19.03.1975
Efri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

174. mál, áburðarverksmiðja á Norðausturlandi

Flm. (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Mér komu óneitanlega í hug orð Jóhannesar heitins Jósefssonar á Borg, glímukappa, þegar hv. þm. Ingi Tryggvason reyndi að vekja, að því er honum fannst náttúrlega sjálfum ekki að þarflausu, athygli mína á því að það kynni að verða hægara sagt en gert að koma á barterverslun — vöruskiptaverslun með íslenskar landbúnaðarafurðir við þær þjóðir sem mest skortir mat. Ég efast ekki um að til þess þurfi að taka hendinni. En þó er það svo, eins og Jóhannes heitinn á Borg sagði: „Það stekkur enginn lengra en hann hugsar.“ Og að mínu viti er tími til þess kominn fyrir nokkru að þarna verði tekið til hendinni. Ég vil alls ekki varpa rýrð á störf sölusamtaka framleiðenda í hinum ýmsu greinum, hvorki til lands né sjávar, en um hitt hef ég óljósan grun, að e. t. v. mætti vinna betur að þessum málum en gert hefur verið, og ég hef meira en óljósan grun, ég er sannfærður um að ekki mundi saka að reyna.

Hv. þm. Ingi Tryggvason innti mig eftir því hvaðan ég hefði þá staðhæfingu sem fram kemur í grg., að ljóst sé að raforku verði ekki varið til hagkvæmari nota, svo að sæmilegt sé, en til áburðarframleiðslu. Ég hygg að hv. þm. hafi svo sem öðrum þm. í þessari hv. d. verið ljóst í skugga hvaða efnahagsráðstafana og atvinnumálaráðstafana þessi þáltill. er borin fram. Og það ætla ég, að varlegra hefði verið fyrir hv. þm. að inna nánar eftir rökum fyrir hagkvæmni þess að selja íslenska raforku til málmblendiverksmiðju uppi í Hvalfirði í þágu ameríska fyrirtækisins Union Carbide að hyggja nánar eftir rökunum fyrir hagkvæmni þess heldur en að verða nú altekinn ekkakenndum efa um það hvort hagkvæmt kunni að vera að nota raforkuna til framleiðslu á áburði sem við þörfnumst í landinu fyrir íslenskan landbúnað á þessu vori. Ætla ég að við verðum, ef guð lofar, aflögufærir um raforku í þessu skyni í vaxandi mæli á næstu árum. En þann misskilning vil ég leiðrétta, sem fram kom í ræðu hv. þm. Inga Tryggvasonar, að þáltill. mín sé eins konar viðurkenning á nauðsyn þess að við rennum fleiri stoðum undir íslenska atvinnuvegi með stóriðju. Ég er ekki að tala um stóriðju. Ég tók fram í ræðu minni að það, sem fyrir mér vakir, er fyrst og fremst, að við getum orðið sjálfum okkur nógir um áburðarframleiðslu, ekki miðað við notkunina eins og hún kemur fram í pöntunum á þessu vori, heldur miðað við þörfina eins og hún er raunverulega til aukningar á framleiðslu á íslenskum matvælum og til þess að bæta afréttarlöndin okkar. Ég tók það fram í framsöguræðu minni að mér fyndist það fráleitt, þegar hugsað væri um áburðarframleiðslu á Íslandi, að bera það í orð, hvað þá heldur meir, að við yrðum samkeppnisfærir um framleiðsluverð miðað við fob-verð á áburði við Persaflóa þar sem framleitt er úr jarðgasi. Því fór víðs fjarri. Ég held að ef við reiknum dæmið þannig, þá verði okkur kannske ekki stætt á því heldur að sneiða hjá því að miða við framleiðsluverð á landbúnaðarvörum erlendis. Mig minnir að ég hafi fyrir skemmstu lesið í amerísku tímariti að það þætti ekki hagkvæmt að reka svínabú með minni framleiðslu en 15 þús. tonnum á ári. Við verðum að nota allt annan mælikvarða þegar við ræðum um þörf fyrir áburðarverksmiðju á Íslandi.

Það er orðið ákaflega brýnt að við gerum okkur grein fyrir því, að á, tímunum sem fram undan eru, sem blasa við okkur, þá er miklu meiri þörf að við verðum sjálfum okkur nógir um ýmsa grundvallarframleiðslu heldur en að við tökum þátt í markaðskapphlaupi stórra auðhringa erlendis. Það kreppir nú að í hinum svonefnda tæknikapítalíska heimi. Þegar ég nefni hinn tæknikapítalíska heim, þá vil ég vekja athygli á því að þar á ég ekki aðeins við auðvaldslöndin í vestri, heldur á ég við iðnaðarríkin sem miðað hafa framleiðslu sína við vaxandi hagvöxt, við hröðun á hagvexti. Sum af blessuðum Austur-Evrópuríkjunum okkar og vel flest koma þar með inn í. Sú kreppa, sem við sjáum framan í núna í Vestur-Evrópu og Ameríku, sem kölluð er næktakreppan, stafar, hvort sem mönnum er ljúft eða leitt að viðurkenna það, e. t. v. fyrst og fremst af því að auðlindir jarðar eru að þrjóta.

Á næstu áratugum, — enginn okkar, sem hér sitjum inni, þarf að verða sérlega gamall maður til að lifa þá tíma, — þá mun sú þjóð ein þykja vel sett sem er sjálfri sér nóg um matvæli. Til þess að framfleyta á þessu landi þegar að því kemur að olíuna þrýtur á aflvélar fiskiskipa okkar og við lendum þrátt fyrir allt, þó að við höfum ærna fallorku í vötnum okkar og á háhitasvæðum okkar, í orkukreppu, — til þess að framfleyta 200 þús. manns á þessu landi þurfum við að nytja gæði jarðar, þá þurfum við á því að halda að vera sjálfum okkur nógir um tilbúinn áburð.

Ég ætla að vekja athygli ykkar á því, með hvaða hætti arabarnir hafa notað olíuna í sinni pólitísku baráttu, pólitísku þjóðfrelsisbaráttu sem þeir heyja nú gagnvart ríku þjóðunum. Það hvarflar ekki að mér efi um það, að svo geti farið að þeir muni nota yfirráð sín yfir tiltölulega ódýrum tilbúnum áburði á sama hátt í sinni pólitísku baráttu, auk þess sem mér er tjáð að tilbúinn áburður, sem fluttur yrði frá Port Said til Íslands, mundi fjórfaldast í verði á leiðinni hingað sökum flutningsgjalda, miðað við fragtir eins og þær eru í dag. Frá Noregi tvöfaldast þessi áburður aðeins að kostnaði miðað við fragtir eins og þær eru í dag.

Ég hafði orð á því í framsöguræðu minni, að þótt ég mælti hér fyrir áburðarverksmiðju á Norðausturlandi, nánar tiltekið í Norður-Þingeyjarsýslu, þá þættist ég sjá fram á það að þörf yrði fyrir aðra slíka og þá þriðju í landinu. Ekki lái ég þeim það, hv. meðþm. mínum, Halldóri Ásgrímssyni og Helga F. Seljan, þótt þeir vildu gjarnan sjá þá verksmiðju rísa á Austurlandi. En við sjáum fram á það nú að við munum verða í Norðurl. e. aflögufærir um þau 15 mw. sem þyrfti til framleiðslu á því ammoníaki, sem nú þarf til áburðarframleiðslunnar í landinu, og mjög sennilega fyrir þeim 15 megavöttum, sem þarf að auki til þess að uppfylla þá þörf sem raunverulega er fyrir hendi í landinu ef við tökum tillit til þess að þarf að bera meira á landið en nú er gert. Það er verðugt andsvar, ef við hyggjum að byggðastefnu, — það er verðugt andsvar við því atferli, sem nú er á döfinni af hálfu valdamanna í sambandi við framleiðslu á járnsíli, að við krefjumst þess nú að ætluð verði raforka til framleiðslu á tilbúnum áburði í lítilli verksmiðju í Norðurl. e. til þess að bæta úr þörf landbúnaðarins fyrir þessa vöru, það er verðugt andsvar.

Ég tek undir orð hv. þm. Helga F. Seljans um það, að ekki muni standa á atfylgi Alþb. við hv. þm. Inga Tryggvason þegar að því kemur að hann vilji í raun og veru tryggja óskert kjör bænda, en það ætla ég að verða muni í samstarfi við annan stjórnmálaflokk en þann sem hann nú þjónar.