12.03.1975
Efri deild: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Mér þykir ákaflega leitt að jafnmætur og prúður maður eins og hv. 7. landsk. þm., Helgi F. Seljan, skuli hafa farið svo úr jafnvægi eins og nú í þessari ræðu sinni. Mér fannst ekki vera tilefni til þess. Því fer fjarri að mér hafi nokkurn tíma dottið í hug að bregða honum um heimsku eða þekkingarskort. (HFB; En það gerði ráðh. samt áðan.) Því fer fjarri. Hins vegar kom það fram í minni ræðu að ég undraðist nokkuð þessa fsp. hans. Ég held, að þetta mál liggi nú alveg ljóst fyrir. Við höfum hvað eftir annað, eins og ég gat um áðan, notað erlenda sérfræðinga, ráðgjafarfyrirtæki, við könnun og hönnun virkjana, fyrr og síðar og gerum enn í dag. Ég heyri það nú á hv. þm., að hann hefur ekkert við slíkt að athuga. Hitt veit ég ekki að hafi nokkurn tíma komið til orða,að það væru ekki íslendingar sjálfir, íslensk stjórnvöld, sem tækju allar ákvarðanir og hefðu alla yfirstjórn á öllum virkjunarrannsóknum. Að því leyti hefur mér fundist þessi fsp. hans nú og fyrr ástæðulaus. Ég vona, að þessi mál liggi alveg ljós fyrir nú.

Í annan stað gerðist það, þegar hv. þm. fór þannig úr sínu venjulega og trausta jafnvægi, að hann hélt því fram að Jóhannes Nordal og viðreisnarstjórnin hefðu haft áform um að byggja 20 álbræðslur. Þetta held ég að sé eintómur hugarburður hjá hv. þm. Hann vitnaði að lokum, þegar hann vildi ekki standa á því fast, hvorki að Nordal né viðreisnarstjórnin hefðu haft þessi áform, — þá vitnaði hann í ritstjóra Morgunblaðsins, og það munu vera ummæli í útvarpi eða sjónvarpi á sínum tíma, sem öll voru rangtúlkuð af Þjóðviljanum á sínum tíma og síðan náttúrlega hamrað á sem sannleika. En þessi ræða hv. þm. var með allt öðrum blæ en menn eiga að venjast og ég vona að menn eigi eftir að heyra frá honum hér eftir.

Ég held að það séu ekki fsp. frá hv. þm. til mín, sem ég á ósvarað. Ég er búinn að svara því, sem hann hefur spurt um, og ég vona að það sé enginn ágreiningur okkar í milli um það, að varðandi virkjunarrannsóknir, áætlanagerð, hönnun og annað slíkt varðandi nýtingu íslenskra orkugjafa verða það auðvitað íslensk stjórnvöld og íslenskir aðilar sem þar hafa öll yfirráð og taka allar ákvarðanir, en munu vafalaust hér eftir eins og hingað til notfæra sér erlenda sérþekkingu og erlenda ráðgjöf, eftir því sem nauðsyn þykir til, með það meginsjónarmið þó í huga, að íslenskir starfskraftar séu nýttir til fullnustu.