19.03.1975
Efri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

174. mál, áburðarverksmiðja á Norðausturlandi

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég var því miður ekki kominn hér í hv. d. þegar hv. flm. hóf ræðu sína, svo að ég kann ekki skil á því hvað hann hafði áður sagt, enda breytir það ekki því sem ég ætlaði að segja. En ástæðan fyrir því, að svo var, var sú að ég reiknaði með að tala fyrir máli í hv. Nd. sem færðist hins vegar til. Það, sem ég vildi hins vegar segja við þessa umr. málsins, er það eitt, að ég er í þann veginn að ganga frá skipun n. til þess að athuga um rekstur áburðarverksmiðju hér á landi, bæði með tilliti til þess, hvort heppilegt sé að stækka þá verksmiðju sem fyrir er, og einnig um það, hvort reisa eigi aðra nýja. Ég mun láta það í vald þeirra nm. sem fá þetta verkefni hvor leiðin verði talin heppilegri. Ég tel í því sambandi að það geti verið alveg eins heppilegt að reisa þessa verksmiðju, ef það er talið hagkvæmt að við t. d. gætum flutt út áburð, sem ekki er nú öruggt að hagkvæmt sé talið, en ekki heldur talið útilokað, — þá tel ég að það geti verið heppilegra að sú verksmiðja yrði reist annars staðar en við hliðina á þeirri sem hér er fyrir. Ég mun því ekki í því skipunarbréfi, sem ég gef, skipa nm. fyrir neitt ákveðið í því, heldur gefa þeim möguleika til þess að velja og hafna, en benda á þær leiðir báðar, að til athugunar komi stækkun núgildandi verksmiðju eða bygging nýrrar. Það mun ábyggilega hafa veruleg áhrif á málið, hvort hægt væri að hugsa sér að við gætum flutt út áburð með sæmilegum hagnaði eða ekki.

Á þetta vildi ég benda í sambandi við þetta mál. Ég hef ekki hugsað mér að það væri einn staður tekinn öðrum fremur í því sambandi, heldur væri þetta athugað nokkuð um landið vítt og breitt, eftir því hvað henta þætti ef um nýja áburðarverksmiðju væri að ræða.

Eins og kunnugt er, þá er það svo að Áburðarverksmiðjan hefur mjög hagkvæmt verð á raforku, langt undir því sem hér var talað um, og við það yrði að sjálfsögðu að miða einnig í framtíðinni. En ég vildi láta það koma fram, að í minni till. til þeirra nm., sem í þetta eru valdir og ég geng nú fljótlega frá, verður einnig athugað að um nýja verksmiðju geti verið að ræða ekki síður en stækkun á þeirri sem fyrir er.