi fyrirhugaðs verksmiðjustaðar áður en nokkrar framkvæmdir hefjast þar. Á grundvelli þeirrar könnunar verði leitast við að sjá fyrir hugsanleg áhrif verksmiðjurekstrarins á lífríki láðs og lagar, enda er nauðsynlegt að fyrir liggi líffræðileg úttekt á svæðinu til samanburðar við síðari athuganir. Verði niðurstaðan af áðurnefndum athugunum sú að hætta af mengunaráhrifum málmblendiverksmiðjunnar sé engin fyrir heilsu manna né fyrir gróður eða dýralíf umhverfisins og Heilbrigðiseftirlit ríkisins veiti þess vegna starfsleyfi til þvílíks rekstrar og hann verði hafinn, þá gerir Búnaðarþing eindregna og ákveðna kröfu um að rækt verði stöðugt og fullkomið eftirlit með heilsufari starfsfólks og hugsanlegum breytingum á lífríki í nágrenni verksmiðjunnar.

Búnaðarþing leggur áherslu á að stofnun og rekstur stóriðjufyrirtækja eigi að vera einn þáttur í framkvæmd yfirlýstrar stefnu allra stjórnmálaflokka, þeirri að efla byggðajafnvægi í landinu. Því telur þingið að sé þess kostur beri að velja slíkum verksmiðjum stað þar sem byggð stendur höllum fæti og atvinna er ótrygg. Þá minnir þingið á ályktun sína um nauðsyn þess að kanna hagkvæmni aukinnar áburðarframleiðslu í landinu, áður en teknar verði frekari ákvarðanir um ráðstöfun raforku til stóriðju. Einnig verði gert stórátak til að nýta raforku til húsahitunar.“

Þessi ályktun var samþ. shlj. á Búnaðarþingi. Ég vil lesa aftur 3. mgr. þessarar ályktunar:

„Þá tekur þingið undir þá eindregnu ósk Náttúruverndarráðs, Búnaðarsambands Borgarfjarðar og fleiri aðila til iðnrn., að gerð verði ítarleg líffræðileg könnun í Hvalfirði og umhverfi fyrirhugaðs verksmiðjustaðar áður en nokkrar framkvæmdir hefjast þar. Á grundvelli þeirrar könnunar verði leitast við að sjá fyrir hugsanleg áhrif verksmiðjurekstrar á lífríki láðs og lagar, enda er nauðsynlegt að fyrir liggi líffræðileg úttekt á svæðinu til samanburðar við síðari athuganir.“

Eins og segir í prentuðu nál. minni hl. iðnn., þá mun ég til vara, auk þess sem ég legg til að frv. þetta verði fellt, flytja nokkrar brtt. við frv. Allar þær brtt. mun ég flytja við 3. umr. um málið nema eina: Það er till. á þskj. 370, sem er tekin orðrétt upp úr ályktun Búnaðarþings um þetta mál og á að bætast aftan við 11. gr., þar komi:

„Á vegum Náttúruverndarráðs og líffræðistofnunar Háskóla Íslands verði gerð ítarleg líffræðileg könnun á Hvalfirði og umhverfi fyrirhugaðs verksmiðjustaðar áður en nokkrar framkvæmdir hefjast þar.“

Og svo, áður en ég lýk þessum kafla ræðu minnar um umhverfismál þessarar fyrirhuguðu verksmiðju, þá vil ég aðeins víkja nánar að þeirri ákvörðun yfirvalda að lögleiða ameríska mengunarstaðla hér á landi og spyrja hv. þm. hvort þeir geri sér grein fyrir því hvað sú ráðstöfun merki. Amerískir sérfræðingar unnu að því í nærfellt 5 ár að semja þessa staðla. Þetta var mikið verk og við það unnu, að því er mér skilst, hundruð sérfræðinga á sviði efnaverkfræði, líffræði, lífefnafræði, veðurfræði, eiturefnafræði, hagfræði, búfræði og þjóðfélagsfræði. Staðlarnir hafa verið birtir á undanförnum missirum eftir því sem þeir voru fullunnir, en nú síðast, svo sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði frá áðan sem rétt er, voru í haust birtir staðlarnir um mengun frá málmblendiverksmiðjum.

Það er satt — tími til kominn að tilgreina eitthvað sem komið hefur fram af hálfu viðræðunefndar um orkufrekan iðnað — sem sé satt að þetta eru ströngustu mengunarstaðlar í heimi. Það er satt á sama hátt og ýmislegt annað sem n. hefur lagt fyrir hv. Alþ. í þessu máli. Það er satt að því leyti að þetta eru einu mengunarstaðlarnir sem settir hafa verið og eru þeir ströngustu. Svíar munu vera að leggja síðustu hönd á gerð sinna mengunarstaðla, og færi þá aldrei verr en svo eftir að þeir hafa verið birtir, að amerísku staðlarnir yrðu þá kannske hinir næstströngustu. Amerísku mengunarstaðlarnir ern að sjálfsögðu miðaðir við ameríska staðhætti. Þeir eru miðaðir við það að draga úr mengun í landi þar sem iðnaðarmengun er sums staðar vel á veg komin með að útrýma öllu náttúrlegu dýra- og jurtalífi og stofna mannlífi í óskaplega hættu í umhverfi stóru iðnborganna í þokkabót. Þessum stöðlum er ætlað að draga svo úr mengun í Bandaríkjunum, draga svo úr mengun sem fyrir er í landinu, að mannlífi verði ekki lengur hætta búin a. m. k., samtímis því sem tekið er tillit til þess að iðnfyrirtækin, sem menguninni valda, rísi að verulegu leyti undir efnahag Bandaríkjanna, að þau geti haldið áfram starfsemi sinni eigi að síður. Það er farið eins langt í átt til þess að reyna að hreinsa umhverfið og hægt er, án þess að gera fyrirtækjunum, sem menguninni valda, ókleift að starfa áfram, beinlínis vegna þess að þau eru undirstöðufyrirtæki í efnahag Bandaríkjanna. Lögfesting amerísku mengunarstaðlanna hér á landi mundi þýða það, að í okkar umhverfi, þar sem iðnaðarmengun er nú svo að segja engin, yrði leyft samkv. þessum stöðlum að auka mengun upp að því marki sem talið er lífvænlegt í Bandaríkjunum.

Það hefur verið sagt frá því í iðnn. þessarar hv. d., að Eyjólfur Sæmundsson efnaverkfræðingur, sá sem ráðinn var til starfa í Heilbrigðiseftirlitinu eftir að aðstandendur þessa frv. höfðu losað sig við nærveru Einars Vals Ingimundarsonar umhverfisverkfræðings, — að Eyjólfur Sæmundsson, sem ég vil ekki lasta á neinn hátt eða varpa rýrð á, vinni nú að því svo að segja nótt sem dag að fara í gegnum bandarísku staðlana og setja inn orðið Ísland í staðinn fyrir orðið Bandaríkin, enda má til sanns vegar færa að ekki sé hægt að ætlast til öllu meira af einum manni miðað við það starfslið sem vann við það að semja og gera amerísku staðlana vestan hafs. Innleiðsla amerískra mengunarstaðla á Íslandi er glæpur gagnvart náttúru þessa lands og fólkinu sem býr í því. Setning íslenskra mengunarstaðla án undangenginnar ítarlegrar rannsóknar væri fíflskapur. Íslenskir mengunarstaðlar hljóta að miða að því að koma í veg fyrir iðnaðarmengun í landinu umfram þá sem fyrir er, en ekki að því að auðvelda mönnum að auka hér iðnaðarmengun upp að því marki sem talið er lífvænlegt í iðnaðarsamfélagi.

Þá kem ég að fundi iðnn. með forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar, Jóni Sigurðssyni. — Mér hefur verið álasað á vingjarnlegan hátt fyrir að hafa sýnt lítinn áhuga á efnahagshlið þessa fyrirhugaða samnings við Union Carbide. Það er alveg rétt, að um þá hlið málsins hef ég rætt miklu minna en þá sem lýtur að umhverfismálunum og félagsmálunum. Ég á mér þá afsökun, að ég get ekki hugsað mér þann fjárhagslega ávinning af þessum samningi sem hér liggur fyrir, að hann gæti réttlætt það að við undirrituðum hann, ef við stofnuðum með því lífríki Íslands í hættu. Og ég vil vekja athygli ykkar á því í þessu sambandi, að einmitt þessa sömu daga sem þessi hv. d. fjallar um fyrirhugaða málmblendiverksmiðju í Hvalfirði, þá koma fram í dagsljósið hugmyndir þeirra manna, nákvæmlega þeirra manna sem mörkuðu stefnuna í málmblendimálinu, — koma fram hugmyndir þeirra um stóriðju á Íslandi yfirleitt, sem hæstv. iðnrh. hefur gert okkur grein fyrir lauslega í Sþ. fyrir skemmstu.

En ég vík þá sem sagt nú að fundi iðnn. með forstöðumanni Þjóðhagsstofnunar, Jóni Sigurðssyni. Sá fundur var haldinn í fyrramorgun. honum var útbýtt skjali frá Þjóðhagsstofnun sem hafði inni að halda svör við nokkrum tilteknum spurningum frá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, og má raunar segja að verkefnið, sem viðræðunefndin lagði fyrir Þjóðhagsstofnunina, hafi verið í þessu gamalkunna formi: Þetta hérna er nú álit mitt, hvað segið þið um það?

Það er ekki rétt að kaldhæðnislegt heiti, sem forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar gaf plagginu sem hann lagði fyrir okkur, hafi átt eingöngu við blaðið sem geymir töflurnar og tölurnar. Forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar lýsti viðfangsefninu á þá lund að skjöl og upplýsingar, sem stofnunin hefði haft með höndum, hefðu ekki verið með þeim hætti að hægt hefði verið að gera algilt og breitt úrtak, heldur hefði Þjóðhagsstofnun neyðst til þess að beina starfi sínu að mjög þröngu sviði, og hann tók það raunar fram að töflurnar, sem með fylgdu, væru þess háttar að ekki mætti taka nema mjög takmarkað mark, ef ég má svo segja, á áliti stofnunarinnar. Hún væri ekki það vel sett með starfslið að hún hefði getað tekið að sér að afla frekari gagna á skömmum tíma. Og ég ítreka það, vegna þess að ég er hræddur um að það kunni að gleymast kannske aftur að geta þess, þá voru þetta orð forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar, en ekki mín, hann kallaði plaggið, sem við fengum frá Þjóðhagsstofnun, „eins konar utanlegsfóstur“. Meginálit Þjóðhagsstofnunar, slíkt sem það nú er, er svo að þetta, sem fyrir lá, þessar upplýsingar, sem fyrir lágu frá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, þessar upplýsingar væru í aðalatriðum réttar. Það er meginefnið í niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar að þessar upplýsingar frá viðræðunefnd séu í meginatriðum réttar. En í plaggi Þjóðhagsstofnunar er ekkert fjallað um áhrif fyrirhugaðrar verksmiðju á aðra atvinnuvegi þjóðarinnar. Það skiptir þó ákaflega miklu máli. Það er ekkert fjallað um áhrif hennar á búsetuform í landinu, sem skiptir svo sannarlega ekki litlu máli þegar að því er gætt, að flest bendir til þess að verksmiðjan, sem nú á að reisa í Hvalfirði, verði fyrsta verksmiðjan af mjög mörgum sem nú eigi að reisa í orkufrekum iðnaði hér á landi í þessari skorpu. Það er engin tilraun gerð til þess að setja tilorðningu þessarar verksmiðju í eðlilegt samhengi við þau drög sem nú liggja fyrir um stóriðjuna. Það er ekki minnst á aðra kosti sem við eigum völ á til nýtingar raforkunnar, svo sem til húsahitunar, áburðarframleiðslu, heykögglaframleiðslu eða ylræktar, og ekki gerð tilraun til þess að gera sér neina grein fyrir markaðshorfum með ferrósilikon við breyttar efnahagsaðstæður í heiminum. Það er ekki vikið hugsun að þeirri augljósu staðreynd að draga hlýtur úr eftirspurn eftir efni í stálsteypu til smíða á vélum þegar olía þrýtur í heiminum, sem ég hygg að þrátt fyrir sæmilega bjartsýni sé viðurkennt af flestum, sem nokkuð hafa að því hugað, að muni ske einhvern tíma á tímabilinu milli næstu 10 og 20 ára.

Þrátt fyrir yfirlýsingu forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar um að ekki hafi hann ákaflega mikið álit á plagginu sem hann lagði fyrir iðnn. þessarar hv. d., þá er alþm. ætlað að leggja það til grundvallar afstöðu sinni til þessa frv. sem liggur hér fyrir framan okkur.

Ég legg það til að þetta frv. verði fellt. Til vara og ef vera mætti til þess að draga úr því tjóni sem ég sé landinu búið af þessu máli, þá mun ég sem fyrr segir bera fram nokkrar brtt. við frv. Eina þeirra ber ég fram nú við 2. umr., hinar mun ég bera fram við 3. umr. Fyrir öðrum brtt. mínum, sem ég ber fram við 3. umr., mun ég að sjálfsögðu gera grein við þá umr. málsins, en vil þó víkja að einni þeirra strax nú við 2. umr. Það er brtt., sem ég mun bera fram við 5. gr. frv., þar sem kveðið er á um kjör fulltrúa í stjórn hins fyrirhugaða hlutafélags um verksmiðjuna.

Í frv. er svo ráð fyrir gert að ráðh. skipi fulltrúa Íslands í stjórn fyrirtækisins, m. ö. o. að Alþ. kjósi ekki fulltrúa íslenska ríkisins í stjórn verksmiðjunnar. Og þá komum við að því að ræða um hlutdeild þessarar virðulegu stofnunar, hv. Alþ., í meðferð þessa dálítið skringilega máls um málmblendiverksmiðju í Hvalfirði. Hér liggur fyrir ykkur, hv. alþm., lagafrv. smíðað af stofnun sem nefnist viðræðunefnd um orkufrekan iðnað. Strax í prentaðri grg. frv. er hv. alþm. sýnd sú virðing að segja þeim, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni, að segja þeim ekki alveg satt um grundvallaratriði málsins. Iðnn. þessa hv. d. er síðan vottuð sú sæmd að synja henni um nokkrar vikur til þess að afla sér hlutlægrar sérfræðilegrar vitneskju um trúverðugleika ýmissa annarra upplýsinga sem aðstandendur frv. hafa látið í té varðandi málið. Ef hv. alþm. þráast nú við og reyna að telja sjálfum sér trú um að þeim sé ætlað annað hlutskipti en að afgreiða mál sem þegar hafa verið ákveðin af verkfræðilegum og hagfræðilegum embættismönnum kerfisins, þá vil ég upplýsa þá um það, að framkvæmdastjóri málmblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, sem við fjöllum nú um, sem þetta frv. hérna fjallar um, sem um er að ræða að reist verði í Hvalfirði ef Alþ. skyldi fallast á það og samþykkja þetta frv., — að forstjóri, framkvæmdastjóri málmblendiverksmiðjunnar hefur þegar verið ráðinn. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson, formaður iðnn., sagði okkur frá því á fundi í iðnn. nú fyrir nokkrum dögum. Hér er um að ræða forstjóra ferrosilikon-verksmiðju Union Carbide í Noregi. Hann kom hingað til lands fyrir nokkrum dögum til þess að líta á ríki sitt. Þegar við leyfðum okkur, óbreyttir nm., að sýna einhver geðshræringamerki vegna þess að þegar hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrir verksmiðju sem við værum alls ekki alveg hreint vissir um að Alþ. mundi fallast á að reist yrði, þá leiðrétti hv. þm. Steingrímur Hermannsson þau ummæli sín á þá lund, að maðurinn hefði náttúrlega ekki verið beinlínis ráðinn, heldur væri málið þannig vaxið að Union Garbide mælti með því að þessi maður yrði ráðinn. Mér er ekki alveg ljóst eftir skamma setu á Alþ. hverja persónulega sæmd hv. alþm. leggja í sitt starf. Ég vona að hún sé meiri en mig grunaði á þeim árum þegar ég kynntist störfum Alþ. fyrst og fremst í sambandi við starf mitt sem fréttamaður í 25 ár. En jafnvel þótt þessi persónulega sæmd kunni að vera í lágmarki, þá býst ég við að ýmsir alþm. vilji geta trúað því sjálfir á viðkvæmum augnablikum, að þeir láti ekki embættismannavaldið segja sér gersamlega fyrir verkum. Ég vil vekja athygli á þessu atriði í sambandi við 5. gr. frv. Við hana mun ég bera fram þá brtt.Alþ. kjósi fulltrúana í stjórn fyrirhugaðrar verksmiðju ef úr verður, en þeir verði ekki skipaðir af rn.

Að svo mæltu, herra forseti, ítreka ég till. mína um það að þetta frv. verði fellt.