12.03.1975
Efri deild: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson) :

Herra forseti Ég hef nú talað býsna langt mál í þeim tveim umr., sem farið hafa fram um þetta frv., og ætla ekki að lengja það ýkjamikið.

Ég vil aðeins í upphafi mótmæla því að ég hafi misnotað það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson eða aðrir sögðu í iðnn. um þetta mál. Ég hafði aðeins eftir honum það sem hann vissulega sagði, og eru til vitni um það, að búið væri að ráða framkvæmdastjóra til málmblendiverksmiðjunnar. Ég tók það fram í þessari sömu ræðu og í sömu andránni að hann hefði leiðrétt orð sín. En það er rétt að þessi orð hans notaði ég til að brýna þá skoðun mína, sem ég hygg að ýmsum hv. þm. sé einnig ljós, að raunveruleg ákvörðun um málmblendiverksmiðjuna hafði verið tekin af þeim sem völdin höfðu áður en málið var lagt fyrir hv. Alþ. Þessi orð, sem ég vitnaði í, tengdi ég ekki ummælum um vinskap, þau voru ekki hvísluð í eyra mér, þau voru sögð upphátt á nefndarfundi, upp yfir alla nm., og hafi það verið vinskapur í það mál blandaður, þá hefur það verið hópvinskapur. Ég hélt því ekki fram í ræðu minni, að neikvæð afstaða hefði verið tekin af hálfu verkfræðinga eða þeirra sérfræðinga, sem komu á fund n., til hugmyndarinnar um að nýta raforku til upphitunar húsa. Ég sagði aftur á móti, að þær ágiskanir, sem gerðar hefðu verið um kostnað og verkfræðilegt umfang þessa viðfangsefnis, hefðu verið neikvæðar.

Ég ætla aðeins að víkja, þó að það sé staðfastur ásetningur minn eins og hv. þm. Steingríms Hermannssonar, að forðast jag um það sem litlu máli skiptir, — þá ætla ég aðeins að víkja hér að þeim mismunandi skilningi — og þó kannske ekki svo mjög mismunandi — sem lagður hefur verið í bréf Náttúruverndarráðs, sem skrifað var 4. júlí í sumar til svars við bréfi frá viðræðunefnd sem skrifað var í maí. Sjálfur hefur hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagt í þessari d. við umr. utan dagskrár, að hann leyfði sér að draga þá ályktun af bréfi Náttúruverndarráðs frá 4. júlí að Náttúruverndarráð teldi ekki nauðsyn á líffræðilegri rannsókn uppi í Hvalfirði. Hann leyfði sér að draga þá ályktun af bréfi Náttúruverndarráðs, sem fjallaði um staðsetningu verksmiðjunnar uppi í Hvalfirði. Ég held satt að segja að við munum ekki komast ýkjalangt með því að eyða tíma okkar í að ráða sem einhverjar dulrúnir bréf undirritað af Eysteini Jónssyni. Ef í harðbakkann slær, þá hygg ég, að okkur sé best að spyrja hann sjálfan einu sinni enn ef við skyldum fá hann til þess að segja eitthvað annað um þetta bréf en það sem hann gerði á fundinum hjá okkur, þegar hann vitnaði í Guðmund Grindvíking.

Ég neita því að ég hafi borið fram í ræðu minni áðan ósæmilega gagnrýni á Baldur Johnsen forstöðumann Heilbrigðiseftirlits ríkisins með því að lesa upphátt bréf frá eiturefnanefnd, opinbert plagg, sem var svar við bréfi frá forstöðumanni Heilbrigðiseftirlitsins. Ég ætla aðeins að endurtaka það sem ég var að ljúka við að segja, til þess að hv. þm. heyri það sjálfur. Ég andmæli því, að ég hafi borið fram ósæmilega gagnrýni á Baldur Johnsen forstöðumann Heilbrigðiseftirlits ríkisins með því að lesa upp bréf frá eiturefnanefnd, opinbert plagg, sem var svar við bréfi frá forstöðumanni Heilbrigðiseftirlitsins. Ég hygg að sjálfum sé hv. þm. Steingrími Hermannssyni, form. iðnn., ljóst að ég hef síður en svo lagt mig eftir því að gera plögg frá Baldri Johnsen tortryggileg eða skopleg. Ég hygg að hv. þm. Steingrímur Hermannsson muni játa það.

Ég gagnrýndi ekki hv. þm. Steingrím Hermannsson fyrir að fara að eigin sannfæringu í sambandi við mengunarhættu frá þessari verksmiðju. Hann er maður að meiri í minni vitund að fara að eigin sannfæringu. En ég gagnrýndi hann fyrir annað. Ég gagnrýndi hann fyrir að ætlast til þess að aðrir nm. í iðnn. notuðu hans prívat og persónulegu sannfæringu sem eins konar fátækralíffræðiathugun uppi í Hvalfirði, að hann ætlaðist til þess að sannfæring hans kæmi í staðinn fyrir líffræðilegar athuganir uppi í Hvalfirði.

Hæstv. iðnrh. lét þau orð falla hér áðan, að hv. þm. Helgi F. Seljan og ég værum á móti stóriðju nema væri til áburðarframleiðslu. Hann spurði, hvort við yrðum þá á móti heykögglaframleiðslu í stórum stíl eða ylrækt, ef til kæmi, í stórum stíl. Ég get ekki láð hæstv. ráðh. það, eins margt og hann hlýtur að þurfa að bera í sinni, þótt hann veitti því ekki athygli að ég gerði einmitt grein fyrir því í ræðu minni fyrr í kvöld, alllangri, að látið hefði verið hjá líða í úrtaki Þjóðhagsstofnunar að minnast á möguleikana á heykögglaverksmiðju og ylrækt í skýrslunni, sem við fengum til að fjalla um, að stofnunin hefði látið hjá líða að geta þessara möguleika sem hugsanlegra kosta annarra en málmblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Það er grundvallarmunur á því í sveltandi heimi að nota orku þjóða og aðgerðir fólks til þess að framleiða matvæli eða til þess að framleiða frumefni til matvælaframleiðslu, svo sem áburðar eða heyköggla, — grundvallarmunur á því eða framleiða járnsíli. Þessa dagana og eflaust á þessari stundu eru tugþúsundir manna úti í heimi sem hrópa á mat, eru að deyja úr matvælaskorti. Ég hef ekki heyrt þess getið að einn einasti hafi hrópað á ferrósilíkon. (StH: Hv. þm. kann ekki að beygja járnsíli.) Ég hef aðeins fengið nýyrðið í algerri frummynd, óbeygt frá höfundi, hv. þm. Steingrími Hermannssyni, sem bjó orðið til, en ætla mætti að það þyrfti kannske að bíta þetta orð lítið eitt í hálfopnum bræðsluofni uppi á Grundartanga til þess að hægt væri að beygja það að hans skapi.

Við hugleiðingar um stóriðju, eins og nú er ástatt, þá neyðist maður kannske til þess að nota nýyrði, a. m. k. harla nýtt í íslensku máli, sem heitir vistpólitík, sem þýðir þá stefnu í þjóðmálum sem miðar að því að fólk geti haldið lífi á þessari jörð við sæmileg kjör án þess að ganga um of á auðlindir sem ekki endurnýjast sjálfar, án þess að menga umhverfi sitt svo að til stórtjóns horfi og án þess að halda áfram að krefjast þess háttar vaxta, ekki aðeins af kapítali, heldur líka af móður náttúru, að öllu lífi á þessari jörð sé stefnt í voða.

Áður en ég sleppi þessari hugsun og á meðan ég man, þá ætla ég að víkja að bréfinu, sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson las áðan, bréfi sem fyrrv. iðnrh. skrifaði í vor varðandi stefnu vinstri stjórnarinnar í þessu máli. Ég bið hv. þm. afsökunar, mér var ekki kunnugt um þetta bréf. Aftur á móti var mér kunnugt um það, að fyrrv. sjútvrh., Lúðvík Jósepsson, hafði látið um þetta leyti bóka eftir sér í ríkisstj. andstöðu gegn málmblendiverksmiðjunni í Hvalfirði, og það var sú bókun sem ég átti við þegar ég rengdi þessi ummæli hans, þar sem óneitanlega stangast bókun ráðh. á við efni bréfsins, og ég viðurkenni það fúslega. Svo að ég víki aðeins í lokin að bjartsýnismanninum Oddi Ólafssyni, hv. þm., sem telur það ærna sönnun fyrir því að fyrirhuguð málmbræðsluverksmiðja í Hvalfirði verði til blessunar fyrir þjóðina, að tvær ólíkar ríkisstj. hafi staðið að málinu, þá fullyrði ég það við hv. þm., að hugsanlegt er og meira en það að þrjár ríkisstj., ólíkar, stæðu að sömu endileysunni og sömu mistökunum.

Ég ætla svo ekki að hafa þetta mál mitt öllu lengra, aðeins að enda með yfirlýsingu um það, að það skiptir engu máli hvaða nöfnum þeir menn nefnast, sem hafa haft forustu um þetta mál frá upphafi til loka. Það er jafnbölvað fyrir því.