18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. 9. landsk. þm., Sigurlaugu Bjarnadóttur um samyrkjubúskap í Sovétríkjunum. Ég hef aldrei verið kúasmali þar og veit ekkert hvernig kýr eru þar reknar, nema mér heyrðist á máli hennar að þær hljóti að vera reknar öfugar og get ég tekið það fyllilega trúanlegt. Hinu vil ég eindregið vara menn við, að telja bændum trú um að fátækt þeirra sumra hverra verði bætt með því að það sé við þá sagt að þeir eigi þó sínar jarðir. Hversu mikil stoð skyldi sú vitneskja vera þeim bónda sem hv. 9. landsk. ræddi um hér áðan og bjó við þægindaskort, fátækt, rafmagnsleysi, — hversu mikil stoð skyldi það vera honum í lífsbaráttunni að hv. 9. landsk. komi til hans og segi: Þú ert sjálfstæður maður, þú átt þína jörð? Hversu mikil stoð varð slíkt sjálfstæði Bjarti bónda í Sumarhúsum og hversu mikil stoð hefur slíkt sjálfstæði verið fjölmörgum íslenskum sveitabóndanum sem býr við fátækt og þægindaskort sem fáir aðrir landsins þegnar mundu una við? Ég er að vísu ekki alinn upp í sveit, en ég hef komið á marga bæl, m. a. bæi utan míns kjördæmis, eins og hv. 9. landsk. mun vita, og ég er alveg sannfærður um að það mun í fáum stéttum þjóðfélagsins vera jafnbreitt bil eins og einmitt í bændastéttinni vegna þess að þar held ég að megi enn finna þá sárustu fátækt sem hægt er að finna á Íslandi. Og hvaða stoð er það fátækum sveitabónda sem fer á mis við öll mannleg þægindi, öll lífsgæði sem aðrir landsins þegnar hafa notið um margra ára skeið, að hv. 9. landsk. komi til hans og segi: Þú átt þó þína jörð. Þú ert sjálfstæður maður.

Það má vel vera að það sé rétt stefna og sjálfsagt er það rétt stefna að við eigum að byggja landið allt. Við eigum að koma í veg fyrir að landið eða nokkurt landssvæði fari úr byggð. En hverju erum við reiðubúin að fórna fyrir það? Getum við fórnað t. d. ýmsum bændum á landinu, neytt þá til þess að búa við lakari kjör en aðrir þegnar þjóðfélagsins búa við, neytt þá til þess að verða af rafmagni, af útvarpi og sjónvarpi, af ýmsum lífsins þægindum sem við erum vanir hér í þéttbýli? Erum við reiðubúin að færa þessa fórn einungis til þess að geta sagt: Landið er allt í byggð? Erum við reiðubúin til þess að löggilda fátæktina meðal íslenskra bænda aðeins til þess að geta sagt og huggað okkur sjálf við að landið er þó allt í byggð? Væri ekki nær að reyna að rétta þessum fátæku bændum, sem hv. 9. landsk. ræddi um áðan, einhverja aðra huggun en þá að koma til þeirra og segja við þá: Þú ert þó sjálfstæður maður. Þú ert kóngur í þínu ríki. Þú átt þetta litla land.

Ég kemst ekki hjá að vekja athygli á því sem gerst hefur hér í dag, þegar eitt mesta stórmál sem komið hefur til kasta Alþ. og tvímælalaust það síðara tíma mál sem mest er í anda sósíalískra viðhorfa er rætt, þá hefur það loks gerst að Alþb. hefur rofið sína löngu þögn sem það hefur uppi haft um málið og tekið afstöðu gegn því með íhaldinu. Að vísu var fyrri ræðumaðurinn, hv. þm. Helgi F. Seljan, tvístígandi og fann málinu það helst til foráttu að í grg. væri minnst á rjúpnaveiði. En hinn hv. málsvari Alþb., hv. þm. Stefán Jónsson, tók af öll tvímæli um sína afstöðu og lagðist gegn þáltill. þessari og málinu í heild, ekki af því að þetta væri vont mál, heldur vegna þess að Alþfl. skyldi flytja það. Heift hans í garð Alþfl. er svo mikil að hann hugsar sig ekki tvisvar um, áður en hann lýsir því yfir að vissulega sé málið að verulegu leyti gott mál, en hann muni ekki greiða því atkv., bara vegna þess að Alþfl. stendur að því. Þetta er lærdómsrík afstaða sem hér hefur komið fram hjá Alþb.- mönnum. Það er lærdómsríkt hver sú afstaða er og það er ekki síður lærdómsríkt af hverju hún er tekin.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði að almenningi væri best tryggður réttur til umgengni við landið með því að skipuleggja útivistarsvæði sem almenningi stæðu til boða. Það er rétt, svo langt sem það nær. En það hefur ekki alltaf reynst auðhlaupið að koma því í framkvæmd. Árið 1970 flutti þáv. hv. þm., núv. hæstv. ráðh., Matthías Bjarnason, ásamt öðrum þm. Sjálfstfl., Pétri Sigurðssyni, frv. til laga um þjóðgarð á Vestfjörðum. Í 1. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðgarður skal vera á Vestfjörðum, er takmarkast að sunnan af línu sem dregin er úr botni Hrafnsfjarðar í botn Furufjarðar. Þjóðgarður þessi er friðlýst svæði allra íslendinga. Hið friðlýsta svæði er eign íslensku þjóðarinnar og skal vera undir vernd Alþ.“

Í grg. er þessu máli frekar fylgt úr hlaði og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það svæði, sem með frv. þessu er lagt til að gera að þjóðgarði, nær yfir Sléttuhrepp og hluta úr Grunnavíkurhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Á því er engin byggð nema vitavarðarbústaður við Látravík. Síðustu íbúar hreppsins yfirgáfu hrepp sinn fyrir u. þ. b. tveimur áratugum. Mannvirki á þessu landssvæði eru víða hrunin eða í slæmu ástandi með örfáum undantekningum. Þetta landssvæði býr yfir fjölbreytilegri náttúrufegurð. Þar eru fögur vötn, ár og ósar með miklum silungi, stórfengleg björg iðandi af fugli og lífi. Í hlíðum Hornbjargs eru t. d. einhver bestu berjalönd sem finnast í landi okkar. Á þessu landssvæði er víðast ósnortin náttúr.“ — Síðar segir: „Á undanförnum árum hefur áhugi fólks, sem býr í þéttbýli, farið vaxandi á því að leita sér afþreyingar í kyrrð og fegurð óbyggðra svæða. Þar hafa þúsundir manna fundið hvíld og frið frá önn hversdagslífsins og þeirri spennu og hraða sem fylgir lífi fólks sem býr í fjölmenni. Óvíða er hægt að njóta jafngóðrar hvíldar og í umhverfi sem hefur að bjóða tilkomumikla náttúrufegurð og möguleika til að njóta margvíslegra gæða slíks umhverfis.“

Það voru sem sagt tvær röksemdir uppi fyrir þessu frv. hv. þm. Sjálfstfl.: Í fyrsta lagi sú mikla náttúrufegurð sem þarna var um að ræða og í öðru lagi að þarna hefði ekki verið byggð í tvo áratugi og ætti því að vera hægt um hönd að gera þetta fagra svæði að þjóðgarði. En hvernig tókst til. Frv. dagaði uppi í meðförum Alþ. Og hvernig stóð á því? Ástæðan var sú að ýmsir menn, m. a. mjög fjársterkir aðilar hér í Reykjavík, áttu meginhlutann af þessu jarðnæði og þeir neituðu að fallast á frv. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og Péturs Sigurðssonar um að gera þetta svæði að þjóðgarði, vegna þess að þeir hugðu sér gott til glóðarinnar síðar að græða á þeim landsnytjum sem þarna voru. Þarna var ekki um að ræða jarðir eða héruð sem voru í byggð, heldur héruð sem um margra ára skeið, heila tvo áratugi, höfðu verið óbyggð. Enginn maður bjó þarna utan vitavörðurinn á Horni með sína fjölskyldu, en samt sem áður voru íbúar Reykjavíkursvæðisins og aðrir fjársterkir menn í þéttbýlinu búnir að ná undir sig svo til hverri einustu jörð þarna og hugsuðu sér gott til glóðarinnar með silungsveiðileyfasölu og öðru slíku þegar aðstæður sköpuðust fyrir slíkt þarna og neituðu að láta þjóðina fá þetta land sem þjóðgarð. Sú leið, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. bendir á að sé auðfarinn til að útvega svæði til útivistar fyrir almenning á Íslandi, er því ekki eins auðveld og sýnist við fyrsta kastið.

Hv. þm. ræddi einnig nokkuð um þjóðargjöfina svonefndu sem ég talaði um í fyrri ræðu minni í dag. Hann talaði í hálflítilsvirðandi tón um einhverja fjármuni sem þjóðin hefði ráðstafað til þess að græða upp landið í sambandi við afmæli Íslandsbyggðar. 1000 millj. kr. af almannafé kallaði hann „einhverja“ fjármuni. En hann tók það sérstaklega fram og spurði: Hvernig getur 8. landsk. þm. ætlast til þess að þessari gjöf fylgi einhver réttur, — að þjóðin, sem ver 1000 millj. kr. til að græða upp landið, öðlist einhvern rétt fyrir það fé? Ég hef alltaf skilið þetta mál svo, að þegar rætt var um þjóðargjöfina væri verið að ræða um gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sin. En hv. 2. þm. Norðurl. v. virðist ekki hafa sama skilning og þess vegna spyr ég hann — hann er að vísu ekki viðstaddur, en góðviljaðir menn gætu þá komið spurningunni til hans: Hverjum var þjóðin að gefa þessar 1000 millj. kr.? Var þjóðin að gefa örlitlum hópi landeigenda þetta fé eða var hún að gefa sjálfri sér gjöf? Það land, sem sagt var við þjóðina að hún ætti þegar var verið að fá hana til að láta þetta fé af höndum, um það er nú sagt hér á Alþ.: Þetta er ekki land þjóðarinnar. Þetta er ekki gjöf sem einhvern rétt gefur. Þetta er land sem er í höndum örfárra einstaklinga.

Þá sagði hv. þm. einnig að það væri ekkert nýtt sem kom fram í minni ræðu í sambandi við þær rannsóknir sem gerðar hefðu verið af Veiðimálastofnuninni um nýtingu á veiðivötnum. Þessu vil ég eindregið mótmæla, einfaldlega vegna þess að með þessum rannsóknum er verið að skapa nýjan skilning á nýtingu veiðivatna á Íslandi. Ég vil nefna eitt lítið dæmi, eina litla sögu sem ég get sagt ykkur í sambandi við þetta.

Það er ekki lengra síðan en svo sem eins og hálfur mánuður að ég átti tal við mann, sem að vísu er ekki bóndi, heldur á ásamt öðrum veiðiréttindi í fiskivatni hér ekki langt frá. Nokkru áður en ég átti tal við þennan mann hafði ég einmitt verið að ræða við sérfræðing Veiðimálastofnunarinnar um hans rannsóknir og hann tók þetta vatn sérstaklega sem dæmi um fiskivatn sem væri ofsetið, það væri of mikið af fiski í því þannig að það skilaði ekki réttum arði. Ég bar þetta í tal við viðkomandi veiðiréttareiganda og hann sagði mér hvað hann ætlaði að gera. Hann ætlaði núna með vorinu að fá sér tvo bíla af loðnu og láta sturta loðnunni í vatnið, vegna þess eins og hann sagði: Fiskur er svo lítill í vatninu og smár vegna þess að það er ekki nóg æti fyrir hann. Aðgerðir eins og þessar, að láta sér detta í hug að fara með tvo fulla flutningabíla af loðnu og sturta þeim út í veiðivatn, geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar því að auðvitað verður þetta rotnunar- og ýldubingur í vatninu, en nýtist fiskinum ekki til fóðurs.

Þetta er lýsandi dæmi um þá afstöðu sem fjölmargir veiðiréttareigendur hafa haft, og ég vil sérstaklega taka fram að það á frekar við menn í þéttbýli sem komist hafa yfir veiðiréttindi í ám og þó sérstaklega í vötnum heldur en bændurna, því að þeir eru þeirrar skoðunar, margir þessir veiðiréttareigendur, að þeir eigi fyrst og fremst að standa gegn því að almenningur fái aðgang að þessum vötnum. Mér er það jafnljóst og fjölmörgum ykkar að það eru mörg fjallavötn, t. d. uppi á Auðkúluheiði, sem eru í eigu einstaklinga sem ekki eru bændur og þeir meina öllum aðgang að þessum vötnum nema sjálfum sér, koma þarna kannske viku, hálfan mánuð eða þrjár vikur á sumri, liggja þar við þennan stutta tíma og meina svo öllum öðrum þar aðgang að. Rannsóknir þessa sérfræðings í vatnafiskum hafa hins vegar leitt það í ljós eins og ég talaði um hér áðan, að það, sem brýna nauðsyn ber til að gert verði ef íslendingar og þá ekki síður veiðibændur en aðrir ætla að fá fulla nýtingu af veiðivötnum sínum, er að auka mjög veiðarnar í vötnunum til þess að koma í veg fyrir að þau séu ofsetin. Það væri bændum og öðrum veiðiréttareigendum til mikils hagræðis og hreins fjárhagslegs ávinnings ef í staðinn fyrir boðin og bönnin, sem gilda um þessi veiðivötn, væri hafinn áróður í þá átt að hvetja almenning til þess að stunda veiði í þessum vötnum, því að aðeins með því móti að taka margfalt meira úr þeim heldur en nú er gert skapast aðstæður til þess að hagnýta þau þannig að af þeim fáist mestur arður. Þessar niðurstöður marka því algera stefnubreytingu frá því viðhorfi sem ríkt hefur hjá a. m. k. meginþorra íslendinga og þá einkum og sér í lagi þeim sem ekki stunda búskap við vötnin, heldur hafa keypt þau til þess að leika sér þar sjálfir og e. t. v. selja veiði í vötnunum við okurverði, Þarna er um algera stefnubreytingu á viðhorfi að ræða ef þessi niðurstaða sérfræðingsins reynist rétt, sem ég dreg ekki í efa, vegna þess að hann hefur sannað hana t. d. með tilraunum sem hann hefur látið gera í tilteknum vötnum sem hafa sýnt miklu, miklu meiri arð og miklu meiri nytjar eftir að búið var að fara að ráðleggingum hans um veiði í þeim heldur en áður.

Hv. 2. þm. Norðurl. v., sem hér er nú kominn í salinn, sagði einnig í sinni ræðu að hann þvertæki fyrir það að hann hefði áður sagt hér um tilgang Alþfl. með flutningi þessarar þáltill., að þar væri eitthvað vafasamt á ferðinni, og þvertók einnig fyrir að sú væri sín skoðun að það kynni að vera hætta á því, ef till. yrði ekki drepin á þessu þingi, að fólk gleptist til fylgis við hana. Hann sagðist hafa sagt: aðrir segja og sumir halda o. s. frv. — og er það gott út af fyrir sig að fá yfirlýsingu frá honum um það að hann sé hvorki í hópi annarra né sumra.

En að loknu þessu venti hv. þm. kvæði sínu í kross og sagði og lagði út af því í nokkuð löngu máli að það væri ekki endilega víst að mál eða málstaður væri góður þótt það væri tiltölulega auðvelt að fá fólk til fylgis við hann. Hann minntist hvorki á suma né aðra í þessu sambandi, þannig að maður verður að ætla það þangað til betri upplýsingar liggja fyrir að þetta sé hans persónulega skoðun. Þessi niðurstaða, að málstaður þurfi ekki endilega að vera góður þótt fólk gangi til fylgis við hann, getur að sjálfsögðu verið ágæt niðurstaða hugleiðinga hv. þm. um fylgisaukningu Sjálfstfl. í síðustu kosningum, að ekki hafi hann fengið hana vegna þess að málstaður inn hafi verið góður. En við skulum nú frekar hafa það undantekningu heldur en aðalreglu, því að það er nú einu sinni svo að framgangur máls byggist á því að hægt sé að fá fylgi við það, og hið aukna fylgi við þetta mál er vegna þess til komið að þetta mál er gott mál, og það fylgi mun á endanum leiða til þess að málið fæst fram.

Þá vík ég að lokum nokkrum orðum að ræðu þeirri sem hv. þm. Stefán Jónsson, b. þm. Norðurl. e., flutti hér áðan. Hann gaf okkur ágæta sýn, þessi hv. þm., inn í sitt eigið hugarskot um hvað ræður afstöðu hans til mála. Það er ekki hvort mál sé gott eða slæmt, heldur hvort honum er persónulega vel eða illa við þá sem málið flytja, Það er meginatriðið, en ekki hitt hvort hann getur verið samþykkur málinu sjálfu eða ekki.

Hv. þm. sagði eins og svo margir aðrir að till. þessari væri fyrst og fremst stefnt gegn bændum. Ég verð nú að segja eins og er að mér virðist skilningur hans á þessari þáltill. jafn myrkvaður og heimili fjölmargra kjósenda hans hafa verið í vetur vegna afreka flokksbróður hans í orkumálum norðlendinga, því að meginatriði þessarar till. er ekki stefnt gegn bændum. Að meginatriði er þessari till. stefnt gegn því að jarðhiti, sem á að vera í almenningseign, sé hagnýttur til óhóflegrar gróðastarfsemi á kostnað almennings. Hv. þm. Stefán Jónsson segir: Ég er samþykkur að svo skuli ekki vera gert, en ég get hins vegar ekki fallist á það af því að Alþfl. flytur málið. — Þessu frv. er líka stefnt gegn því að t. d. önnur hlunnindi jarða, svo sem veiðiréttur, séu hagnýtt til óhóflegrar okurstarfsemi gagnvart almenningi í landinu. Hv. þm. Stefán Jónsson segir: Ég get fallist á þetta út af fyrir sig, en ég get ekki stutt það af því að Alþfl. flytur það. — Þá er þessu frv. einnig stefnt gegn því að ekki verði lagt út í það af einstaklingum eða fámennum hópum að stunda almenna okurstarfsemi á landgæðum eða lóðum og lendum á kostnað íbúa þéttbýlis, á kostnað almennings. Hv. þm. Stefán Jónsson segir: Ég get svo sem vel skilið þetta og sætt mig við það, en ég greiði því ekki atkv. vegna þess að Alþfl. flytur það, og Alþfl. er vondur flokkur, hann liggur á maganum undir íhaldinu. — Þetta er afstaða hv. þm. Sú óværa, sem hv. þm. lýsti hér áðan, virðist sem sé hafa nagað hans skilningstré svo niður í rót að þar tórir ekki einu sinni lífandi laufblað lengur.

Þá sagði hv. þm. einnig að hann snerist gegn málinu, eins og ég hef margoft áður fram tekið, vegna þess að Alþfl. flytti það, hann mundi heldur vilja velja sér aðra fylgisveina, og það hefur hann nú gert og gerði í dag. Hvaða fylgisveina valdi hann sér? Jú, jú, hann valdi sér Framsfl.-þm. sem hér hafa talað og það má kannske eðlilegt teljast því að hv. þm. mun ekki vera ókunnugur í þeim herbúðum. En einnig valdi hann sér þm. Sjálfstfl. til fylgis og vona ég að honum gagnist fylgdin vel, því að vissulega eru bæði hann og þeir vel að liðsemdinni komnir.

Þá sagði hv. þm. að það væri einhver fnykur í sínum nösum sem hann bjóst við að legði frá Alþfl. Ég verð að segja eins og er, að það gefur manni ekkert bréf upp á pólitískt lyktarskyn þótt menn hafi verið í tveimur flokkum eins og þessi hv. þm. og þá síst þegar stigið er ofan frá öðrum og niður til hins. Hins vegar er athugandi fyrir þennan hv. þm. að gá að því hvort þessi illi fnykur, sem hann þóttist finna á sínum nýja verustað, sé ekki frekar þar til kominn vegna þess að í þeim vistarverum hafi menn gleymt að opna glugga, fremur en að ilmurinn sé utan að frá kominn, hvort ekki megi segja hið sama um fylgisveina hans í hinum nýja verustað og Einar Benediktsson sagði í kvæði sínu um andrúmsloftið við Fróðárhirð, að „sviðaþefinn leggi af þeirra eigin ló“. Væri sá félagsskapur líka í fullu samræmi við það framferði hv. þm. sem kom í ræðu hans áðan og virðist vera uppvakið illyrði og níð um okkur Alþfl.-menn að ósekju, einfaldlega vegna þess að hingað til a. m. k. hafa umr. um þetta mál verið málefnalegar og hógværar þangað til rétt fyrir kvöldmatarleytið í kvöld, að hv. þm. kvaddi sér hljóðs, — uppvakið, sagði ég, og minni á með tilvísun til svipaðrar ábendingar hv. þm. hér fyrr í kvöld — að orðalagið að vekja upp var í fornu máli notað um athafnir þeirra sem til ills voru út gerðir.