18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

160. mál, almenningsbókasöfn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fyrri lið fsp. vil ég svara þannig, að unnið hefur verið að gerð nýs frv. sem er nokkuð frábrugðið fyrri frv. um almenningsbókasöfn, einkum að því leyti að það er einfaldara í sniðum, færri atriði sem frv. sjálft fjallar um, enda er þar gert ráð fyrir að um nánari útfærslu laganna verði sett ákvæði í reglugerð. Þetta frv. hefur þegar verið sett og er tilbúið í próförk, og ég vona að hægt verði að leggja það fram á Alþ. mjög fljótlega. Eins og fram kom hjá hæstv. fyrirspyrjanda var þess getið í stefnuræðu forsrh. að frv. um almenningsbókasöfn yrði meðal þeirra frv. sem menntmrh. legði fram á þessu þingi.

Svar mitt við 2. lið fsp. er á þessa leið: Að venju ákvarðast þegar líður á þing hvaða frv. það verða sem ríkisstj. beitir sér sérstaklega fyrir að nái fram að ganga. Um það hefur ekki verið tekin ákvörðun í dag hversu snúist verður við ýmsum þeim frv., sem senn verða lögð fram, t. d. á vettvangi menntamálanna. Hins vegar leyfi ég mér að vænta stuðnings bæði samráðherra minna og annarra hv. alþm. við að þoka — alveg sérstaklega — þessu máli áleiðis. Það hefur dregist allt of lengi að breyta l. um bókasöfn m. a. og alveg sérstaklega vegna þess að ákvæði í núgildandi lögum um tekjur safnanna, um rekstrarfé þeirra, eru fyrir löngu úrelt orðin.