18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

327. mál, vetrarvegur um Breiðdalsheiði og tenging Djúpvegar við þjóðvegakerfi landsins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er um tvö mikilvæg mál að ræða, sem fsp. þessi fjallar um, annars vegar að tengja Djúpveginn suður yfir hálendið við aðalvegakerfi landsins og hins vegar Breiðadalsheiðin.

Ég tek undir allt sem hv. 5. þm. Vestf. sagði um mikilvægi þessara mála, en þau eiga sér mislanga sögu. Spurningin um tengingu Djúpvegarins kemur upp og er aðkallandi nú þegar verið er að ljúka Djúpveginum, en hitt málið er gamall kunningi héðan úr þingsölum. Hv. 5. þm. Vestf. talaði eins og Hannibal Valdimarsson hefði fyrst hreyft þessu máli svo um munaði árið 1971, en síðan hefði ekkert skeð, þ. e. a. s. í ráðherratíð þessa hv. þm. Ég er undrandi á því að hv. 5. þm. Vestf. skuli rekja svo söguna, vegna þess að þegar Vestfjarðaáætlunin var ákveðin og samþ. var einn meginþáttur í samgöngumálum Vestfjarða það átak að koma jarðgöngum í gegnum Breiðadalsheiðina. Það var vegna þess að Vestfjarðaáætlunin byggðist m. a. á því að byggja upp byggðakjarna og stærsti byggðakjarninn á Vestfjörðum átti að vera umhverfis Ísafjörð, þ. e. a. s. Ísafjörður og kauptúnin við Ísafjarðardjúp: Bolungarvík, Hnífsdalur og Súðavík, og kauptíminn í V-Ísafjarðarsýslu. Það er ekki hægt að láta þessar fyrirætlanir verða að veruleika nema gera þá samgöngubót við Breiðadalsheiði að þar sé akfær vegur allt árið um kring. Að mínu viti verður það ekki gert nema með jarðgöngum eða með einhvers konar yfirbyggingu, hvort sem hentara reynist.

Ég vil nota þetta tækifæri til að leggja áherslu á, að nú verði eitthvað gert í þessu máli. Það var illt að það skyldi ekki vera framkvæmt eins og gert var ráð fyrir í upphafi Vestfjarðaáætlunarinnar. Það má kannske segja að viðreisnarstjórnin, sem þá réð, hafi haft þá afsökun að hún væri að framkvæma aðra þætti Vestfjarðaáætlunarinnar, en það er ekki afsökun í mínum augum. Þeim mun óafsakanlegra er það, að í tíð þeirrar ríkisstj., sem hv. 5. þm. Vestf. studdi, var ekkert gert í þessu máli.