18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Þetta mál er það stórt mál að maður ætti að koma verulega vel undirbúinn. Ég verð að játa að ég er það ekki. En við umr. fyrr í dag fannst mér koma svo margt skrýtið og jafnframt skemmtilegt fram að ég fæ ekki orða bundist. En ég skal lofa því að vera ekki langorð, enda hef ég ekki neitt stórt né afgerandi til þessa máls að leggja eins og það stendur í dag.

Það var óvenjuleg og skemmtileg reynsla að heyra tvo gallharða sósíalista stíga hér í stólinn á hv. Alþ. og verja af miklum krafti eignarrétt einstaklingsins, enda þótt þeir létu í það skína báðir tveir, — hv. 7. landsk., að vísu bæði bóndi og landeigandi og líklega brot af kapítalista um leið, og hinn lagsbróðir hans, hv. 5. þm. Norðurl. e., lýstu því yfir að afstaða þeirra kynni að breytast í fyllingu tímans þegar að tími væri til kominn að sósíalisera Ísland og þjóðnýta landeignir og aðrar eignir landsmanna. Þetta var nú allt gott og blessað og skemmtilegt að heyra þetta af munni þessara tveggja ágætu samþm. Hins vegar þótti mér í aðra röndina skemmtilegt og næsta merkilegt að hlýða á málflutning hv. 8. landsk., Sighvats Björgvinssonar, þar sem hann í alllöngu máli, — ég hygg að það hafi verið allt að klukkutíma sem hann talaði og mál hans gekk að mestu leyti út á það að rembast við að afsanna innihald till. Það fékk engum dulist sem hefur lesið till. eins og hún liggur fyrir, þar sem bæði í upphafi og endi er tekið fram að allar landeignir skuli smátt og smátt færa í eign ríkisins. Við höfum allir þm. þessa till. fyrir augunum. Ég get ekki stillt mig um samt að lesa upphafið og endinn, en það hljóðar á þessa leið — með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að stefnt skuli að því að allt land verði alþjóðareign.“

Og endirinn:

„Glöggt verði kveðið á hvernig landareign og landnytjar færist úr einkaeign í eigu ríkisins og hvernig bætur skuli reikna fyrir.“

Ég sé ekki að þarna sé um annað að ræða en þjóðnýtingu allra landeigna á Íslandi, enda þótt meiri hl. ræðu hv. 8. landsk. gengi út á það að reyna að sannfæra okkur aðra þm. um að ekkert væri honum fjarri skapi en að taka jarðir af bændum. Þarna er um dálítið kátlega þversögn og mótsagnir að ræða í málflutningi hv. þm.

Það ætti að sýnast sem svo að þessi þáltill. væri vandlega ígrunduð, því að það er heill og óskiptur þingfl. sem að henni stendur. En mér sýnist nú harla augljóst, af till. og grg. og málflutningi frsm. í dag, Sighvats Björgvinssonar, að á ýmsum sviðum eru þessir flm. betur heima heldur en í landbúnaði. Það er vitað mál að enginn þessara manna hefur nálægt búskap komið og hugarfar bóndans er þeim öllum greinilega mjög fjarlægt. Það er nefnilega svo að í þessu máli sem öðru getum við ekki litið aðeins á hina hagrænu hlið málsins. Það er til nokkuð sem heitir, að ég hygg, sálfræði bóndans og ég heyrði ekki betur en það lýsti sér átakanlegt þekkingar- og skilningsleysi á viðhorfum og aðstæðum bænda, eins og málflutningur hv. 8. landsk. var úr garði gerður. Ég hugsa e. t. v. að þessi hv. samþm. minn hafi verið sem drengur kúasmali í sveit, en ég get ekki ímyndað mér að þekking hans á landbúnaði nái öllu lengra. (Gripið fram í.) Já, höfðinu vonandi líka, vildi ég nú ætla. En það er fleira en bústarf, afrakstur búa og hagfræðilegar tölur sem koma hér inn í dæmið. Það kemur hér inn í svo að ekki verður um villst fyrir þá sem þekkja til sveitalífs og búskapar, að þar kemur inn í ást og tryggð við sitt jarðnæði, við sitt umhverfi. Þetta er þáttur sem er alls ekki tekinn til greina í þessari till. og grg. sem henni fylgir. Ég hygg að eitt það, sem hefur gert að verkum að margir íslenskir bændur hafa við erfiðar aðstæður þraukað í gegnum þykkt og þunnt, sé einmitt þessi átthagatryggð sem hefur, eins og ég gaf í skyn, varnað því að heilir landshlutar hafi lagst í eyði,

Ég vil í þessu sambandi segja litla sögu af bónda fyrir vestan. Þetta er smábóndi sem sennilega mundi vera kallaður kotbóndi af þessum stóru hér fyrir sunnan og víða þar sem stórt er búið. Hann taldi fram til skatts og yfirskattstjórinn í hans skattumdæmi bar brigður að þetta gæti verið nokkuð nálægt sanni, maðurinn gæti ekki lifað af þessu sem hann taldi fram til tekna. Bóndinn hafði fá orð um, en fór á fund yfirskattstjórans og sagði: „Hér er ég kominn til þess að sýna að ég er lifandi.“ Þetta var ósköp einfalt allt. Það sýnir okkur í rauninni það sem við vitum, að íslenskir bændur, þeir sem hafa búið smátt, hafa umfram aðra íslendinga á síðustu árum sýnt nægjusemi, sparneytni og óbrenglaðra mat á verðmætum en gerst hefur víða þar sem þéttbýlla er. Þessi maður barst ekki á og ég veit hvernig hann býr sínu búi. Það er allt smátt í sniðum. Hann býr þar með konu sinni og tveimur börnum og hann er ánægður. Hann er ánægður þó að hann hafi hvorki rafmagn né önnur þau þægindi sem þéttbýlismönnum þykja sjálfsögð.

Samkv. þessari till. er það ljóst að óðalsbóndinn í íslensku þjóðlífi á að hverfa. Óðalsbóndinn á að hverfa, það á að vera leiguliðabúskapur um Ísland allt. En það er nú svo að eignarréttur á jörðinni er meira en hagfræðilegt atriði. Ég vil í þessu sambandi minna á það sem við höfum oft heyrt talað um þegar rætt er um samyrkjusystemið þeirra í Sovétríkjunum, að þar hefur það verið reynt — nú þekki ég ekki vel inn á kerfið í Sovétríkjunum svo að ég skal ekki hætta mér mjög langt út í þá sálma — en maður hefur heyrt og séð og lesið að þar tíðkast sums staðar a. m. k. að samyrkjubændunum er úthlutaður lítill skiki sem þeir mega yrkja og nýta að eigin vild í frístundum, og það hefur vakið nokkra undrun hve mikið þessi litli sjálfseignarskiki hefur gefið í arð, hlutfallslega margfalt meiri arð en af stóra, fullkomna, vélvædda samyrkjubúinu. Þetta sýnir okkur aðeins að eignarrétturinn er manninum heilagt atriði í sambandi við hans lífsbaráttu og það er íslenska bóndanum ákaflega mikil stoð að hafa það á tilfinningunni að hann heldur áfram starfi sem forfeður hans í kannske margar kynslóðir hafa lagt grundvöllinn að á undan honum. Honum þykir vænt um sína föðurleifð. Hann setur sitt stolt í að hlúa að henni og bæta hana og hans tilfinningar gagnvart hans jarðnæði eru vitanlega gjörólíkar tilfinningum og viðhorfi leiguliðans sem aðeins er að fá sem mestan arð af sínu jarðnæði.

Það er vitað mál að hugur þessa litla flokks, Alþfl., hefur verið heldur neikvæður í garð bænda, og ég hygg að þessi till. muni engan veginn bæta fyrir þeim í því efni um álit þjóðarinnar á þessum flokki hvað snertir viðhorf hans í garð landbúnaðar. Það stendur skýrum stöfum að hagsmunir fjöldans eigi að ganga fyrir hagsmunum fárra, þ. e. a. s. — og kemur raunar engum á óvart — þessar 5 000 bændasálir í landinu hafa aldrei vænst mikils úr þessari átt sem talað var af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Það hefur oft og ítrekað verið á það bent og það verið staðhæft að litlu búin á Íslandi eigi engan rétt á sér, það eigi að leggja þau niður og taka upp stóran búrekstur. Ég hygg þó að það sé staðreynd að stærstu töpin í íslenskum landbúnaði hafi orðið á stóru búunum frekar en þeim smærri vegna þess einfaldlega að íslenskir smábændur gera minni kröfur sér til handa en þeir sem reka atvinnurekstur stærri í sniðum. Ég hygg að það að smábú og meðalbú fái að dafna í friði og með skaplegum stuðningi stjórnvalda sé afgerandi um það hvort allt Ísland á að haldast í byggð eða ekki, og það er spurning sem við þurfum hreinlega að gera upp við okkur, þegar talinn er eftir hver eyrir sem fer til bænda og búrekstrar, ekki síst í dreifbýlli héruðum landsins.

Hitt er svo annað mál að ég get tekið undir margt það sem kom fram í málflutningi hv. 8. landsk. Brask efnamanna úr þéttbýli úti um sveitir landsins er hlutur sem við þurfum að gjalda varhuga við, og ég veit ekki betur en að fyrir Alþ. í fyrra, þó að þess hafi ekki orðið vart nú, hafi legið frv. til jarðalaga sem mér skilst, þótt ég hafi ekki kynnt mér þetta frv. til hlítar, að eigi einmitt að slá þarna varnagla gegn því að jarðnæði sé keypt upp af þéttbýlisbúum til þess eins að eiga það og hafa gaman af því að dvelja þar á sumrin án þess að jörðin sé nýtt. Þetta er ákaflega viðamikið og merkilegt mál sem ég held að þurfi að vinna bráðan bug að því að laga. Og ýmislegt af því, sem hv. frsm. sagði um þetta og um nýtingu á fallvötnum og veiðiám og þar fram eftir götunum, ýmislegt er verulega athugunarvert og þarf aðgerða við. Hins vegar vil ég taka undir það sem hv. 7. landsk., Helgi F. Seljan, mælti, að þegar þessi landsgæði heyra til landbúnaðar beint og óvefengjanlega og heyra undir vissar bújarðir, er vitanlega sjálfsagt og ekkert annað en sjálfsagt að þar eigi bóndinn fullan rétt og ásælni og afskipti hins opinbera komi þar engan veginn til greina.

Það hefur verið talað hér um stirðlyndi bænda gagnvart þéttbýlisbúum sem hafa viljað njóta náttúrufegurðar og útiveru úti um landið. Það er vafalaust til, ég rengi það ekki. Ég hugsa að það sé eins með bændur og menn í öðrum stéttum, þeir eru ákaflega misjafnir. Sumir kunna að sýna þarna meinfýsni sem kemur mjög illa við fólk úr kaupstöðum og þéttbýli sem vissulega á rétt á að njóta landsins eins og hver annar íslendingur, þótt ekki séu bændur. En eins og kom fram hjá hv. þm. Helga F. Seljan, þá hafa þeir, sem í sveit búa, oft orðið varir við furðulegt tillitsleysi sem vafalaust stafar af hugsunarleysi og fáfræði fremur en illvilja og yfirgangi. Hann talaði um umgang ferðamanna jafnvel heima á bújörðum bænda — eða hvað hafa bændur ekki oft séð ferðamannahópa, fámennari eða fjölmennari, stika heim fullgróið tún sem bíður sláttar, þannig að grasið liggur í legum eftir og þarf helst væna regnskúr til að rétta sig upp aftur áður en ljánum eða sláttuvélarblaðinu er beitt á það eða fólk úr þéttbýli ösla upp tún þakið töðuflekkjum? Þarna er auðvitað ekki hægt að undra sig yfir þó að bændur gerist viðskotaillir við slíkum aðförum. En þetta skilja ekki Alþfl.-menn eins og þeir eru yfirleitt stemmdir, því að það er mála sannast að þeim er allra íslendinga, að ég hygg og eftir því sem mér hefur fundist af málflutningi þeirra fyrr og síðar, þá er þeim allra manna ósýnast um að setja sig í spor bænda, skilja viðhorf þeirra, tilfinningar og þarfir, ella mundi ekki þáltill. eins og þessi vera framkomin og fjöldamargt annað sem fyrr og síðar hefur verið sagt af mönnum úr þessum flokki, sem reikna má ýmist til fáfræði, þekkingarleysis eða á stundum einkennilegrar andúðar í garð þessarar stéttar.

Ég vil að lokum segja það, að ég hef ekki trú á því að það sé nokkur hætta á því að þessi till. nái fram að ganga. Mér finnst hún þannig úr garði gerð að eiginlega sé ekki mark á henni takandi. Hins vegar er manni og hlýtur að vera frjálst að segja sitt álit á henni. Og ég vil til viðbótar segja það, af því að ég tel þessa till. frekar miða gegn því sem við erum að burðast við að kalla byggðastefnu og viljum breyta í samræmi við þá stefnu, þá vil ég segja það að menn, sem meta allt í krónum og aurum sem lýtur að stuðningi við atvinnuvegi úti um landsbyggðina, það eru ekki raunsæir íslendingar að mínu mati. Ég hef oft og einatt lent í því, löngu áður en ég lenti hér inn á Alþ. íslendinga, að verja framkvæmdir sem mér hafa virst eðlilegar og sjálfsagðar. Ég get nefnt hér t. d. brú yfir á sem heitir Mórilla í Kaldalóni. Ég átti áratugum saman kappræður við samkennara mína við virta menntastofnun hér í borg um það að þessi brú ætti fullan rétt á sér. Þegar hún var byggð kostaði hún 2.5 millj. kr. og þótti óhæfilega stór fjárfúlga þar sem hún kæmi ekki að gagni nema einum 4–5 bændum utar á svokallaðri Snæfjallaströnd við Djúp. En Kaldalónsbrúin var byggð og hún stendur enn þó að hún hafi að vísu fokið einu sinni. Hún var reist við aftur. Og þarna úti á Snæfjallaströndinni búa enn bændur og þeim hefur frekar fjölgað nú alveg á síðustu árum. (Grípið fram í: Og ekki fokið.) Og ekki fokið. Þeir byggja á bjargi en ekki sandi þar. Og ég get nefnt það í leiðinni að þarna bast ákaflega fámennur sveitarhreppur samtökum um að byggja rafmagnsveitu, ég hygg eina þá fyrstu sinnar tegundar á Íslandi. Þarna kom einstaklingsframtakið fram í þarfri og happadrjúgri framkvæmd sem vafalaust á sinn þátt í því að bændur á utanverðri Snæfjallaströnd búa þar enn góðu lífi.

Ég vænti þess að menn, sem hafa í frammi aðra eins landeyðingarstefnu og kemur fram í máli þessara úrtölumanna um allt sem veit að búskap úti í hinum dreifðari byggðum landsins — ég vona og ég held að ég geti verið bjartsýn um það að þessar raddir eigi ekki lengur hljómgrunn meðal íslensku þjóðarinnar, jafnvel ekki hér á suðvesturhorninu.