18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Þegar ég bað um orðið áðan var það nú í þeim tilgangi að upplýsa það að búið væri að friðlýsa Hornstrandarsvæðið, en hv. 8. þm. Reykv. tók af mér það ómak.

Ég vil þó bæta því við að ég hef þær upplýsingar frá fyrstu hendi að allt samstarf Náttúruverndarráðs við Landeigendafélag Sléttuhrepps hafi verið með miklum ágætum og ég hygg að það sé alveg nýskeð að endanlega hafi verið gengið frá þessum málum. Og menn gera sér kannske grein fyrir því að strangt tekið hafa landeigendur í þessum hreppi, sem löngu er kominn í eyði, ekki lengur möguleika á að hefja búskap ef þeir vildu nema að fengnu samþykki Náttúruverndarráðs. Ég held að það sé nauðsynlegt að nefna þetta vegna þess að hér hefur verið deilt hart um fram komna þáltill. og deiluaðilar gjarnan farið þar út á ystu jaðra. Ein af þeim rökum, sem hafa verið notuð til þess að mæla fyrir till., hafa verið þau að hinir landlausu íslendingar eigi ekki aðgang að hinni frjálsu náttúru. Ég hef ekki heyrt sagt frá nema einu dæmi um það að jarðareigandi hafi meinað ferðamanni umferð um jörðina sína, um landið, en það vill svo til að þessi jarðareigandi var gildur atvinnurekandi hér í Reykjavík, hafði nýlega keypt þessa jörð og nú leit hann á hana eins og garðinn sinn eða lóðina sína hér í bænum. Og ég hygg að þarna rekist á hefðbundin tilfinning bænda í landinu annars vegar varðandi frjálsan umgang fólks um landið og svo sú tilfinning sem stóreignamenn gjarnan hafa, að þeim mun meira sem þeir eiga, þeim mun fastar halda þeir og verja hverja þá eign sem þeir hafa undir höndum.

Nei, ég held að við komum hér að öðru sem nauðsynlegt er að gera, að setja ný skipulagslög. Það hefur verið eftir því leitað af sveitarstjórnarmönnum að það yrði sett í lög að landið væri skipulagsskylt allt, ekki aðeins þéttbýlisstaðirnir, heldur öll sveitarfélög í landinu. Enda þótt jarðir, lóðir eða minni svæði yrðu ekki í einum áfanga skipulögð þröngt, þá væri hægt að setja þar ramma, skipulagsramma, og þá er ég alveg sannfærður um að um allt land er það mikið af jarðnæði í eigu opinberra aðila, ríkis eða sveitarfélaga, að enginn þyrfti undan því að kvarta að hann hefði ekki frjálsan aðgang að náttúru landsins.

Það er raunar ekki að ástæðulausu að umr. hafa orðið hér nokkuð langar, því að hér hefur verið deilt um grundvallaratriði. Þegar þetta mál var á dagskrá hér fyrir nokkrum dögum talaði hv. 2. þm. Reykn., Oddur Ólafsson, og taldi lítið athugavert við það, þó að menn úr þéttbýlinu keyptu sér jarðir hér og þar til þess að setjast að á sumrum, bændur mættu nýta þessi tún. Mér komu þá í hug ummæli merks bónda í Borgarfirði sem sagði að bændur yrðu að gæta þess vel að halda vöku sinni, að landið bókstaflega skriði ekki undan fótum þeirra. Hér er sú hætta á — og það hygg ég að allir þm. séu raunar sammála um — að með jarðabraski kunni sumar sveitir að strjálast svo að byggð að félagslega aðstaðan bresti, og þegar hin félagslega aðstaða brestur er ekki lengur lífvænlegt í viðkomandi sveit og þá er vá fyrir dyrum. Það er þetta sem þjóðin verður að gæta að, og ég hygg að ef jarðalagafrv. verður að lögum séu þar komin lög sem hægt sé að beita til þess að koma í veg fyrir þetta.

Hitt er svo annað mál að ég get að ýmsu leyti tekið undir þætti sem hafa verið túlkaðir hér af þeim flm. sem flytja till. Ég held að við stöndum frammi fyrir því að á næstu áratugum verði breytingar í búskaparformi íslendinga og er e. t. v. ekki hér staður og stund til þess a$ ræða það. Ég held að einyrkjabúskapurinn dragist saman, en það rísi aftur bú þar sem tveir, þrír eða fleiri vinna saman og fái meiri möguleika til frístunda og til starfsskiptingar. En ég vil leggja á það áherslu að slíka breytingu er ekki hægt að gera með allsherjar valdboði. Ég vil taka undir það, að mörgum einyrkjabónda, sem hefur skilað drjúgum skerfi til þjóðfélagsins bæði í framleiðslu og uppbyggingu, er það sáluhjálparatriði að eiga sitt eigið land, eiga sína eigin jörð, og því atriði eigum við ekki að kippa frá honum. En ég held, að enda þótt menn hafi búið með erfðafestu á ríkisjörð hafi þeir líka fundið sína fullnægingu í þeim búskap sem þeir hafa rækt.

En, herra forseti, í þessum löngu umr., sem hér hafa farið fram, finnst mér að ekki hafi verið mörkuð af flm. till. ákveðin stefna um það hvernig yfirtaka ríkisins ætti að fara fram. Þar kemur fram veruleg mismunun á eignarrétti þeirra, sem eiga land og eignarrétti hinna, sem eiga aðrar eignir. Ég hef ekki séð að þjóðin hafi ekki getað nýtt fallvötn landsins, enda þótt þau hafi að formi til ekki verið sameign þjóðarinnar þegar hafist var handa. Ég vil nefna sem dæmi að þegar fyrst var ráðist í virkjun á Vestfjörðum voru þær jarðir, þar sem vatnasvæðið liggur í einstaklingseign eða einstaklingaeign, allar teknar eignarnámi. Við höfum í landinu lög um eignarnám, og ég vil líta svo á í raun og veru að ýmis gæði landsins eigi að vera þjóðinni sameiginleg á sama hátt og fiskimiðin eru okkur sameiginleg. En hér er við annað mál að glíma. Það hefur aldrei neinn einstaklingur átt sérstakan rétt til miðanna. En ég held að þessi mál, bæði varðandi jarðvarmann í iðrum jarðar sem og fallorku vatnanna, sé hægt að leysa í þágu alþjóðar án þess að setja svo ákveðin stefnumarkandi lög sem þáltill. hljóðar upp á.