18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla nú í þessu stutta máli, sem ég mun nú auka við það sem ég hef áður sagt um þessa þáltill., að byrja á því að leiðrétta lítils háttar misskilning hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur.

Ég stóð hér ekki upp áðan sérstaklega til þess að verja eignarréttinn almennt sem slíkan í þeirri mynd sem flokksbræður hv. alþm. túlka hann og dýrka. Fyrir mér er hann ekki heilagur á þann hátt sem slíkur. En ég vék lítillega að rétti bóndans til þeirrar jarðar sem hann yrkir. Sá sem ræktar jörðina, þá jörð sem hann ræktar, þá jörð á hann og skiptir ekki meginmáli hvort kveðið er á um þann rétt með lögum um erfðafestu eða með eignarréttarlögum. Það skiptir ekki meginmáli. En hinu hélt ég fram að annað væri þarfara viðfangsefni nú fyrir íslenska sósíalista en að vega að eignarrétti þeirra bænda sem yrkja jörðina sína.

Og þá komum við að hinni spurningunni: Hverjir eru bændur og hverjir eru jarðeigendur á Íslandi og hverjir eru veiðiréttareigendur? Sem dæmi um það hversu ótryggur ég er eignarréttarhugsjóninni, þá er ég ekki aðeins því hlynntur að gerðar verði ráðstafanir til þess að komið verði í veg fyrir brask með jarðnæði, að sett verði lög sem hefta nokkuð rétt bænda til þess að selja hverjum sem er jörðina sína, heldur er ég meira að segja hlynntur því að sett verði lög sem leiði til þess að jarðir verði teknar af þeim sem hafa keypt þær vegna hlunninda, en sitja þær ekki, og þeim skilað aftur í hendur bænda til eðlilegra nytja. Ég er hlynntur því að hróflað verði við óeðlilegu og óæskilegu eignarhaldi útarfa á einstökum jörðum sem gera það nú að verkum eins og háttað er í landinu að enginn bóndi hefur efni á því að kaupa þær eða sitja þær, svo sem við vitum dæmi um með jarðir á Breiðafirði, í eyjunum á Breiðafirði, og persónulega er mér kunnugt um það að samflokksmenn hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur hafa verið þess fýsandi sumir hverjir að þarna væru gerðar sérstakar ráðstafanir, sem óneitanlega mundu hrófla töluvert við eignarréttinum.

Hv. þm. gat bændanna á Snæfjallaströnd sem bundust samtökum um að koma upp rafstöð, einstakri í sinni röð, og kallaði þetta einstaklingsframtak. Þar komum við að skilgreiningu á hugtaki sem mikið er notað og að mínu viti af misjöfnum frómleik. Svo að við víkjum aftur að afstöðu minni til eignarréttar og til einkaframtaks, þá hlýt ég að lýsa yfir því að ég hef tröllatrú á einkaframtaki sem byggist á samstarfi fjöldans en ég vil ekki heyra fyrirbærið nefnt einkaframtak í þeirri merkingu sem Sjálfstfl. yfirleitt leggur í það orð. Ég hygg að þetta hafi bændur á Snæfjallaströnd ekki gert til þess að græða á því prívat og persónulega hver fyrir sig, heldur hafi þeir í hinum sanna anda sósíalismans, félagshyggjunnar, bundist samtök um um að leysa sameiginlegan vanda til bjargar þeim öllum.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur stundum verið nefndur — af svona lágmarks góðgirni vil ég nú segja því að það liggur við að ég hiki við að taka það mér í munn — hann hefur verið nefndur „Rödd húsbóndans“. Röddinni heldur hann þó að húsbóndatign hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar hafi nokkuð verið skert og selt niður. Það er kannske þakkarvert að vera húsbóndahollur. Eigi að síður laumaðist að mér ónotalegur grunur um það áðan að þekking Alþfl. á málefnum íslenskra bænda grundvallaðist kannske á því að einmitt menn eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason fræddu hvor annan um þessi mál.

Það er ekki alveg satt að afstaða mín til þáltill., sem hér liggur fyrir, mótist af hatri mínu á Alþfl., þó að ég ítreki það að ég velji mér annað kompaní á vegferðina í þessu máli sem öðrum heldur en sérstaklega valda þm. þess flokks. Afstaða mín í þessu máli mótast að vísu af afstöðu til manna, til stétta, til íslenskra bænda, miklu fremur en til langskilgreindra og útþvældra hugmynda í sambandi við absalútan eða ekki absalútan eignarrétt.

Ég tek undir það með hv. þm. Steinþóri Gestssyni um það að ég fæ ekki með nokkru móti séð hvernig rannsóknir Jóns Kristjánssonar fiskifræðings geta með nokkru móti talist stuðningur við þessa sérstöku þáltill. Alþfl. Þær fjalla m.a. um úrkynjun silungs í veiðivötnum. Ég hef lesið þessa skýrslu mjög ítarlega, eins og hv. þm. Steinþór Gestsson, og finn þessu ekki nokkurn stað nema ef vera skyldi í skýrslunni um Apavatn.