12.03.1975
Neðri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

179. mál, sveitarstjórnarlög

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins nota þetta tækifæri til þess að lýsa yfir algerri andstöðu minni við þetta frv. sem hér er til umr. Það er nú, að því er mig minnir, í þriðja skipti sem þetta er vakið upp, en ekki annað skipti eins og hv. síðasti ræðumaður vildi vera láta og fyrst í stað. — (Gripið fram í.) Já, enda er hann orðinn slakur mjög eins og vill verða þegar knúið er oft á hjá afturgöngum. Fyrst í stað var ég nokkuð efins um hvaða afstöðu ætti að taka til þessa, en við nánari athugun hef ég gert upp hug minn í þessu efni og lýsi yfir algerri andstöðu minni við það að einhverjum sérstökum lagafótum sé undir þetta skotið. Þessi samtök eiga að vera frjáls samtök sveitarfélaganna þar sem þau ræða og álykta um sín sameiginlegu hagsmunamál og síðan, eins og reyndar hefur verið, að þau hafi sameiginlega framkvæmdastjórn á þeim hagsmunamálum sem þau óska eftir að unnið sé að með þeim hætti. Það eina, sem ég get fellt mig við í nýrri lagasetningu varðandi landshlutasamtökin væri þá að skjóta því inn í lög að sveitarfélögum væri heimilt að stofna til landshlutasamtaka.