12.03.1975
Neðri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

172. mál, endurskipulagning utanríkiþjónustunnar

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við mína fyrri ræðu að bæta og allra síst ætla ég að fara í neinar deilur við hv. 3. þm. Reykv. um þessi mál eftir þá hógværu ræðu og þær ábendingar sem hann lét hér falla til mín. En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs öðru sinni var sú, að ég vil ekki fallast á það að sendiráðin séu verkefnalaus og þau séu komin út fyrir veruleikann, ef svo mætti segja, og stundi ekkert nema samkvæmislíf. Þetta er nokkuð útbreidd skoðun, ég skal viðurkenna það, en ég held að hún eigi ekki nema að litlu leyti a. m. k. við rök að styðjast því að ég tel mig hafa kynnst því á þessum árum sem ég hef starfað við utanríkisþjónustuna, að þar eru mjög margvísleg og margs konar verkefni. En ég get fallist á það, að þau beinist kannske ekki fyrst og fremst að því sem þau þyrftu að gera, þ. e. a. s. aðstoð við sölu íslenskrar framleiðsluvöru erlendis. Og það er fyrst og fremst í þá átt sem mig langar til þess að breyta utanríkisþjónustunni. Hitt er svo annað mál, hvort allir verða ánægðir með það og hvort þeir útflytjendur, sem flytja frá landinu, óska yfirleitt nokkuð eftir því að sendiráðin komi þar til. En það mun koma í ljós síðar.