12.03.1975
Neðri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

172. mál, endurskipulagning utanríkiþjónustunnar

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Ég ber fram til utanrrh. fsp. þess efnis hvenær megi vænta efnda á marggefnum fyrirheitum um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar og hver verði meginatriði þeirrar endurskipulagningar.

Utanríkisþjónusta okkar íslendinga er sem kunnugt er tiltölulega ung stofnun í samanburði við utanríkisþjónustu flestra annarra Evrópuríkja. Engu að síður er þessi stofnun dálítið forn að því leyti til að skipulag þessarar þjónustu var sniðið eftir skipulagi annarra ríkja og ekki síst dana, þegar þessi skipan var tekin upp eftir að Ísland varð lýðveldi og fékk aðstöðu til þess að komast í tengsl við nágrannaþjóðirnar beggja vegna Atlantshafs. Við vitum að við höfum komið fyrir föstum sendiráðum á afar litlum bletti í vestanverðri Norður-Evrópu. Þar eru langflest sendiráð íslendinga á tiltölulega litlu svæði og utan þess svæðis er aðeins um að ræða sendiráð í Bandaríkjunum og í Sovétríkjunum. Þetta eru leifar frá þeim tíma þegar þannig var litið á að Vestur-Evrópa væri miðdepill heimsins og þar gerðust allir þeir atburðir sem máli skiptu og það væri þar sem íslendingar yrðu að hafa tengsl sín til þess að fylgjast með hvað væri að gerast.

Að því hefur oft verið vikið hér á Alþ., að þessi skipan væri orðin úrelt með öllu og að ástæða væri til, þó að okkur sé skorinn að sjálfsögðu þröngur stakkur um það hversu viða við getum haft sendiráð, að hafa sendiráð a. m. k. í helstu heimsálfum, í Asíu, í Afríku og í rómönsku Ameríku. Það hefur einnig verið bent á það hér á þingi margsinnis að sendiráðin gegni ekki þeim hlutverkum, sem vonir stóðu til að þau gætu gegnt, að því er varðar viðskiptastörf í þágu íslendinga, þau ræki ekki það verkefni að reyna að afla markaða fyrir íslenskar útflutningsvörur eða að veita vitneskju um mikilvæga þætti sem þeim eru tengdir, þau gegni öllu heldur hinum fornu, hefðbundnu störfum.

Mér er kunnugt um það að starfsemi þessara sendiráða hefur haldist nálega óbreytt frá því var í upphafi. Sendiherrarnir senda heim skýrslur um stjórnmálaatburði og stjórnmálaþróun í löndum sínum. Ég hef átt þess kost að lesa sumar þessar skýrslur nú undanfarin ár. Og ég verð að segja það, þó að ég skuli ekkert út á þessar skýrslur setja í sjálfu sér, að þá hef ég ekki fengið í þeim neina vitneskju umfram þá sem ákaflega auðvelt er að afla sér með því að fylgjast örlítið með því sem sagt er um alþjóðamál í áreiðanlegum blöðum.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi skipan sé orðin gersamlega úrelt og hægt væri að skipuleggja þetta á miklu hagkvæmari hátt. Um þetta hefur oft verið fjallað hér á þingi eins og ég sagði áðan. Þetta var eitt af þeim atriðum sem upp voru tekin í málefnasamning vinstri stjórnarinnar 1971. Sá samningur endaði á þessari setningu: „Utanríkisþjónustan skal endurskipulögð og staðsetning sendiráða endurskoðuð.“ Það var fyrir tæpum 4 árum sem þetta fyrirheit var gefið og í þessu máli hefur ekkert gerst. Við vitum að vísu úr fjölmiðlum að hæstv. utanrrh. hefur látið kanna þetta mál. Við vitum, að hann fól um skeið Ólafi Ragnari Grímssyni prófessor að fara í ferðalag og semja skýrslu um starfsemi sendiráða. Við vitum að hann fól einum sendiherra okkar, Pétri Eggerz, að taka leyfi frá venjulegum störfum til þess að vinna að skýrslugerð um þetta atriði. Og við vitum einnig að sendiherrunum hefur verið falið að semja álitsgerð um þetta mál. En það hefur ekkert gerst og einmitt þess vegna ber ég fram þessa fsp. til hæstv. utanrrh. Það er nú svo að það er verkefni ráðh. að móta stefnu, — ekki aðeins safna vitneskju heldur móta stefnu, og mér finnst vera kominn ærinn tími til að hæstv. utanrrh. greini okkur frá því hvort hann hafi lokið því verki og hvernig sú stefnumótun muni verða í meginatriðum.