20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég sakna þess mjög, að hæstv. sjútvrh. skuli ekki vera viðstaddur þegar ræða á þetta mál. Ég held að ég sé síðasti maður á mælendaskrá um þetta frv., kveð mér hljóðs að gefnu tilefni vegna ummæla, sem hæstv. ráðh. lét falla um minn þátt í þessu máli þegar málið var til umr. fyrir nokkrum dögum og sakna þess mjög að hann skuli ekki vera hér mættur.

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Það er ekki vansalaust fyrir þessa hv. d. að það skuli vera komið fram í lok nóv. og hún skuli enn ekki vera búin að afgreiða mál til n. og mun ég því ekki með löngum ræðuflutningi koma í veg fyrir að svo verði hægt að gera með það mál sem hér liggur fyrir.

Umr., sem farið hafa fram um þetta mál, hafa einkennst af því að tveir hv. þm., þeir hæstv. sjútvrh. og hv. 2. þm. Austf., hafa flutt hér langar ræður. Þeir hafa lamið hvor annan utan með löngum skýrslum og tölurnar hafa flogið umhverfis þá eins og hráviði. Ég ætla ekki að taka þátt í þessum einkakoddaslag þessara hv. þm. tveggja. Ég kveð mér hljóðs, eins og ég sagði áðan, af tveimur ástæðum: í fyrsta lagi vegna ummæla sem hæstv. sjútvrh. viðhafði þegar hann ræddi þetta mál fyrir nokkrum dögum þar sem hann ásakaði okkur stjórnarandstæðinga fyrir hræsni í okkar málflutningi, og í öðru lagi vegna ummæla sem hæstv. ráðh. lét falla um mín orð hér í fyrra skiptið sem ég kvaddi mér hljóðs.

Ég vil taka það sérstaklega fram að þegar ég ræddi þetta mál, frv. til l. um ráðstafanir í sjávarútvegi og ráðstöfun gengishagnaðar, fyrir nokkrum dögum, í fyrri ræðu minni, þá vitnaði ég sérstaklega í skoðanir og álitsgerðir forustumanna sjómanna og stéttarsamtaka þeirra. Hafi ég verið að hræsna með þeim orðum, sem ég lét falla, þá var það ekki ég, sem var hræsnari að áliti hæstv. sjútvrh., heldur sjómannasamtökin í landinu. Það má vel vera að hæstv. ráðh. telji að formaður Sjómannasambands Íslands hafi hræsnað með ummælum sínum þar sem hann lýsir andstöðu sinni við þetta frv. Það má vel vera að hann sé einnig þeirrar skoðunar um 9. þing Sjómannasambands Íslands sem einnig lét svipað álit í ljós. En hæstv. ráðh. er nú einu sinni kjörinn á Alþ. sem 1. þm. Vestf. og vart á ég von á því að heyra frá þeim ágæta manni ásakanir á vestfirska sjómenn um hræsni í þessu sambandi. Því ætla ég — með leyfi forseta — að vitna í álit sambandsstjórnar Alþýðusambands Vestfjarða, en í þeirri stjórn sitja auk stjórnar Alþýðusambandsins formenn allra aðildarfélaga sambandsins á Vestfjörðum, samþykkt sem hún gerði á sambandsstjórnarfundi 3. nóv., svo hljóðandi:

„Fundurinn mótmælir harðlega brbl. um ráðstafanir í sjávarútvegi frá 20. sept. s.l., þar sem skert eru samningsbundin hlutaskipti sjómanna með því að taka stóran hlut af óskiptu aflaverðmæti til fjárfestingarsjóða útgerðarmanna, einnig með því að rýra mjög ákvörðunarrétt Verðlagsráðs sjávarútvegsins með ákvæðum um að fastbinda fiskverð“

Hafi ég og aðrir stjórnarandstæðingar flutt hér í þessari hv. d. hræsni þegar við ræddum þetta mál, þá er sú hræsni komin frá þessum samtökum sjómanna. Og ég á ekki von á því að hæstv. ráðh. risi hér upp, ef hann væri hér viðstaddur, og segði um sjómenn á Vestfjörðum: Vei ykkur, þér hræsnarar. —

Hæstv. ráðh. sagði einnig um þau orð sem ég lét falla í minni fyrri ræðu að þau bæru þess vott að ég vissi ákaflega lítið um málefni sjávarútvegsins. Ástæðan var sú að ég fór nokkrum orðum um b-lið 4. gr. þessa frv. og benti á hlut, sem sjútvrh. veit mætavel um að e.t.v. væri það, sem þar kemur fram, á sandi byggt, sem sé að taka hærra útflutningsgjald af fob-verði á útfluttum saltfiski og skreið en af öðrum sjávarafurðum. Vitnaði hæstv. ráðh. í það að 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, hefði sagt ásamt sér að þessar tvær vinnslugreinar í sjávarútvegi, saltfiskur og skreið, stæðu traustari fótum en aðrar vinnslugreinar og bæri þetta misræmi í málflutningi þess vott að ég vissi harla lítið um hvað ég væri að tala.

Nú er það svo, að það er rétt hjá hæstv. sjútvrh. og hv. 2. þm. Austf. að um skeið stóðu saltfiskverkun og skreiðarverkun traustari fótum en aðrar rekstrargreinar útvegsins. En það, sem ég vakti athygli á, var það að frá því að þessi lagaákvæði voru sett af hæstv. sjútvrh. í brbl., sem hann gaf út 20. sept. s.l., hafa verið að gerast tíðindi í sambandi við sölu saltfisks og skreiðar sem e.t.v. benda í þá áttina að sú staða hafi verið nokkuð trygg hjá þessum verkunargreinum fyrr á árinu, en sé nú í hættu. Ég taldi víst þá að hæstv. sjútvrh. væri þetta kunnugt. Svo virðist ekki vera. Því ætla ég með leyfi forseta — að vitna í biblíu þeirra sjálfstæðismanna, Morgunblaðið, frá 12. nóv. s.l. þar sem segir svo í frétt undir fyrirsögninni: „Markaðshorfur saltfisksins eru erfiðar“ — þar segir svo orðrétt — með leyfi forseta:

„Sendimenn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda hafa undanfarið verið erlendis til þess að kanna markaðshorfur og möguleika á saltfiskssölu. Er ástandið engan veginn bjart í þeim efnum og hvað saltfiskverðið áhrærir þyngist þar heldur fyrir fæti, eins og einn af fulltrúum SÍF orðaði það. Frá Noregi berast einnig þær fréttir að þar sé sölutregða ásaltfiski orðin slík að framleiðendur séu teknir að undirbjóða hver annan.“

Þetta segir Morgunblaðið. E.t.v. les hæstv. sjútvrh. ekki nógu vel sitt Morgunblað, þá er sjálfsagt að gera það fyrir hann og upplýsa þær fréttir sem Morgunblaðið flytur, vegna þess að þessi frétt er nákvæmlega í sama anda og ég flutti mitt mál í minni fyrri ræðu þegar ég benti á að horfurnar varðandi saltfisks- og skreiðarmarkaði okkar hefðu mjög versnað á undanförnum mánuðum, svo að hæstv. ríkisstj. yrði e.t.v. að horfast í augu við það að geta ekki tekið meira útflutningsgjald af þessum afurðum en öðrum sjávarafurðum, heldur e.t.v. að þurfa að greiða með þeim, greiða styrki í einni eða annarri mynd til framleiðenda.

Ég hef áður í ræðu í þessari hv. d. lýst afstöðu minni til meginatriða þess frv., sem hér liggur fyrir. Í fyrsta lagi er þar brugðið á það nýmæli að ríkisstj. gripur inn í störf Verðlagsráðs sjávarútvegsins. Þegar verið er að reyna að leita samkomulags þar milli fiskkaupenda og fiskseljenda um nýtt verð á fiski, þá grípur ríkisstj. inn í í miðju kafi og setur hámarksákvæði, fyrirskipar Verðlagsráðinu hvað það megi hækka fiskverðið mest. Með þessu gripur ríkisstj. inn í samningsgerð sem í raun og veru er samningsgerð sjómanna í landinu um hækkað kaup og bætt kjör. Þeir hafa ekki fengið slíkar kauphækkanir frá s.l. áramótum þótt aðrar stéttir í landinu hafi þá verið búnar að fá bættan sinn hlut. Ég veit ekki til þess að þetta hafi áður verið gert og ég varaði við því fordæmi sem þarna væri verið að gera.

Í öðru lagi benti ég á að með 2. og 3. gr. þessa frv. sé verið að skerða allverulega hlutaskipti sjómanna. Ég benti á að þar væri verið að vega beinlínis að grundvallaratriði sjómannasamninganna um hlutaskipti, þar væri beinlínis verið að skerða umsamin launakjör sjómanna og sjómenn sjálfir hafa verið mér sammála um það efni. Ég byggði mínar skoðanir á samþykktum sem þeir hafa sjálfir gert. Þetta eru þau tvö meginatriði sem ég rakti í frv. og valda því að ég er andvígur þessum ákvæðum þess.

Meginatriði þessa frv., eins og ég sagði fyrr, er það að teknar eru miklar upphæðir frá sjómönnum og þær færðar yfir til útvegsmanna. Það eru teknar miklar fjárupphæðir frá launþegum í þessari atvinnugrein og afhentar atvinnurekendum sjálfum. Það eru einu bjargræðin fyrir þessa undirstöðuatvinnugrein landsmanna sem í frv. felast. Frv. gerir ekki ráð fyrir neinni umtalsverðri utanaðkomandi aðstoð til að rétta hag þessa undirstöðuatvinnuvegar. Einustu úrræðin eru þau að taka milljónahundruð af umsömdum launum sjómanna og færa þau yfir til atvinnurekendanna. Þessum meginatriðum frv. er ég ósammála og mun því greiða atkv. gegn því.