20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Af sérstökum ástæðum bar svo til ár eftir ár og árum saman að ég átti langar dvalarstundir í þessu húsi. Ég minnist þess tvö ár í röð 40 nætur og 40 daga og þá var tómstundaiðjan jafnan sú að glugga í gömul þingtíðindi sem voru í Framsóknarherberginu sem var aðaldvalarstaðurinn. Það kom í ljós að skæklatogið vegna vegaframkvæmda í landinu var mest áberandi í þingtíðindum allra alda ef svo má orða það. Með ólíkindum var að lesa þær ræður sem menn settu á þá þegar þeir voru að þrætast á um vegaframkvæmdir, þar sem hver og einn að sjálfsögðu hélt fram hlut síns umdæmis og kjördæmis, en þau voru töluvert fleiri þá en nú. Ég minnist þess og ég hygg að ég fari rétt með að fyrirrennari hv. 4. þm. Austurl. — hans nafn verður ekki nefnt, enda látinn og merkur maður á sinni tíð — ég hygg að það hafi verið 1916 sem hann mælti harkalega gegn tillögum eða áformum um vegagerð yfir Holtavörðuheiði, akveg yfir Holtavörðuheiði, og kvað mönnum nær að líta til hinna einstöku sveita og gera þar sæmilega kerruvegi svo að menn gætu komist með kartöflur sínar í kaupstað og sótt kol þangað. Síðan breytast viðhorfin, en löngum og löngum er mér nær að halda að svo hafi mátt segja að vegakerfið og lagning þess hafi farið nokkurn veginn eftir hálfbiluðu taugakerfi þm. Staðreynd mun það vera að svo fast var á þetta sótt og svo óhagkvæmilega að þessu staðið að stundum hafi verið dýrara að flytja tækin milli vegarspottanna heldur en að leggja þá. Og nú sjá menn þegar hér liggur fyrir frv. frá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, hv. 4. þm. Norðurl. v., og fleirum um fjáröflunarleið til vegagerðar, þá kemur þm. eftir þm. og setur á gríðarlegar tölur um hina brýnu nauðsyn sem sé á framkvæmdum. Að vísu láta þeir þess getið í leiðinni að þeir hafi heildaryfirsýn yfir málið, en enda þó ævinlega á því að horfa til smáspottanna heima hjá sér eða í sínu kjördæmi.

Þessi till. er auðvitað góðra gjalda verð, þetta frv. til l. sem hér liggur fyrir til 1. umr. Þetta er í framhaldi af því að sú fjáröflun, sem efnt var til vegna byggingar brúa og vegarlagningar í Austur-Skaftafellssýslu, gaf ágæta raun, og síðan er framhald af því útboð happdrættisskuldabréfa vegna Djúpvegar. Menn hafa varað við að þetta kynni að hafa sína ókosti, og það kann að vera. Þá þarf að reyna á það. En ég fæ ekki betur séð en a.m.k. hingað til og jafnvel þótt þetta yrði aukið verulega frá því sem nú er, þá sé þetta bæði mjög álitleg fjáröflunarleið og sparnaðarhvetjandi fyrir allan almenning. Og eitt er vist, að það er auðvitað undirstaða allra framkvæmda og alger forsenda að sé til sparifé til þess að standa undir þeim. Of mikið hefur verið gert að því á stundum að framkvæma á þessum tíma fyrir lánsfé, stórauknu lánsfé dælt út í fársjúkar fjármálaæðar efnahagslífsins með þeim afleiðingum sem menn hafa fyrir augum. Ég sé enga hættu í því fólgna að halda út á þessa braut á nýjan leik og í auknum mæli. Það kemur þá í ljós ef það yrði til þess að þrengja mjög hag á öðrum sviðum. En mér er til efs að það fé, sem fólk vill verja til þess arna, bæði af hugsjón vegna þeirra framkvæmda sem hér er verið að ráðast í og eins af vinningsvon, til að ávaxta fé sítt, — mér er til efs, að þetta fé yrði endilega sparað með öðrum hætti, ef þetta kæmi ekki til, ekki nema þá e.t.v. að litlum hluta.

Ég geri ráð fyrir því að það kunni að vera rétt að það, sem mest knýr á nú, sé lagning Norðurvegar, vestur og norður til Akureyrar. Um það get ég ekki dæmt, ég hef ekki nægjanlega þekkingu til þess. Það kann vel að vera að það sé rétt að byrja þar og leggja höfuðáhersluna á þann veg. En ég hef áður kynnt í blaðagrein nýlega hugmyndir mínar í þessu efni.

Ég hygg að við höfum sóað bæði fé og framkvæmdaafli um margra ára bil um of og í óþarfa af því að við höfum ekki gert nógu rækilega könnun og nógu yfirgripsmikla heildaráætlun um framkvæmdir í vegamálum, okkur mundi vinnast miklu betur með því að leggja stórt undir og gera heildaráætlun til langs tíma. Og auðvitað er þá það sem knýr mest á aðalvegurinn í kringum landið og svo í kringum Vestfirði að sjálfsögðu og þá er auðvitað Norðurvegurinn aðalkaflinn þar í. Ég hef ekkert á móti því að höfuðáhersla verði lögð á hann. En það, sem mér er mest í mun og er raunar með í undirbúningi, er að gerð verði áætlun, kostnaðaráætlun og framkvæmdaáætlun með tímamörkum. Það er kannske ekki höfuðatriðið hvort við setjum okkur það mark að ljúka vegi úr varanlegu efni hringinn í kringum landið og í kringum Vestfirði á 10 árum, 12 árum eða 16 árum. Kannske er það þýðingarmest að við sameinumst um það að gera um þetta heildaráætlun og vinna eftir henni því að með þeim hætti mun okkur áreiðanlega vinnast langsamlega best og ódýrast og skjótast. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Þess vegna er það eins og ég lét getið í grein minni, þá mun fljótlega kynnt hér og lögð fyrir tillögugerð, þar sem einvörðungu verður lagt til að ríkisstj. hlutist til um að Vegagerðin og þeir menn, sem hún vildi kalla til, geri heildaráætlun um lagningu hringvegar um landið og um Vestfirði úr varanlegu efni, kostnaðaráætlun, og tímasetji framkvæmdirnar.

Nú er mér ljóst að á þessum tímum þarf auðvitað að líta sérstaklega til þess að keppa ekki við atvinnuvegi landsins og sérstaklega að hið opinbera geri það ekki, keppi ekki um vinnuaflið, og enn fremur að það verið að líta til allra átta um það að verja ekki stórauknu fé sem mundi valda bæði aukinni eftirspurn eftir vinnuafli og svo þenslu á öllum sviðum. En að þessari framkvæmd mætti að minni hyggju standa með þeim hætti að slíkt mætti forðast og á hinn bóginn mundi hún strax verða stórlega til sparnaðar, ég tala nú ekki um varðandi brennsluefni, eins og bensín og olíur, og slit á flutningatækjum okkar. Ég lét þess líka getið og vil gjarnan að það komi fram hér að ég hef þá hugmynd að við þurfum að leggja aukna áherslu á það í framtíðinni að nýta þá orku og þær orkulindir, sem okkur eru nærtækastar, vatnsorkuna, að um leið sé rannsakað hvaða tök verði á því að gera jafnhliða áætlun um lagningu slíks vegar áætlun um að við knýjum a.m.k. þungaflutningatæki framtíðarinnar með raforku. Á því eru öll tök tæknilega, eins og menn vita.

Ég vildi láta þetta koma fram í umr. um þetta mál, en sú tillögugerð er engan veginn til tálmunar því að þetta frv. eigi rétt á að ná fram að ganga. Eftir þeirri grg., sem frv. fylgir, sýnist mér eindregið að allt mæli með því að það fái sem skjótastan framgang. Við höfum séð hvað góða raun þessi aðferð um öflun fjár hefur gefið. Það er þó ljóst að á þessu eru auðvitað takmörk. Við þurfum jafnhliða að leggja niður fyrir okkur, þegar stærra verður lagt undir við lagningu vegar úr varanlegu efni, að afla til þess fjár með öðrum hætti, með lánum til langs tíma og innlendri fjáröflun, því að allt á sín takmörk og einnig sú aðferð sem hér er lagt til að viðhöfð verði um fjáröflunina og ég er alfarið fylgjandi.