18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

327. mál, vetrarvegur um Breiðdalsheiði og tenging Djúpvegar við þjóðvegakerfi landsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mér finnst hæstv. samgrh. vera orðinn um of hörundssár því að ekki var einu orði í minni ræðu vikið að honum, að hann hefði átt hlut að því að spyrnt hafi verið við fótum.

Ég vonast sannarlega eftir því að hann muni ekki eiga að því hlut að það verði gert, þannig að þessu verði hrundið í framkvæmd.

Ég er hræddur um að það hafi slegið heldur betur út í fyrir hv. 3. þm. Vestf. Hann byrjaði á að lýsa því hér yfir að hann væri algerlega sammála öllu því, sem ég hefði sagt hér áðan, en fór síðan að tína upp eitt og annað sem hann taldi að væri ástæða til að gera athugasemd við í mínu máli. Og þá var fyrst og fremst það, að ég hefði fullyrt að það væri fyrst 1971 sem Hannibal Valdimarsson hefði hreyft þessu máli. Þetta er alrangt. Ég sagði að hann hefði flutt frv. um þetta á þinginu 1962–1963. Þá var því hreyft.

Svo er það blessuð Vestfjarðaáætlunin sem enginn þm. mér vitanlega hefur fengið að sjá, nema þá að það hafi verið stjórnarþm. viðreisnarstjórnarinnar. Ég skal ekki um það segja. Ég veit a. m. k. dæmi þess, að samþingsmenn Sjálfstfl. í núverandi ríkisstj. hafa kvartað sáran yfir því og þm. Vestf. að þeir hafi aldrei fengið að sjá þessa áætlun sem nefnd var Vestfjarðaáætlun. Vel má vera að í henni hafi þetta verið eitt af aðalatriðunum. Eigi að síður er það staðreynd að því var ekki hrundið í framkvæmd, þannig að það er ekki að ástæðulausu að þessu er hreyft. Hafi verið fullkomin ástæða til þess að fyrrv. ríkisstj. hryndi þessu í framkvæmd á þrem árum, sem ég út af fyrir sig ætla ekki að segja að ekki hefði átt að gerast, hvað þá um hina sem sat í 12 ár? Það hefði a. m. k. mátt búast við frekari framkvæmdum á þeim tíma heldur en hinum stutta tíma sem fyrrv. ríkisstj. sat.

Ég endurtek að ég vænti þess að núv. hæstv. samgrh. ýti vel við þessum málum báðum og það verði í reynd unnið að þessu í allra nánustu framtíð, þannig að við vestfirðingar þurfum ekki eftir því að bíða í mörg ár að geta verið í nokkurn veginn greiðfæru akvegasambandi við þjóðvegakerfið allt árið. Við höfum verið innilokaðir að meginhluta 6–7–8 mánuði á ári um árabil og ég vænti þess að því fari að linna, slíku tímabili.