17.03.1975
Neðri deild: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

177. mál, Fljótsdalsvirkjun

Tómas Árnason:

Herra forseti. Með tilkomu orkukreppunnar hafa orkumál verið mjög á dagskrá og menn velta því fyrir sér hvar veröldin er á vegi stödd í þessum efnum, hve lengi orkan endist og hvar hana er að finna. Ísland er tiltölulega vel sett í þessum efnum og hefur enn þá yfir verulegum ónýttum orkulindum að ráða. Olíukreppan, þ. e. a. s. fimmföldun á verði olíu á heimsmarkaði á tiltölulega stuttum tíma, hefur valdið mjög miklum röskunum í efnahagslífi okkar íslendinga. Nægir að minna á húshitunarmálin, rekstur fiski- og kaupskipaflota þjóðarinnar, svo og samgöngur á landi og í lofti og fleira mætti tína til. Þegar af þessum ástæðum þarf þjóðin að gera sér glögga grein fyrir því hvaða orkulindir eru ónýttar og með hverjum hætti á að nýta þær.

Mér hefur skilist að við nýtum í dag um 10% af nýtanlegu vatnsafli landsins, en nýtanleg vatnsorka mun svara til 27 þús. gwst. og sá forði sem við eigum af jarðvarma, mun vera um 8300 gwst. miðað við 40% nýtingu, en það mundi þýða um 1200 gwst. í rafmagnsframleiðslu og þá miðað við ákveðna dýpt af borholum eða frá 1800–2000 m. Hins vegar kunna þessir möguleikar að aukast við það ef borað yrði dýpra, allt upp í 3000 m. Stærstu orkuverin í landinu, sem fyrirhugað er að byggja, eru Sigalda, sem verður tilbúin fyrir 1977 og er um 150 mw. orkustöð, Hrauneyjarfoss mun vera um 210 mw., Sultartangi um 120 mw. stöð, Dettifossvirkjun um 165 mw., Blanda um 135 mw., að vísu er ástæða til að setja spurningarmerki við það, menn tala um einhvers staðar á milli 120 og 180 mw. í sambandi við möguleika í Blöndu. Búrfellsvirkjunin er 240 mw. Jarðgufustöðvarnar í Kröflu og Henglafjöllum eru 60 mw. hvor og hagkvæmasta stærð Fljótsdalsvirkjunar, sem hér er verið að ræða um rannsóknir á, verður sennilega allt um 250 mw., e. t. v. stærri.

Till. sú til þál., sem hér er til umr., fjallar í fyrsta lagi um rannsóknir á Fljótsdalsvirkjun og í öðru lagi um að finna markað fyrir þá orku sem þar yrði til reiðu síðar meir.

Orkuþörf Austurlands hefur mjög verið á dagskrá hér í vetur í sambandi við frv. til l. um virkjun Bessastaðaár. Vil ég ekki endurtaka margt af því, sem þar hefur komið fram, en aðeins taka undir það, sem kom fram hér hjá hv. flm., að möguleikinn í Bessastaðaárvirkjun er áreiðanlega nr. 1 til þess að mæta orkuþörf Austurlands í næstu framtíð. Mér er sagt að það hafi komið í ljós þegar farið var að skoða kort, ný kort af landssvæðinu á Fljótsdalsheiði, að það muni e. t. v. vera minni möguleikar til miðlunar í þeim vötnum, sem miðla á úr til Bessastaðaárvirkjunar, heldur en menn vonuðust til áður.

Hvort þetta hefur þau áhrif að menn verða að breyta til í sambandi við fyrirætlanir varðandi virkjun Bessastaðaár, um það er sjálfsagt of fljótt að segja til nú.

Næsti kosturinn er áreiðanlega tenging við Kröfluvirkjun og ákjósanlegast væri að þetta hvort tveggja kæmi til, virkjun Bessastaðaár og einnig tenging við Kröfluvirkjun. En ef Bessastaðaárvirkjun seinkar af einhverjum ástæðum eitthvað verulega, þá er enginn vafi á því að tenging Kröflu er þá ákjósanlegasti möguleikinn til þess að mæta orkuþörf Austurlands. En þá kemur aftur til að slíkum langlínulögnum á hálendinu fylgir það að þær geta bilað og þess vegna skapast öryggisleysi í sambandi við orku til Austurlands ef Austurlandið þarf að reiða sig alfarið á Kröflu. Þess vegna hefði ég talið að það kæmi til álita að virkja einhverjar smærri virkjanir á Austurlandi ef svo færi að Bessastaðaárvirkjun seinkaði eða ég tala nú ekki um ef hún yrði alveg úr leik.

Ég hef áður vakið máls á því hér á hv. Alþ. að í hvert sinn sem ákvörðun er tekin um nýja virkjun, sérstaklega stórvirkjun, þá þyrftu að liggja fyrir fleiri kostir en einn til að velja á milli. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði þjóðar, sem ræður yfir takmörkuðum fjármunum, hlýtur að vera skynsamlegast að velja hagkvæmasta kostinn af fleirum miðað við kostnað við raforkuframleiðslu á einingu og þá markaðsmöguleika sem fyrir hendi eru.

Ég hygg að margir hv. alþm. séu þeirrar skoðunar að mjög sé ábótavant um skipulag orkumála í landinu og vinnubrögð hafi í heild þróast með óæskilegum hætti. Við höfum þrjá stóra aðila sem starfa að þessum málum ásamt fjölmörgum öðrum. Það er Landsvirkjun sem er eins og kunnugt er sameignarfélag Reykjavíkurborgar og ríkisins. Orkusvæði Landsvirkjunar nær langt út yfir Reykjavík og þess vegna liggur nærri að spyrja: Hvers vegna eiga ekki fleiri sveitarfélög aðild að Landsvirkjun heldur en Reykjavík? Það eru Rafmagnsveitur ríkisins og það er Orkustofnun. Þessir þrír aðilar eru þeir sem leggja þær stóru línur sem lagðar eru í sambandi við þróun orkumála og uppbyggingu orkustöðva hér í landinu. Þá eru margir fleiri. Það er Laxárvirkjun sem er sameignarfyrirtæki ríkisins og Akureyrar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ein af ástæðunum fyrir því, hvernig fór um Laxárvirkjunarmálið, er sú að önnur sveitarfélög á markaðssvæði Laxárvirkjunar hafa ekki verið og eru ekki aðilar að Laxárvirkjuninni. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Þau mál hefðu þróast á annan veg ef öll sveitarfélög hefðu verið aðilar að Laxárvirkjun, en ekki Akureyri ein. Þá höfum við Kröflunefnd og ég held byggðalínunefnd, ef hún starfar enn þá, og svo marga fleiri smærri aðila, sjálfsagt allt að 20 eða fleiri, sem sinna þessum málum. Mér hefur t. d. verið sagt að Rafmagnsveita Akureyrar, Laxárvirkjun og líklega Rafmagnsveitur ríkisins, þessir þrír aðilar reki dísilstöðvar hver um sig og þessar dísilstöðvar framleiði rafmagn inn á sama kerfi. Mér hefur verið sagt það sem dæmi um hvað þetta virðist vera sundurslitið og áreiðanlega óhagkvæmt. Ég vil spyrja í þessu sambandi: Er náið og virkt samband á milli vinnubragða Rafmagnsveitna ríkisins, Orkustofnunar og Landsvirkjunar? Eru t. d. samræmd vinnubrögð um rannsóknir á milli þessara aðila? Þessum spurningum hefði ég viljað beina til hæstv. iðnrh., en hann er nú ekki hér viðstaddur. Ég ætlaðist ekki til þess að hann svaraði þeim hér og nú, heldur e. t. v. síðar meir, því hér er um mjög þýðingarmikil mál að ræða sem ástæða er til að þm. viti um og séu rædd hér á hv. Alþ. Þá mætti nefna Kröflunefnd. Er full samvinna á milli Kröflunefndar og þeirra hinna stærstu aðilanna sem ég hef hér nefnt í sambandi við orkumálin?

Á miðsvetrarfundi Sambands ísl. rafveitna flutti formaður landsvirkjunarstjórnar mjög fróðlegt erindi sem hann nefndi Framtíðarþróun raforkukerfisins. Þar ræðir hann um hugmyndir um þróun orkuöflunarkerfisins. Þar kemur fram að aðeins örfáir virkjunarstaðir landsins eru fullkannaðir og víðast er þörf miklu tímafrekari rannsókna, t. d. varðandi jarðfræði, vatnafræði, náttúruverndarmál eða umhverfismál og fleira til þess að unnt sé að meta hagkvæmni virkjunarstaða. Síðan segir í erindinu að þetta valdi því að þeir staðir, sem ekkert eða lítið hafa verið rannsakaðir, komi varla til greina sem virkjunarstaðir á næstu 10 árum. Ég skil þetta svo að 10 ár þurfi að líða áður en unnt sé að taka ákvörðun um slíkar virkjanir. Þessi fullyrðing er að mínum dómi vafasöm og kem ég nánar að því síðar. Hins vegar felst í þessu sá sannleikur að rannsóknirnar ráði ákvörðunartöku í þessum efnum. Í rannsóknir verður hins vegar ekki ráðist nema fjármagn sé fyrir hendi. Þá segir enn fremur í erindi formanns landsvirkjunarstjórnarinnar að þær einu stórvirkjunarframkvæmdir, sem koma til greina á árunum 1975–1979, séu auk Sigölduvirkjunar, Kröfluvirkjun og Hrauneyjarfossvirkjun sem bráðlega er tilbúin til útboðs og væri hægt að ljúka 1979. Hins vegar mun hæstv. iðnrh. hafa lýst því yfir hér á hv. Alþ. fyrir skömmu að ákvörðun um stórvirkjun á Norðurlandi yrði tekin áður en virkjun Hrauneyjarfossa yrði ákveðin. Hér skýtur nokkuð skökku við og þess vegna ástæða til þess að spyrja um það hvað líði rannsóknum á stórvirkjunum á Norðurlandi, t. d. Blöndu, þegar er verið að vinna að áætlunum um virkjun Sultartanga á vegum Landsvirkjunar auk gufuvirkjunar í Hengli. Þar vantar ekki fjármagn. Þar þarf ekki að leita til Alþ. um fjármagn til rannsókna. Það mun vera þannig að Landsvirkjun hafi frjálsar hendur um að ráðast í rannsóknir án þess að spyrja Alþ. eða jafnvel án þess að spyrja iðnrh. landsins um það. Hins vegar er nauðsynlegt í öðrum tilvikum að leita til Alþ. um fjármagn til þess að koma á rannsókn um stórvirkjunar- eða virkjunarmöguleika.

Hér álít ég að sé ástæða til að staldra svolítið við og tryggja það að raforkuráðh. hafi algerlega æðstu völd í því efni að ákveða hvar fjármagn skuli sett í rannsóknir stórra orkuvera í landinu á hverjum tíma. Mér sýnist að það vanti sárlega heildarstefnumótun í þessum málum, þ. e. a. s. virka stefnu sem verði framkvæmd og sé annað en orðin tóm.

Ég vil nú víkja aftur að þáltill. á þskj. 347. Hún fjallar fyrst um rannsóknir á Fljótsdalsvirkjun. Þegar verið var að ræða um frv. um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal í s. l. des., þá kom ég dálítið inn á það mál og sagði þá í ræðu hér á hv. Alþ. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„Það mætti ræða langt mál um þá möguleika sem finnast á Austurlandi til virkjunar. Og það er enginn vafi á að virkjunarmöguleikar á Austurlandi eru sennilega hvað mestir sem finnast hér á landinu. Það er aðallega þrennt sem menn tala um í þessu sambandi.“

Ef þeir virkjunarmöguleikar eru skoðaðir, þ. e. a. s. þær hugmyndir, sem ég álít að séu ekki raunhæfar, um að renna vötnum í Lagarfljót allar götur vestur að Jökulsá á Fjöllum, þá er talað um að það séu virkjunarmöguleikar, sem nema um 1/3 af nýtanlegri vatnsorku í landinu. Svo held ég áfram:

„Það er í fyrsta lagi hin svokallaða Austurlandsvirkjun sem mikið var rætt um hér á tímabili og er fólgin í því að safna saman vötnum allar götur frá Jökulsá á Fjöllum og um allt þetta svæði og veita þeim niður á Fljótsdalsheiði til miðlunar og nota svo hið geysilega mikla fall af heiðinni niður í gegnum fjallið til þess að virkja þar stórvirkjanir. Það er talað um stórkostlega virkjunarmöguleika, allt upp í 1600 mw., hafa menn látið sér um munn fara.

Í öðru lagi er svokölluð Fljótsdalsvirkjun sem er fólgin í því að gera mikið uppistöðulón við svokallaða Eyjabakka, — uppistöðulón sem yrði suður af Snæfelli og neðan Eyjabakkajökuls sem gengur fram úr Vatnajökli, veita því vatni síðan fram á Fljótsdalsheiði, bora göng niður um fjallið, lóðrétt eða því sem næst, og síðan lárétt göng út í Fljótsdalinn þannig að hægt væri að hleypa vatni þar í gegn og koma stöðvarhúsi fyrir í hnénu og gera þannig virkjun. Er enginn vafi á því að það væru möguleikar, ef nægilegt fjármagn yrði í það sett, að grafa fleiri göng jafnhliða og bæta við vatni og virkja þannig stórkostlegar virkjanir á þessum stað. Virðast vera mjög óvenjuleg skilyrði til staðar til þess að standa fyrir hagnýtum virkjunum.“

Síðan ræði ég nokkru nánar um Bessastaðaárvirkjunina.

Hv. 3. þm. Austf. hefur valið þann kost að flytja þetta mál einn. Ég hefði talið æskilegra að þm. Austf. hefðu getað staðið saman að flutningi svo þýðingarmikils máls. Þá hefði ég kosið — og get ég í því efni talað fyrir hönd okkar þriggja þm. Framsfl. á Austfjörðum — að þáltill. hefði hljóðað á þá leið:

1. Að fela ríkisstj. að láta rannsaka virkjunarmöguleika Jökulsár í Fljótsdal, Kelduár og e. t. v. fleiri smááa með vatnsmiðlun á Eyjabökkum til Gilsárvatn og á Fljótsdalsheiði eða til fleiri vatna eftir atvikum.

2. Að rannsóknir færu fram á árunum 1975–1977 til 1978 þannig að niðurstöður rannsókna lægju fyrir t. d. á árinu 1978.

3. Að íslendingar stjórni rannsóknum og heimamönnum á Austurlandi gefist kostur á að fylgjast með málum.

Þessi stefna byggist raunverulega á því að rannsaka möguleika sem felast í virkjunum án þess að bæta vatni við í Lagarfljót, þ. e. a. s. að nota það vatn, sem þangað rennur og hefur runnið, án þess að það komi til vatn annars staðar frá.

Rannsóknir Fljótsdalsvirkjunar eru engan veginn komnar svo langt áleiðis að telja megi lokið við forrannsóknir, en forrannsókn á að svara þessum spurningum:

1. Hvort virkjun sé tæknilega framkvæmanleg.

2. Hvort virkjun sé fjárhagslega gerleg, þ. e. hvort orkukostnaður frá henni sé innan þeirra marka að virkjunin komi fjárhagslega til greina.

3. Hver orkukostnaður virkjunar sé í megindráttum.

Engar djúpmælingar eða boranir hafa verið gerðar né heldur jarðvegsrannsóknir. Orkustofnun hefur gert sérstaka rannsóknaáætlun sem gerir ráð fyrir að Fljótsdalsvirkjun verði rannsökuð það mikið að á grundvelli hennar megi taka ákvörðun um hana og ráðast í byggingu. Svæðalega skiptist þessi rannsókn þannig:

1. Svæðið inni í fjallinu nærri Skriðuklaustri þar sem stöðvarhús verður inni í fjallinu. Þar þarf miklar boranir eða rannsóknarjarðgöng.

2. Stíflustæði við Bessastaðaá við Hólmavatn, Garðavatn og Gilsárvötn. Þar þarf grunnar boranir og jarðvegsathuganir og nákvæm kort.

3. Skurðstæði frá Hólmavatni upp að Eyjabökkum. Þar þarf mikið af grunnum borunum, jarðvegsathugunum og nákvæm kort.

4. Stíflustæði við Eyjabakka. Þar þarf boranir, jarðvegsathuganir og nákvæm kort. Kostnaðaráætlun hefur verið gerð og í stórum dráttum er hún á þessa leið:

1. Almennar rannsóknir, þ. e. að ljúka við gerð yfirlitskorta, ljúka við jarðfræðikortlagningu svæðisins, veðurathuganir, vatnamælingar og frumáætlanir. Er talið að þessi almenna rannsókn muni kosta um 25 millj. kr.

2. Samgöngubætur. Það er vegagerð upp á fjallið við Skriðuklaustur og vegur yrði gerður sem lægi að stíflustæði við Garðavatn og að svæðinu sem aðallega verður borað á og síðan vegslóð frá Garðavatni meðfram skurðleið inn að Eyjabökkum. Er talið að þessar samgöngubætur muni kosta 55 millj. kr.

3. Svæðið við Skriðuklaustur og Gilsárvötn. Það eru landmælingar vegna korta, sem kosta um 6 millj. samtals.

4. Djúpboranir. Ef sú leið yrði valin að það væru boraðar holur, þá er talað um 5 rannsóknarholur og þær munu kosta um 15 millj. kr. hver eða samtals 75 millj. kr. Síðan er einnig talað um þann möguleika að gera jarðgöng og það er allmiklu dýrara. Síðan yrði að rannsaka skurðleið og stíflustæði við Eyjabakka og sú rannsókn mundi kosta a. m. k. 45 millj. kr.

M. ö. o.: rannsóknaáætlun gerir ráð fyrir 223 millj. kr. kostnaði við þessar rannsóknir ef sú aðferð er höfð við hinar dýpri athuganir á jarðvegi að bora. Aftur á móti ef sú aðferð yrði höfð að gera jarðgöng, þá yrði kostnaðurinn allmiklu meiri og er talað um ýmsar gerðir af tækjum til að nota í þessu skyni. En í heild má segja að rannsóknakostnaður þessa orkuvers mundu í heild verða einhvers staðar á bilinu frá 225 millj. upp í 300 millj., eftir því hvernig hagað yrði aðgerðum, hvort um yrði að ræða boranir eða jarðgöng.

Það virðist skynsamlegt að slík rannsókn fari fram á þrem árum. En Orkustofnun telur mögulegt að ljúka þessu verkefni á styttri tíma en þremur árum. T. d. ef ákvörðun væri tekin nú, þá væri hugsanlega mögulegt að skila niðurstöðum snemma á árinu 1978.

Það hefur verið talið að afl í megawöttum af vatni, sem rennur í Lagarfljót, gæti orðið allt að 337 mw. ef það væri allt saman tekið með, Lagarfljótið sjálft og allir þeir möguleikar vatns, sem rennur í Lagarfljót, sem um er að tefla. En hér vantar fjármagn til rannsókna. Hér er engin Landsvirkjun sem getur rannsakað. Hér þarf að leita til hv.Alþ.um fjármagn eða fjármagna þetta með lántökum ef hægt er að fá hagstæð lán í því skyni. Mér er sagt að erlendir sérfræðingar, sem hafa skoðað virkjunarmöguleika hér á landi, og raunar innlendir einnig telji að virkjunarmöguleikar Fljótsdalsvirkjunar séu e.t.v. þeir álitlegustu sem um er að tefla hér á landi. Ég segi e. t. v., vegna þess að það á auðvitað eftir að rannsaka þetta svo til hlítar að menn geti fullyrt um samanburð við aðra möguleika í þessu sambandi. En það er augljóst að það er fjármagnið sem ræður ferðinni í þessum efnum og það er mögulegt að framkvæma þetta fyrir 1984 ef fjármagn væri til staðar.

Ég tel tímabært að þessar rannsóknir hefjist sem fyrst og takmarkist eins og sakir standa við þau vötn sem þegar renna í Lagarfljót. Þegar rannsókn er lokið er fyrst unnt að ákveða með hverjum hætti nota skuli þá virkjunarmöguleika sem fyrir hendi eru.

Þegar íslendingar reisa stærri orkuver sín sýnist eðlilegt að staðsetja þau a. m. k. að einhverju leyti með hliðsjón af þeirri reynslu og vitneskju sem menn hafa af eldgosum og jarðskjálftum í landinu. Það er talið að um þriðjungur landsins sé virkt eldfjallasvæði og 30 eldstöðvar hafi gosið eftir landnám Íslands. Fimmta hvert ár hefur gosið að meðaltali. Hið virka jarðeldasvæði síðan ísöld leið liggur á allbreiðu belti, um 70 km breiðu, beggja vegna Vestmannaeyja norður yfir virkjunarsvæði Landsvirkjunar, Kröflu og Dettifoss. Þá er annað belti, 40–60 km breitt, frá Reykjanesi norðaustur um virkjunarsvæði Hengils og Sogs, norður um Langjökul og Hofsjökul og sameinast þar hinu beltinu. Mér sýnist að þær einu stórvirkjanir, sem um er talað og liggja fyrir utan jarðskjálftahættusvæði í landinu, séu Blanda og Fljótsdalsvirkjun. Það er erfitt að ímynda sér hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir þjóðina, sérstaklega byggðina á Suðvesturlandi, ef stóru orkuverin á miðhálendinu yrðu fyrir skakkaföllum af völdum eldgosa og jarðskjálfta. Talsverð trygging ætti að felast í stórum virkjunum utan hættusvæðisins. Það er e. t. v. engin ástæða til að vera að hræða menn í þessum efnum, en allur er varinn góður í sambandi við þessi málefni, sérstaklega þegar menn horfa til lengri framtíðar, og enginn vafi á því að skynsamlegt er fyrir þjóðina og hagsmuni hennar í bráð og lengd að reyna að virkja stórar virkjanir víðar en á þessum viðkvæmu svæðum vegna jarðelda og jarðskjálfta sem ég minntist á.