18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

330. mál, símaafgreiðsla vegna brunavarna, læknisþjónustu og löggæslu

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af fsp. hv. 5. þm. Norðurl. v. á þskj. 311 vil ég geta þess, að ég fékk fyrst upplýsingar frá póst- og símamálastjóra um þetta mál, en óskaði svo eftir því að fá aðrar upplýsingar sem beint snertu fsp. og skal lesa það svar, en það barst mér nú í dag:

„Skv. ósk samgrh. hefur verið gerð athugun á kostnaðarauka umfram það sem nú er vegna hugsanlegrar sólarhringsþjónustu handvirku símaafgreiðslunnar á Sauðárkróki, en þar annast sjúkrahúsið nú hina svokölluðu neyðarþjónustu. Handvirka símaafgreiðslan á Sauðárkróki er á virkum dögum opin frá 9–21 og á helgum dögum frá 11–17. Ef starfrækja ætti handvirka símaþjónustu allan sólarhringinn á Sauðárkróki þyrfti að auka við starfsliðið og er þá áætlað að útgjöld vegna slíkrar viðbótar mundu nema um 2.5 millj. kr. á ári. Er þá tekið tillit til álagstíma, aukavakta, orlofs, veikindaforfalla og launatengdra gjalda. Þá skal á það bent, að verði sólarhringsþjónusta á Sauðárkróki tekin upp er viðbúið að aðrir staðir sigli í kjölfar þess.“

Út af þessu svari vil ég geta þess, að ég mun leggja fyrir póst- og símamálastjóra að athuga um einhverja fleiri staði þar sem nauðsynlegt er að taka upp slíka þjónustu. Geri ég því ráð fyrir að áður en að langur tími líði verði ákvörðun tekin um að þessi þjónusta verði tekin upp á Sauðárkróki og einum þrem stöðum til viðbótar, þannig að í þetta færu ca. 10 millj. kr. á þessu ári. Ég verð hins vegar að segja það, að það þýðir auðvitað að úr öðrum útgjöldum, t. d. í sambandi við framkvæmdir, verður að draga. En ég mun láta gera áætlun um að koma þessari þjónustu á um landið á hæfilegu árabili sem reynslan sýnir þegar málið í heild verður skoðað.