17.03.1975
Efri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Þetta frv. var flutt í byrjun þessa þings í Nd. og var afgr. þar út úr n. nokkru fyrir jól og þá hófst 2. umr. málsins sem stóð framundir miðjan marsmánuð, að vísu með jólafríi. Þetta mál hefur verið mikið rætt bæði hér á Alþ. og í fjölmiðlum svo að ég tel eiginlega óþarfa að fara að rekja ítarlega efni þessa frv. Það felur í sér að samræma vinnslu sjávarafla og veiðar í tveimur sérstökum greinum, sem er rækju- og skelfiskveiðar, en þessar veiðar eru háðar miklum og ströngum takmörkunum hvað magn snertir og þykir ærin ástæða til, þó að fyrr hefði verið, að taka upp samræmingu á milli vinnslu og veiða í þessum tveimur greinum. Ástæðan fyrir því, að þetta er orðið aðkallandi, er að það hefur orðið verulegur samdráttur á undanförnum árum í veiðum, sérstaklega rækju, á tilteknum veiðisvæðum og kvótinn, sem Hafrannsóknastofnunin leggur til við sjútvrn., fer minnkandi á flestum eða öllum þessum svæðum. Því er fullkomin ástæða til að eitthvert skipulag sé milli veiða og vinnslu. Þetta hefur farið mjög versnandi, t. d. á Húnaflóasvæðinu sem má segja að hafi verið best. Þar voru veiddar á s. l. ári 2 300 lestir, en á þessari vertíð heimilaði Hafrannsóknastofnunin aðeins 1 800 lesta veiði. Sama má segja um önnur helstu veiðisvæðin sem búið er að stunda þessa veiði á lengst af, eins og t. d. við Ísafjarðardjúp og á Arnarfirði.

Af því að þetta mál hefur verið lengi á döfinni í Nd., þá vænti ég þess að sú n., sem fær þetta mál hér til meðferðar, reyni að hraða afgreiðslu þessa frv. eftir föngum, þannig að ef hv. þd. er þessu frv. meðmælt, sem ég vona, geti það orðið sem allra fyrst að lögum.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til hv. sjútvn.