18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

185. mál, vinnutími sjómanna

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Hinn 16. maí 1972 var samþ. hér á Alþ. svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa n., sem í eiga sæti m. a. fulltrúar sjómanna og útvegsmanna, til að athuga möguleika á lagasetningu um vinnutíma og orlof fiskimanna.“

Um það leyti sem þetta var til umr. hér á Alþingi var verið að lögfesta sem aðalreglu 40 stunda vinnuviku hjá allfjölmennum stéttum í þjóðfélaginu. Áður höfðu einstakar stéttir áunnið sér slíkt í gegnum kjarabaráttu og samninga. Þáltill. þessi var flutt til þess að koma á hreyfingu í þá átt að sjómenn, sem kannske hafa hvað lengstan vinnutíma allra stétta, gætu eygt þann möguleika að komið yrði til móts við þá með hliðsjón af því sem gerst hafði varðandi aðrar stéttir í þjóðfélaginu.

Eins og ég áður sagði var þessi þáltill. samþ. 16. maí 1972. Það fer því að nálgast þriggja ára tímabil frá því að hún var samþ. Mér þótti því tími til kominn að spyrjast fyrir um það hjá viðkomandi hæstv. ráðh. hvað í máli þessu hefði gerst. Ég leyfi mér því að bera fram fsp. á þskj. 358 til hæstv. félmrh., svo hljóðandi:

„1. Hefur n. sú, sem þál. sem samþ. var á Alþ. 16. maí 1972, um vinnutíma sjómanna, gerði ráð fyrir að skipa, starfað?

2. Ef svo er, hvenær má þá vænta niðurstöðu af störfum hennar?“

Ég held ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þessa fsp., hún skýrir sig að öllu leyti sjálf. Tilgangur hennar er sá og sá einn að fá það upplýst hvað gerst hefur í þessu mikilsverða máli. Það er augljóst að sjómannastéttin mun vart una því öllu lengur að þurfa að vinna langtum lengri vinnutíma en nokkur önnur stétt í þjóðfélaginu. Það er því tími til kominn að reynt verði að koma til móts við sjómannastéttina og málum skipað þann veg að hún geti tiltölulega vel við unað.