19.03.1975
Efri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2520 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

174. mál, áburðarverksmiðja á Norðausturlandi

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla að hætta mér í það að taka til máls um þessa gagnmerku till., sem hér er til umr., jafnvel þó að ég sé í Sjálfstfl. Ég segi þetta af því tilefni sem gafst í síðustu orðum flm. hér næst á undan mér. Mér er ekki fyllilega ljóst með hvaða rétti hann getur sent mönnum slíkan tón hér úr ræðustól á Alþ. Ég dreg ekki í efa að þessi till. hv. þm. er vel meint og hún er til þess ætluð að stuðla að hagstæðari byggðaþróun fyrir þann landshluta sem hann er þm. fyrir. En ég held að framlagning till. hafi þó ekki gefið honum rétt til þess að vera með einkennilegar meiningar í garð annarra manna eða annarra flokka hér í þingi,

Ég ætla nú ekki að ræða neitt verulega um till. sjálfa eða efni hennar, en þær umr., sem hér hafa orðið, hafa gefið mér tilefni til nokkurra hugleiðinga.

Þá er það fyrst að ég vil þakka þær yfirlýsingar sem hæstv. landbrh. gaf hér um það, að hann væri í þann veginn að hleypa ef stokkunum n. sem ætti að kanna áburðarframleiðslumál okkar, sem að mínum dómi er full þörf á að gera.

Í annan stað þykir mér rétt að koma aðeins með nokkrum orðum inn á það sem hv. 7. þm. Helgi F. Seljan gerði hér að umræðuefni og það voru lánamál landbúnaðarins. Hann lýsti þeim ekki vel, sagði í fyrsta lagi að það líti svo út, stofnlán yrðu trauðlega veitt til landbúnaðar á næstunni og það tæki þó út yfir allan þjófabálk að stóru búin virtust gleypa alla þá möguleika sem stofnlánadeildin hefði í þessu efni. Nú veit ég að við hv. 7. landsk. erum sammála um að landbúnaðarframleiðslu þurfi að auka og bæta aðstöðu þeirra sem að henni vinna. En ég hygg að það sé alger fásinna að láta sér detta í hug að sú þróun verði hagstæð sem byggð er upp aðeins í gegnum lítil bú. Það tekst ekki. Og ég vil benda á að það er gersamlega útilokað fyrir mann sem starfar sem einyrki við landbúnað, það er gersamlega útilokað að hann geti notið sama réttar og aðrir landsmenn í sambandi við vinnutíma og orlof. Þetta er svo augljóst að ég þarf ekki að rökstyðja það.

En svo vil ég geta um annað. Það eru til margir menn — og þeirra á meðal er þessi hv. þm. — sem virðast hafa ótrú á stórum búum. En ég vil benda á það, að hér um bil öll stór bú í landinu eru fjölskyldubú. Það er spurning hvort við höfum annað rekstrarform sem er hentugra í landbúnaði heldur en einmitt fjölskyldubúin. Þau stórbú, sem ekki eru fjölskyldubú, eru svo fá í landinu að það má telja þau á fingrum sér. Ég held að við eigum ekki akneitast við það þó að fjölskyldubúin hafi lánamöguleika til jafns við litlu búin.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um þetta mál að þessu sinni, en eins og ég gat um áðan hafa umr. gefið mér tilefni til nokkurra hugleiðinga. Ég er mjög ánægður yfir því að verða var við að skoðanir manna, sem hér hafa talað um landbúnað, falla vel að skoðun minni í því efni, að ég tel að landbúnað á Íslandi verði að efla, og ég er þeirrar skoðunar, að það megi hvergi gefa slakt í því efni.

Fjölgun þjóðarinnar, vöntun fæðu í heiminum, hvort tveggja stuðlar að því að við höfum ekki leyfi til þess að draga af okkur í því efni þar sem við eigum mikla möguleika. Mér þykir vænt um að hafa orðið þess var að það eru hér fleiri innan þessara veggja sem eru sömu skoðunar. En ég held að það þýði ekkert fyrir menn annað en gera sér það ljóst, ef við ætlum að þróa íslenskan landbúnað til þess að framleiða meira og til að rækta stærri lönd, þá verðum við líka að gera okkur ljóst að við erum um leið að breyta landinu okkar. Það verður ekki eins og það var. Það verður ekki hægt að varðveita hverja einustu mýrartó sem til er í landinu, og það er hætt við því að þeir, sem telja það vera mest um vert að heyra spóann vella öðru hverju, fái minna af því kvaki en áður.