12.03.1975
Neðri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Pálmi Jónsson:

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í umr. er ég andvígur þessu frv. af eftirgreindum meginástæðum:

1. Verði frv. að lögum er ráðh. fengið í hendur vald, sem auðvelt er að misnota á fleiri vegu.

2. Frv. gengur þvert á hefðbundnar venjur um að takmarkanir og athafnafrelsi séu almennar og án mismununar.

3. Með frv. er gefið fordæmi, sem háskalegt kann að reynast fleiri þáttum atvinnulífs í framtíðinni.

4. Frv. er óþarft, því að gildandi lög veita fullar heimildir til að hafa hemil á aflamagni og vinnslustöðvum af því tagi, sem það nær til, m. a. vegna þess að unnt er að hafa vald á tölu báta.

5. Allar umsagnir, sem um frv. hafa borist, eru neikvæðar.

6. Frv. stríðir gegn sjónarmiðum, sem ég tel mig fulltrúa fyrir hér á hv. Alþ.

Ég segi því nei.