18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

171. mál, fiskvinnsluskóli

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leitast við að svara fsp. hv. 2. þm. Austurl.

Eins og hann drap á, segir í 6. gr. laga um fiskvinnsluskóla frá 1971, að „á árunum 1972–1975 skal enn fremur undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum, Akranesi og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum.“

Það er hægt að svara því ósköp stutt og laggott, að það hefur ekki verið hafist handa um undirbúning að stofnun þessara skóla. Ástæður til þess eru þær, sem að nokkru leyti komu fram í skýringum hv. þm., hversu til hefur tekist með Fiskvinnsluskólann sem stofnaður var skv. áður nefndum lögum og starfar í Hafnarfirði. Þessi skóli hefur fengið húsnæði, að vísu í leiguhúsnæði, en nokkuð gott að sumu leyti. Þó þarf það enn endurbóta við og verður að því unnið að koma þeim endurbótum á. Þessi skóli á að geta tekið nálægt 100 nemendum, en í honum munu nú vera samtals í fjórum bekkjardeildum tæplega 60 nemendur, eða nánar tiltekið í 1. bekk 16, 2. bekk 15, 3. bekk 11 og í 4. bekk 13, eða alls 55, eins og mál stóðu þegar ég fékk mínar upplýsingar. Af þessu, hversu dauf hefur verið aðsókn að þessum skóla og hversu rými hans er illa notað eins og mál standa í dag, leiðir það að ekki hefur verið hafist handa um undirbúning þeirra skóla sem um er rætt í lagagr.

Almenn þörf fyrir aukna menntun á því sviði, sem hér um ræðir er vissulega augljós og mikil. En það er líka einnig augljóst að aukinni menntun á þessu sviði verða að fylgja aðgerðir sem tryggja að þeir, sem hennar hafa aflað sér, fái viðeigandi störf og í eðlilegum launaflokki við fiskvinnslustöðvarnar. Þau skilyrði eru nauðsynleg og mundu tvímælalaust verða hvati og uppörvun fyrir uppbyggingu slíks skólakerfis og þá jafnframt, sem er ekki síður nauðsynlegt, hvatning fyrir fólk að sækja slíka skóla.

Svarið við fsp. er sem sagt þetta, að það hefur ekki verið unnið beint að stofnun sérstakra skóla í þá stefnu sem lagagr. þó vissulega mælir fyrir um. Ég vil bæta því við að þessi mál verða tekin til rækilegrar athugunar og verður m. a. leitað leiða til þess að örva ungt fólk til þátttöku í námi sem þjónar framleiðsluatvinnuvegunum, líkt og það nám sem stundað er í Fiskvinnsluskólanum. M. a. verður reynt að örva til þess með stofnun námsbrauta í gegnum starfsfræðslu og á annan hátt að hvetja fólk til þátttöku í slíku námi.