18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm., sem hér var að ljúka máli sínu, hefur nú flutt langa ræðu. Hann hefur lýst þeirri skoðun sinni að sú till., sem hér liggur fyrir, sé ekki aldeilis nein aðför að eignarréttinum, það sé ekki gert ráð fyrir því að taka land af einum eða neinum, það sé einungis gert ráð fyrir því að landið verði í eigu þjóðarinnar, eins og hann kallar það, með þeim hætti sem almenningur á Íslandi hefur talið sig eiga það um aldaraðir samkv. venjulegri réttlætiskennd. Ég verð að biðja hv. þm. velvirðingar á því að ég átta mig ekki nægilega vel á því, hvað hann meinar í sinni ræðu þegar hann segir að eignarréttur eigi að fara að réttlætiskennd almennings. Hvaða almenningur er það, sem á að dæma í slíkum málum, og eiga einstaklingar, sveitarfélög og samtök sveitarfélaga, þ. e. upprekstrarfélögin, að lúta því sem einhverjir tilteknir aðilar telja vera réttlætiskennd sína í sambandi við eignarráð á landinu? Þetta var svo þokukennt og óljóst hjá hv. þm. að ég verð að viðurkenna það að ég veit ekki hvar hann stendur. Eitt er víst að ég fékk ekki áttað mig á því að hann stæði föstum fótum á jörðinni.

Til þess að átta sig á því, hvort hér sé um einhverja aðför að eignarrétti að ræða eða ekki, þá held ég að sé einfaldast að lesa 2. mgr. tillgr., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj., að hún láti sérfróða menn semja frv. eða frv. að l. um eignarráð og eignarréttindi þjóðarinnar yfir byggðu landi og óbyggðu, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu, sem ekki eru þegar í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Glöggt verði kveðið á, hvernig landareign og landnytjar færist úr einkaeign í eign ríkisins og hvernig bætur skuli reiknast fyrir.“

Ég held að hvað sem orðum hv. þm. líður, þá verði því ekki leynt að tilgangur þessarar till. er að færa eignaryfirráð yfir landi, gögnum þess og gæðum, úr höndum einstaklinga í eigu ríkisins og e. t. v. sumpart í eigu sveitarfélaga. En hv. flm. till. virðast líta svo á, að með því að koma landi í eigu sveitarfélaganna, sé það orðið að þjóðareign. Nú er rétt að átta sig á því hvernig þessu er varið eins og sakir standa. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur svarið af sér að hann eða þeir flm. till. vilji með nokkrum hætti koma í veg fyrir að bændur eigi sínar bújarðir og geti átt þær svo lengi sem þeir kjósa. Látum það gott heita og er vissulega vert að þakka það að hv. þm. skuli hafa tekið svo afdráttarlausa afstöðu um það efni. Í landinn eru nú 800–900 jarðir í ríkiseign. Aðrar jarðir eru flestar í eigu einstaklinga, flestar í eigu bænda sjálfra, nokkrar í eigu annarra einstaklinga og örfáar í eigu sveitarfélaga. Hálendi landsins er að meginhluta til í eigu sveitarfélaga. Ekki þarf því neinar breytingar þar á ef eign sveitarfélaga er sama og þjóðareign — eða hvað? Líklega ekki. Sveitarfélögin, ýmist hvert út af fyrir sig eða nokkur saman, eiga hálendið, afréttarlöndin, þ. e. a. s. upprekstrarfélögin sem mynduð eru af einu eða fleiri sveitarfélögum. Bændur landsins eiga ásamt bújörðum sínum árnar, veiðivötnin sem talað er um, bæði rennandi vötn og stöðuvötn, og þessi veiðivötn hafa til þessa verið talin óaðskiljanlegur hluti bújarðanna. Í engum lögum er að því vikið að greina þarna á milli.

Ekki varð þó annað skilið á hv. 8. landsk. þm. en hann vildi a. m. k. taka þennan hluta af bújörðunum og gera að hinni svokölluðu þjóðareign. Ég lýsti því í ræðu fyrir nokkrum dögum að ég liti svo á að með þessu háttarlagi, ef þessi regla yrði tekin upp, þá yrði stefnt í öfuga átt fremur en rétta, líka með tillíti til þess að ef t. d. veiðiárnar væru komnar í eigu ríkisins, þá yrði væntanlega einhver tiltekin stjórnarráðsskrifstofa hér í Reykjavík sem úthlutaði veiðileyfum til landslýðsins. Ég trúi því ekki, og ég efast um að það séu margir á hv. Alþ. eða annars staðar sem trúa því, að ráðstöfun þessara verðmæta yrði í betra lagi í höndum einhverrar opinberrar stjórnarráðsskrifstofu heldur en eins og þessu er háttað í dag með ráðstöfun á veiðirétti af hálfu veiðifélaganna. Ég a. m. k. trúi því ekki. Í þessum ræðustól hefur stundum verið að því vikið að ráðstöfun opinberra aðila á tilteknum verðmætum, bæði veiðirétti og landi í opinberri eigu, hafi ekki alltaf verið með þeim hætti sem best hefði verið á kosið. Ég ætla ekki að fara hér með neinar aðdróttanir um það efni, en ég trúi því ekki að þessi mál væru í betra lagi í höndum opinberra aðila heldur en þeirra sem nú fara með þessi mál.

Hv. 8. landsk. þm. gerði mikið úr því, að jarðvarmi, fallvötn til vatnsvirkjana og náma ýmiss konar væru í einstökum tilvikum í höndum og eigu einstaklinga. Ef talið er að almenningsheill krefji að nauðsynlegt sé að nýta þessi verðmæti til almenningsheilla, þá er sú leið opin að taka þessi verðmæti eignarnámi. Og það er sjálfsagt að gera það ef samningar nást ekki. Það er sjálfsagt að gera það og til þess þarf alls ekki þjóðnýtingu landsins alls, heldur er hvenær sem er hægt að fara þá leið, sem íslensk lög heimila nú í dag og er í samræmi við íslenska stjórnarskrá. Þess vegna er algerlega óþarft að semja lög, eins og er gert ráð fyrir ef till. þessi yrði samþ., sem kveða svo á að landið allt verði þjóðnýtt.

Ég vil gjarnan taka það fram ítarlegar en ég gerði í ræðu minni hér fyrir fáum dögum af tilefni, sem gáfust í þeim umr. og einnig að nokkru nú, að almenningur á Íslandi, það fólk sem býr bæði í þéttbýli og strjálbýli, þarf að eiga greiðan aðgang að landi þar sem það getur komist í nána snertingu við náttúruna, notið hollrar návistar við hana, dvalið sér til hvíldar og hressingar og sótt þangað nýjan þrótt og hvíld sem það trauðla getur fengið annars staðar. Þetta verður best gert með þeim hætti að jafnvel í hverju héraði verði opnuð útivistarsvæði, sem almenningi úr borg og byggð séu opin og frjáls. Ég lít svo á að þessu væri best komið fyrir á þann veg að þessi útivistarsvæði væru í eigu héraðsbúa sjálfra í hverju héraði fyrir sig.

Ég vil leggja mikla áherslu á þessa skoðun mína og ég get vel tekið undir það að þessi efni eru ekki nægilega skipulögð enn í dag og þyrfti að ráða bót á, a. m. k. í sumum landshlutum. Hins vegar neita ég því að land, sem er í eigu bænda, sé yfirleitt lokað almenningi með þeim hætti sem virtist koma fram hjá ræðumönnum fyrir nokkrum dögum, að þeir synjuðu þar yfirleitt um yfirferð og að almenningur kæmi þar að lokuðum hliðum. Þetta þekki ég a. m. k. ekki.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess fyrir mig að ítreka mikið mín sjónarmið í sambandi við það hvernig best sé komið fyrir eignarráðum á landinu. Ég tel tvímælalaust að svo best þrífist landbúnaðurinn að jarðir séu í sjálfseignarábúð í sem allra ríkustum mæli, að afréttirnar séu ekki skildar frá jörðunum, að veiðiárnar eða veiðivötnin séu ekki skilin frá jörðum sem eru óaðskiljanlegur hluti af eftir gildandi lögum, og ég tel að í þessu skipulagi sé fólgin kjölfesta landbúnaðarins. Ég tel líka að ef sumt af þessum landsréttindum væri tekið af bændunum og skilið frá bújörðunum, eins og helst mátti skilja á hv. síðasta ræðumanni, þá mundi það þýða að dregin væri burst úr nefi bóndans og af því mundi aftur stafa að hann þyrfti að fá eitthvað í sinn hlut í staðinn, væntanlega þá í hækkuðu búvöruverði ef ekki kæmi annað til. Þessi mál verður að líta á öll í samhengi, og ég tel að sú reynsla, sem fengist hefur af ríkiseign á jörðum og ríkiseign á landi yfir höfuð, sé ekki talandi dæmi um að það yrði stefnt í rétta átt með þeirri till. sem hér er á dagskrá. Það er síður en svo. Þau dæmi eru mörg sem sýna, að ef auka ætti á það skipulag, þá yrði það til hinna mestu óheilla.

Hv. 8. landsk. þm. minntist á það að víða á landinu væri ofbeit og Alþ. hefði á hátíðarfundi samþ. verulega fjárveitingu til þess, eins og hann orðaði það, að bæta fyrir þau mistök sem hefðu orðið í samþandi við meðferð landsins. Hann taldi einnig að með þessu væri gefið undir fótinn um það, að úr því að þjóðin legði þarna fram nokkurt fé, þá ætti þjóðin að eiga allt landið. Ég ætla ekki að gera fleiri aths. við þetta í sambandi við eignarráðin. En ég lít svo til að nú sé allt í nokkurri óvissu um hvort betur yrði með landið farið þótt það kæmist í eign opinberra aðila. Ég a. m. k. hef skilið það svo — og átti ég sæti í þeirri n. sem fjallaði um þessa tilteknu till., sem leiddi til samþykktar þjóðargjafarinnar, og hef í þeirri n. átt viðtöl við forystumenn sveitarfélaga og forráðamenn bændasamtaka um land allt, — þá hef ég litið svo til að óvíða væri kannske verr farið með land heldur en þar sem það er í opinberri eigu og ekki þó síst þar sem það er í eigu þéttbýlissveitarfélaga.

Ég held að það væri kannske hv. 8. landsk. þm. hollt, áður en hann fer að ræða um þessi mál af vandlætingu, að hann kynnti sér eitthvað hvernig þessi mál horfa við. Ég lít svo til að það sé e. t. v. óvíða sem sjái meira á landi heldur en hér í grennd þéttbýlisins við Faxaflóa. Og þó hefur byggð bændanna verið að grisjast á þessu svæði um áratugi. Það er ekki af þeim rótum runnið að bændurnir hafi ofnýtt þetta land. Það eru einhverjar aðrar orsakir sem til liggja. E. t. v. eru þær orsakir að verulegu leyti þær, að þau þéttbýlissveitarfélög, sem hér liggja og eiga takmarkað land, nýta það land meira en góðu hófi gegnir og búpeningur, sem er í eigu fólks í þessum þéttbýlissveitarfélögum, sinnir auðvitað ekki landamerkjum, þegar ekki er girt, og flæðir yfir stærra landssvæði. Ég hygg að það væri hollt fyrir hv. 8. landsk. þm. að kynna sér hvernig er ástatt með nýtingu landsins hér austur um og austur í Grafning, austur í Ölfus og hann ætti að renna grun í að byggð bændanna hefur verið að þoka á þessu landssvæði. Það er eitthvað annað, sem er að yrja upp landið á þessu svæði. Ég held sem sagt að það sé ekki alltaf víst þó að landssvæði og þar með talin beitilöndin og afréttarlöndin kæmust í eigu annarra en bænda, þ. e. a. s. í eigu opinberra aðila, stærri sveitarfélaga og ríkisins, að þá er síður en svo að það sé trygging fyrir því að betur yrði með það farið. Auk þess er mjög umdeilanlegt hvað ofbeit er mikil á tilteknum landssvæðum. Það mál skal ég ekki fara langt út i, það er allt of langt til þess að ræða hér, en þar hafa auðvitað fleiri öfl að verki staðið að eyða gróðurlendi landsins en búpeningurinn. Það er vitaskuld veðurfarið, það eru náttúruhamfarir og það eru jarðeldar og vatnsföll. Allt þetta hefur átt sinn mikla þátt í að eyða gróðri landsins og miklu meiri en menn almennt vilja láta í veðri vaka.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson taldi sig ljóstra upp mjög merkilegu leyndarmáli sem tiltekinn fiskifræðingur hafði komist að fyrir 2–3 árum, sem sé að veiðivötnin, þ. e. stöðuvötnin fyrst og fremst, væru með þeim ólíkindum að það þyrfti að veiða í þeim mikið magn fisks til þess að fiskurinn gæti þrifist í vatninu. Þetta hafa auðvitað bændur landsins vitað um frá ómunatíð, að veiðivatn þarf að nytja til þess að þar geti þrifist veiði. Bændur landsins hafa einnig vitað frá ómunatíð, að svo best verður ósigkomulag landsins að það sé nýtt að hæfilegu marki. Þetta er engin ný bóla. Þó að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi öðlast þessa visku í gær eða fyrradag, þá er þetta hreint ekkert nýtt fyrir þeim sem hafa nýtt þetta land frá aldaöðli.

Ég vil gjarnan skjóta hér inn í vegna þess að tilefni gafst til frá hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir nokkrum dögum í umr. um þetta mál, þar sem hann taldi, að till, þessi væri þáttur í þeirri árás sem landbúnaðurinn hefði orðið fyrir um þessar mundir, en þungamiðja þeirrar árásar væri þó þau skrif sem birst hefðu í dagblaðinu Vísi á undanförnum mánuðum um landbúnaðarmál. Ég tel ástæðulaust að draga úr því, að hér sé um árás á landbúnaðinn að ræða. Hins vegar vil ég vekja á því athygli, að sú landbúnaðarstefna, sem fylgt er í dag og fylgt hefur verið á undanförnum árum allmörgum, er að mjög verulegu leyti mótuð af Sjálfstfl. og á rætur sínar að rekja til ákvarðana sem Sjálfstfl. hefur tekið. Þau skrif, sem hv. þm. minntist á, fara í bága við þessa stefnu, þau fara í bága við stefnu Sjálfstfl., því að stefnu hans í landbúnaðarmálum hefur ekki verið breytt. Ég vil gjarnan af þessu tilefni láta þetta koma fram.

Hv. 8. landsk. þm. vitnaði í ræðu mína hér fyrir nokkrum dögum og hagræddi eitthvað orðum, sem honum er auðvitað velkomið. Hann ræður sínum vinnubrögðum. Hann taldi að ég hefði m. a. spurt, af hverju þessi till. væri flutt, og ég hefði talið að það væri áhættusamt að hafa svona till. lengi til meðferðar því að fleiri og fleiri mundu safnast um hana og henni mundi vaxa fylgi. Nú vil ég í fyrsta lagi taka fram, að það er auðvitað enginn mælikvarði á gæði máls þó að því ljái nokkrir menn fylgi. Sjónarmið og aðstæður manna eru það mismunandi að það er ekki algildur mælikvarði á gæði máls eða hvað það er réttlátt. En vegna þess að hv. þm. var að margítreka það, hvað hann taldi sig hafa eftir mér, þá held ég að ég lesi hér 2–3 málsgr. úr lokum ræðu minnar, sem um þetta fjölluðu, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo:

„Ýmsir hafa velt því fyrir sér á þessum árum, sem liðin eru frá því að hv. þm. Alþfl. hófu að flytja till. af þessu tagi, hvað fyrir þeim vakir. Sumir halda því fram að þeir séu einungis að dusta rykið af gömlum sósíalistískum stefnuskráratriðum til þess að sanna að þeir séu vinstri flokkur, til þess að koma þeirri hugsun á framfæri að þeir séu róttækur flokkur, kannske róttækari en aðrir flokkar á Íslandi. Aðrir halda, að hér sé einungis um að ræða heldur ómerkilegt áróðursplagg sem þeir séu að veifa framan í þjóðina ár eftir ár af því að þeir telji sér það hagkvæmt fyrir vissan hluta fólks og það gæti e. t. v. orðið til þess að einhverjir glepjist til fylgis við þá af þeim orsökum.“

Enn segir í þessari ræðu minni:

„Ég held, að þessi síðari tilgáta sé ekki fjarri lagi, ef litið er á framvindu þessa máls á hv. Alþ. bæði fyrr og nú. Till. þessi hefur ekki hlotið afgreiðslu Alþ., til þessa. Þess hefur ekki orðið vart, svo að ég viti, að hv. flm. till. hafi ýtt þar mikið á eftir. Ég spurði um það hjá skrifstofu Alþ. hvort fulltrúi Alþfl, í þeirri hv. þn., sem þetta mál fékk til meðferðar á síðasta Alþ., hefði skilað áliti. Svo var ekki. Nál. hefur ekki verið skilað af stuðningsmönnum þessarar till. Till. nú var flutt snemma á yfirstandandi Alþ., löngu fyrir jól. 6. mars er fyrst mælt fyrir þessari till. Hefur hún þó lengi staðið í efstu röð á dagskrá Sþ., þess fundar er fjallar um till. til þál. Það er því a. m. k. ekki fast eftir því gengið af flm. till. að ýta henni áfram eða koma henni til afgreiðslu.“

Enn segir í þessari ræðu minni:

„Ég vil aðeins ýta á eftir því fyrir flm. að þessi till. hljóti nú afgreiðslu. Ég held að það sé ekkert við það unnið að vera að veifa þessu framan í landslýðinn ár eftir ár, þing eftir þing, án þess að taka það einu sinni til formlegrar og endanlegrar afgreiðslu á Alþ. Þess vegna skora ég á hv. þn., sem fær þetta mál til meðferðar, að skila fljótt og vel áliti um það og taka það til afgreiðslu. Ég hef það traust á hinu háa Alþ. að ég efast ekki um hver sú afgreiðsla verður.“

Þannig hljóðaði þessi kafli í ræðu minni frá því 6. mars og hv. 8. landsk. þm. hefði verið í lófa lagið að fá handrit að henni áður en hann fór að vitna í þennan kafla, því að búið var að vélrita ræðuna. En hann kaus heldur að hafa þann háttinn á að snúa þar ýmsu við eða eins og segir í Njálu: „Um sagnir allar ballaði hann mjög til, en ló frá víða.“