19.03.1975
Efri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2522 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

174. mál, áburðarverksmiðja á Norðausturlandi

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Mér þykir hálfleiðinlegt að svo virðist sem þau hólsyrði, sem ég hafði hér um tillöguflutning hv. 5. þm. Norðurl. e., hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá honum og honum helst í minni það sem að einhverju leyti fór í taugarnar á honum, eins og t. d. vissar spurningar sem hann leiddi algerlega hjá sér að svara, um hagkvæmni orkunotkunar til áburðarframleiðslu.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áður, að ég teldi það mikla lyftistöng fyrir íslenskan landbúnað og fyrir byggð á Norðurlandi ef þar yrði byggð áburðarverksmiðja, og á ég þar ekki endilega við stórverksmiðju. En ég vil líka taka það fram, að þegar í sama orðinu er talað um að auka stórlega framleiðslu til útflutnings og að halda uppi góðum kjörum íslenskra bænda, þá verður að tryggja það svo sem kostur er að rekstrarvörur fáist á sem lægstu verði.

Hér var nokkuð minnst á útflutning landbúnaðarvara og raunar minnst á að þar mundi vera hægt að gera betur en gert er í dag. Ekki dettur mér í hug að bera á móti því, að jafnan er hægt að gera betur eða a. m. k. reyna að gera betur. En ég vil jafnframt vekja athygli á því að vandkvæði á útflutningi íslenskra landbúnaðarvara stafa ekki af því að sé svo erfitt að selja vörurnar, það er síður en svo. Það er mjög auðvelt í dag að selja íslenskar landbúnaðarvörur. En það eru örðugleikar á að fá það verð fyrir vörurnar sem við þurfum á að halda til að standa undir framleiðslukostnaðinum hér innanlands. Þetta stafar m. a. af því, að í öllum nágrannalöndum okkar, öllum þeim löndum sem búa við svipuð skilyrði til framleiðslu og þó oftast mun betri, er um verulegar niðurgreiðslur og styrkjagreiðslur að ræða til landbúnaðarins. Þess vegna er það svo, að við höfum ekki eðlilega samkeppnisaðstöðu um landbúnaðarvörur á neinum þeim mörkuðum sem okkur hafa verið tiltækir að undanförnu. Þetta er sá vandi sem við eigum við að fást í sambandi við útflutning landbúnaðarafurða, og ég held að það sé alveg útilokað annað en að hyggja að þessari samkeppnisaðstöðu um leið og við gerum tillögur og undirbúum aukna framleiðslu.

Ég get endurtekið það, að ég gæti ekki hugsað íslenskum landbúnaði betra hlutskipti heldur en það að geta framleitt landbúnaðarvörur í verulegum mæli til útflutnings. Ég vona svo sannarlega að bygging áburðarverksmiðju á Norðurlandi yrði stoð við slíka framleiðslu. En við verðum auðvitað að gera okkur grein fyrir því, að það er allt annað mál að miða framleiðslu fyrst og fremst við innanlandsmarkað og okkar eigin þarfir, eins og við gerum í dag, því að það gerum við vissulega fyrst og fremst, eða hugsa okkur að framleiða í verulegum mæli til útflutnings.

Ég vil taka mjög sterklega undir þau orð hv. 5. þm. Norðurl. e., að við þurfum að leggja mikið kapp á að verða okkur sjálfum nógir um framleiðslu helstu nauðsynja og þá ekki síst landbúnaðarvara. Til þess þurfum við að beita öllum tiltækum ráðum, að við höldum landbúnaðinum í því horfi að hann verði fær um það um langa framtíð, um alla framtíð að gegna þessu hlutverki. En það, sem mér fannst nokkuð á skorta í málflutningi hv. tillögumanns, var einmitt þetta, að ef við ætlum okkur að flytja út til þeirra landa sem nú borga lágt verð fyrir matvæli, þá verðum við líka að geta framleitt vörurnar á lágu verði. (StJ: Þau borga hátt verð fyrir matvæli. Þau þurfa að borga svo hátt verð að fólkið hefur ekki efni á því að kaupa matvælin og deyr úr sulti.) Ég hefði mjög gjarnan óskað eftir því einmitt að fá nánari upplýsingar um það með hvaða hætti er hægt að flytja vörur til Kamerún. Ef það er vissulega svo, að íbúar Kamerún eru tilbúnir að borga það sem hv. þm. kallar hátt verð, þá er það mjög gleðilegt og sannarlega ætti ekki á okkur að standa að flytja þangað vörur. E. t. v. er þetta aðeins fyrir þekkingarskort, menn hafa ekki upplýsingar um þetta. En það væri mjög æskilegt að fá slíkar upplýsingar og þá þannig að á þeim sé hægt að byggja.

Ég spurði áðan um orkukostnaðinn og fullyrðingu um að það væri ekki hagkvæmara að nota raforku til annars en að framleiða áburð. Við því kom ekki svar. En hins vegar virtust þessi ummæli hafa að einhverju leyti farið í taugarnar á hv. flm.

Ég vil aðeins víkja hér að því sem minnst var á lánastarfsemi í íslenskum landbúnaði. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Helga F. Seljan, að það eru ekki fyrir hendi upplýsingar um það að hægt verði að lána til framkvæmda í íslenskum landbúnaði í samræmi við umsóknir þar um. Ég held að ég megi þó fullyrða að það verði gert allt sem hægt er til þess að auka lánagetu Stofnlánadeildar landbúnaðarins umfram það sem nú er vitað um fjárútvegun til þeirrar stofnunar. Ég vil taka undir það, að þó að við verðum e. t. v. að fara svolítið hægar í ýmsum framkvæmdum á þessu ári en við höfum gert að undanförnu, þá er mjög brýnt að ekki verði stöðvun í þessum framkvæmdum frekar en annarri starfsemi í landinu.

Ég vil svo enn endurtaka það til þess að forðast allan misskilning, að ég er hv. 5. þm. Norðurl. e. þakklátur fyrir að hafa vakið máls á þessu nauðsynjamáli, stofnun áburðarverksmiðju á Norðurlandi. En ég vil jafnframt leggja áherslu á það, að við megum ekki í sambandi við stofnum áburðarverksmiðju gleyma hagkvæmnishliðinni. Mér er það kunnugt að nú á undanförnum árum hefur íslensk áburðarframleiðsla átt í harðri samkeppni við erlenda áburðarframleiðslu og hvor áburður um sig hefur ýmist verið ódýrari, sá innlendi eða sá erlendi, og það eru vissir örðugleikar í sambandi við það ef áburðarframleiðslan þarf að vera dýr. Þess vegna þarf líka að því að hyggja hvers konar verksmiðjur í þessu efni eru okkur hagkvæmastar, hvers konar verksmiðjur það eru sem gætu orðið mestar lyftistengur bæði fyrir þau byggðarlög, þar sem þær eru byggðar, og fyrir landbúnaðinn sem atvinnugrein.